Úrslit kosninganna í Ísrael fyrr í vikunni voru ekki óvænt. Um nokkurt skeið hefur verið ljóst að Ariel Sharon forsætisráðherra og Likud-bandalagið myndu líklega vinna stóran sigur. Sú varð einnig raunin.

Úrslit kosninganna í Ísrael fyrr í vikunni voru ekki óvænt. Um nokkurt skeið hefur verið ljóst að Ariel Sharon forsætisráðherra og Likud-bandalagið myndu líklega vinna stóran sigur. Sú varð einnig raunin. Það verður hins vegar þrautin þyngri að mynda nýja ríkisstjórn. Helsta einkenni ísraelskra stjórnmála er kosningakerfi sem gefur smáflokkum mikið vægi og torveldar myndun starfhæfra ríkisstjórna. Sjálfur segist Sharon ekki vilja mynda stjórn með öfgaflokkum til hægri heldur koma á breiðri fylkingu afla í kringum miðjuna. Ákvörðun Verkamannaflokksins, sem beið einn mesta ósigur sinn, um að taka ekki þátt í næstu ríkisstjórn þrengir enn stöðu Sharons.

Þegar ný ríkisstjórn verður mynduð bíða hennar gífurlega erfið verkefni. Stærst þeirra er að finna lausn á Palestínudeilunni. Þegar litið er á stöðu mála nú er vart hægt að trúa að einungis rúm tvö ár eru liðin frá því litlu munaði að samkomulag næðist á fundum Ehuds Baraks, Yassers Arafats og Bills Clintons í Camp David og Taba um myndun palestínsks ríkis. Síðan upp úr þeim viðræðum slitnaði hefur oft virst sem vonlaust væri að setja niður deilur Ísraela og Palestínumanna. Sjálfsmorðsárásir Palestínumanna og hernaðaraðgerðir Ísraela á Vesturbakkanum og Gaza hafa kostað hundruð manna lífið, magnað upp hatrið milli þjóðanna og eitrað andrúmsloftið í öllum tilraunum til samningaviðræðna. Þó blasir við að deiluna verður að leysa. Örlög Ísraela og Palestínumanna eru samtvinnuð og verða það um ókomna tíð. Þessar þjóðir byggja sama svæði og hafa gert frá örófi alda.

Þá liggur fyrir í stórum dráttum hvernig endanlegt samkomulag mun líta út. Palestínumenn munu stofna sjálfstætt ríki og Ísraelar verða að hætta landnámi á svæðum Palestínumanna og halda frá flestum þeim landnemabyggðum sem settar hafa verið á stofn á undanförnum áratugum. Líkt og rætt var um í Taba er hugsanlegt að Ísraelar fái að halda einhverjum byggðum gegn því að afhenda Palestínumönnum ísraelskt landsvæði á móti. Á móti verður að tryggja öryggi Ísraela og Palestínumenn verða að hætta hvers kyns árásum á ísraelska borgara. Þetta gera allir sér ljóst sem að málinu koma.

Skortur á trausti og hatur hafa hins vegar gert samningamönnum Ísraela og Palestínumanna ómögulegt að ná saman. Jafnvel þegar samkomulag lá á borðinu í Taba reyndist ekki hægt að innsigla það. Hvers vegna ætti það að takast nú? Er líklegt að Ariel Sharon, sem löngum hefur skipað sér í raðir þeirra er vilja sýna sem mesta hörku í garð Palestínumanna, muni takast að ná hinum sögulegu sættum? Það mun tíminn einn leiða í ljós. Hins vegar er ljóst að hann verður undir gífurlegum þrýstingi frá umheiminum. Deilan fyrir botni Miðjarðarhafs hefur ekki einungis áhrif á þá sem þar búa heldur öll samskipti Vesturlanda og arabaheimsins.

Fastlega má gera ráð fyrir að í kjölfar Íraksdeilunnar muni Bandaríkjastjórn leggja ofurkapp á að finna lausn á Palestínudeilunni. Vonandi munu deiluaðilar þá vera reiðubúnir að sætta sig við hið óhjákvæmilega í stað þess að stinga höfðinu í sandinn einu sinni enn með skelfilegum afleiðingum.