BEINT og milliliðalaust lýðræði er viðhaft í mjög misjöfnum mæli í lýðræðisríkjum heimsins.

BEINT og milliliðalaust lýðræði er viðhaft í mjög misjöfnum mæli í lýðræðisríkjum heimsins. Sviss er í fararbroddi þar sem almenningur gengur tíðum til atkvæða um allt milli himins og jarðar og minnir fyrirkomulagið í sumum kantónum ríkisins á gang mála á Agora í Aþenu forðum. Næst Sviss í notkun á beinu lýðræði eru mörg ríki Bandaríkjanna þar sem kosið er um hin fjölbreytilegustu mál samhliða kosningum til þings og framkvæmdavalds. Á Íslandi heyrir það hins vegar til undantekninga að milliliðalaust lýðræði sé viðhaft og hefur stöðnunin verið nánast algjör, utan atkvæðagreiðslunnar á vegum Reykjavíkurborgar um framtíð flugvallar í Vatnsmýrinni. Þarna er róttækra breytinga þörf.

Fánaberi framþróunar

Við Íslendingar eigum að vera í fararbroddi við framþróun lýðræðislegra stjórnarhátta. Til að hreyfa við þessu brýna framfaramáli mun undirritaður leggja fram á Alþingi öðru sinni þingsályktun um þróun milliliðalauss lýðræðis og notkun rafrænna aðferða við framkvæmd þess. Tilgangurinn er að þróa lýðræðið áfram í ljósi breyttra samfélagshátta frá þeim tímum þegar fulltrúalýðræðið var sjálfsögð aðferð við að framkvæma vilja fólksins í lýðræðissamfélagi. Vegna aukinnar menntunar, meiri frítíma og betri aðgangs að upplýsingum er morgunljóst að það er löngu tímabært að þróa fulltrúalýðræðið í auknum mæli til þess að fólkið sjálft ráði sínum ráðum í stærstu og veigamestu málefnum þjóðfélagsins hverju sinni. Markmiðið er að Ísland verði tilraunastofa við þróun lýðræðisins og fánaberi framþróunar lýðræðislegra stjórnarhátta, þar sem hinn almenni borgari kemur í sem mestum mæli að meginákvörðunum samfélagsins.

Fulltrúalýðræði fortíðar

Þær miklu breytingar sem orðið hafa á félagslegum og efnahagslegum aðstæðum á Vesturlöndum síðustu áratugi kalla á breytingar á lýðræðisfyrirkomulaginu. Séu menn almennt á þeirri skoðun að valdið eigi að liggja eins nærri almenningi og kostur er hverju sinni. Almenn og góð menntun, mikil tölvueign og meiri frítími kallar á að almenningur hafi miklu meira um hagi sína að segja en áður. Sá tími á að vera liðinn að fulltrúar almennings taki allar ákvarðanir og tímabært að færa valdið í ríkari mæli til fólksins. Fulltrúalýðræðið í óbreyttri mynd er fyrirbæri fortíðar og mikilvægt framfaramál fyrir almenning að milliliðalaust lýðræði verði eflt og það tekið upp, hvort heldur er á sveitarstjórnarstiginu eða í landsmálunum.

Það er brýnt að hafa það að leiðarljósi við stefnumörkun um beint lýðræði að hlutverk sveitarfélaganna verður æ mikilvægara eftir því sem þau stækka og verkefnum þeirra fjölgar. Valddreifingunni frá ríki til sveitarfélaga á að fylgja aukið milliliðalaust lýðræði þar sem valdið er fært frá Alþingi til nærþjónustunnar í sveitarfélögunum. Breytt hlutverk sveitarstjórna kallar á nýjar reglur við alla stóra ákvarðanatöku innan þeirra. Íbúalýðræði felur í sér lausn á því. Þar eru íbúar sveitarfélagsins kallaðir til leiks, fengnir til samráðs um lausnir og skipulag. Enginn veit betur en fólkið sjálft hverjar þarfirnar eru og hvernig íbúar hvers sveitarfélags vilja forgangsraða fjármunum og verkefnum. Samráðsvettvangur íbúalýðræðisins felur einnig sjálfkrafa í sér að deilur og átök minnka til muna og stjórnmálin verða heilbrigðari fyrir vikið. Samræður fara í ríkari mæli fram um sameiginleg mál í stað illvígra deilna.

Vald peninganna

Það fyrirkomulag sem viðgengist hefur síðustu tvær aldirnar í formi fulltrúalýðræðisins hefur að mörgu leyti runnið sitt skeið. Milliliðalaust lýðræði leiðir til heilbrigðari og opnari stjórnarhátta. Þar sem tryggt er að almannahagsmunir ráði för en ekki sérhagsmunir einstakra valdablokka sem geta keypt sér áhrif í krafti fjármagnsins og aukinna áhrifa stórfyrirækja í samfélaginu. Ekki síst í ljósi þeirrar tilfærslu sem hefur átt sér stað á völdum og áhrifum í samfélaginu frá kjörnum fulltrúum til viðskiptalífsins. Beint lýðræði er góð, og jafnvel nauðsynleg, leið til þess að búa svo um hnútana að ýtrustu hagsmunir hins almenna borgara ráði ákvarðanatöku um stærstu hagsmunamál hvers tíma.

Notkun Netsins

Sjálfsagt er talsvert í land með að hægt verði að framkvæma fullkomnar atkvæðagreiðslur á Netinu en mikilvægt er að nýta kosti rafrænna aðferða við að hrinda beinu lýðræði í framkvæmd. Kominn er tími til að lýðræðið leiti upprunans, en í stað handauppréttinganna á Agora í Aþenu á gullöld Grikkja er að myndast möguleiki á að rétta upp hönd á Netinu þess í stað. Netið býður upp á möguleika og mun gera það í auknum mæli eftir því sem persónuvernd upplýsinga á Netinu þróast, til að auka stórum milliliðalaust lýðræði og gera það að veruleika án þeirra galla sem fylgja tíðum þjóðaratkvæðagreiðslum. Þar sem kjósendur þurfa að fara á kjörstað til að greiða atkvæði. Reynslan frá Sviss segir að kjörsókn minnki þar sem of mikið umstang fylgi því að fara oft á ári á kjörstað. Þessu geta rafrænar aðferðir breytt með tímanum. Brýnt er að nýta kosti þeirra eftir því sem hægt er.

Eftir Björgvin G. Sigurðsson

Höfundur er varaþingmaður og frambjóðandi Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.