FJÁRHAGSÁÆTLUN sveitarfélagsins Árborgar var afgreidd á bæjarstjórnarfundi 22. janúar. Þetta er fyrsta fjárhagsáætlun þess meirihluta sem myndaður var eftir bæjarstjórnarkosningarnar í vor.

FJÁRHAGSÁÆTLUN sveitarfélagsins Árborgar var afgreidd á bæjarstjórnarfundi 22. janúar. Þetta er fyrsta fjárhagsáætlun þess meirihluta sem myndaður var eftir bæjarstjórnarkosningarnar í vor.

Í bókun meirihlutans, fulltrúa Framsóknarflokks og Samfylkingar, segir: "Markmið meirihlutans með þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til er að tryggja lögboðna þjónustu við bæjarbúa, trausta og stöðuga þróun sveitarfélagsins, jafnframt því að lækka rekstrarkostnað málaflokka sem hlutfall af skatttekjum og skapa svigrúm til uppbyggingar í bæjarfélaginu."

Heildarskatttekjur 1.601 milljón

Niðurstaða samstæðureiknings sveitarfélagsins sýnir heildareignir að fjárhæð 4,5 milljarða, langtímaskuldir 2,1 milljarð, eigið fé 1,4 milljarða og aðrar skuldbindingar, þ.m.t. lífeyrisskuldbindingar, að fjárhæð 1,0 milljarður. Handbært fé frá rekstri í heildarsamstæðunni er 337 milljónir. Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum er 470 milljónir. Afborganir lána eru 193 milljónir og ný langtímalán eru áætluð 377 milljónir þannig að lántökur umfram afborganir eru áætlaðar 184 milljónir. Í A-hluta áætlunarinnar (aðalsjóði, eignasjóði og þjónustudeild) kemur fram að heildarskatttekjur bæjarins eru 1.601 milljón, þar af er útsvar 1.208 milljónir. Rekstur málaflokka, ásamt eignasjóði, tekur til sín 1.528 milljónir. Langstærsti einstaki útgjaldaliður bæjarins eru fræðslu- og uppeldismál með 854 milljónir eða 53% af skatttekjunum. Heildarlaunagreiðslur bæjarins eru um 1,1 milljarður eða liðlega 68% af skatttekjum.

Uppsagnir og hærri álagning

Stærstu liðir í framkvæmdum/fjárfestingum á árinu 2003 eru bygging grunnskóla í Suðurbyggð - 1. áfangi (245 milljónir), nýframkvæmdir gatna (99 milljónir), holræsaframkvæmdir (93 milljónir), framlag v. byggingar íþróttahúss við FSu (25 milljónir) og framkvæmdir á vegum Selfossveitna (53 milljónir). Samhliða afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar var samþykkt breyting á fasteignaskattsprósentu í B-flokki. Einnig verður gerð breyting á starfsmannahaldi. Lagt er til að álagningarprósentan hækki úr 1,45 í 1,65. Varðandi starfsmannahald er gert ráð fyrir að stöður markaðs- og kynningarfulltrúa og umhverfisstjóra verði lagðar niður frá og með 1. febrúar 2003.

Röðun og bætt kostnaðarmat

Í bókun meirihluta bæjarstjórnar með áætluninni er þess getið að stjórnendur bæjarfélagsins verði að vera tilbúnir að skerpa línur enn frekar við endurskoðun áætlunarinnar síðsumars.

Í bókuninni segir ennfremur: "Eins og að framan greinir ber fjárhagsáætlun ársins 2003 skýr merki þeirra aðstæðna sem skapast hafa á umliðnum árum, að afgangur frá rekstri er of lítill. Leggja verður kraft í að vinna sig út úr þeim aðstæðum þar sem framundan eru stór og fjárfrek verkefni sem bíða úrlausnar bæjarstjórnar. Stærst þeirra er uppbygging nýs grunnskóla, ný sniðræsi og hreinsistöð fyrir skolp. Einnig eru framundan stór verkefni í skipulagsmálum í vaxandi sveitarfélagi. Forgangsröðun verkefna, bætt kostnaðarmat og eftirlit munu því verða leiðarljós við stjórn bæjarfélagsins."