SEGJA má að meira hafi mætt á iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, en öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar, þær tvær vikur sem liðnar eru af vorþingi.

SEGJA má að meira hafi mætt á iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, en öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar, þær tvær vikur sem liðnar eru af vorþingi. Fyrirhugaðar álvers- og virkjanaframkvæmdir á Austurlandi hafa til að mynda verið áberandi í umræðum í sölum Alþingis - en sem iðnaðarráðherra ber Valgerður ábyrgð á þeim. Hafa þær m.a. verið ræddar í umræðum utan dagskrár og í fyrstu umræðu, sem fram fór í vikunni, um frumvarp ráðherra um álverksmiðju í Reyðarfirði.

Eins og kunnugt er kom andstaðan við það frumvarp ekki bara frá mönnum innan þings heldur einnig frá mótmælendum utan þings. Í byrjun umræðunnar stóðu lögreglumenn vörðinn um alþingishúsið vegna mótmæla andstæðinga virkjana og frá þingpöllum heyrðust hróp, köll og hlátur frá sama hópi þegar þingmenn VG mótmæltu álverinu og þar með byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Því má bæta við að þingflokkur VG er eini þingflokkurinn sem hefur lýst því afdráttarlaust yfir að hann hyggist greiða atkvæði gegn umræddu álversfrumvarpi.

Það er reyndar ekki oft sem áheyrendum á þingpöllum er svo heitt í hamsi að þeir telji ástæðu til að láta heyra í sér við umræður á þingi enda er slíkt varla vel liðið skv. starfsreglum þingsins. Það gerist þó af og til þegar svokölluð "hitamál" eru í gangi og slá þá forsetar þingsins gjarnan í bjölluna og biðja gesti um að sýna Alþingi tilhlýðilega virðingu. Halldór Blöndal, forseti þingsins, bað til að mynda áheyrendur í vikunni um að sýna háttvísi og bera virðingu fyrir þeirri stofnun sem Alþingi væri. Aðrar áminningar fengu mótmælendur þó ekki að þessu sinni, þótt oft mætti sjá þingforsetann Halldór og varaforsetana líta athugulum augum upp á þingpallana, eftir að þaðan höfðu borist stutt köll eða stuðningshróp.

En hvað sem þessu líður þá var ekki annað að sjá og heyra en að ráðherrann Valgerður léti orrahríðina, vegna virkjana, starfsloka og orkumála, ekki á sig fá. Og nokkuð virtist hún á tímabili vera orðin leið á ítrekuðum spurningum, a.m.k. sagði hún eitthvað á þá leið í einni orðasennunni við Ögmund Jónasson, þingmann VG, að spurningar Ögmundar væru þess eðlis að það tæki því ekki að svara þeim. Vart þarf að taka fram að Ögmundur var ekki ánægður með þau málalok.

Vegna þingkosninganna í maí nk. verður vorþingið með styttra móti, eins og kunnugt er, en skv. starfsáætlun þingsins mun það standa fram til 14. mars. Líklegt er að þingmenn reyni að sameinast um að ljúka fundum í kringum þann tíma svo tækifæri gefist til þess að einhenda sér í kosningabaráttuna. En auðvitað verður baráttana að einhverju leyti háð í sölum Alþingis, áður en að þeim tíma kemur. Í umræðunum síðustu vikurnar leyndi sér reyndar ekki að baráttan væri þegar hafin. Stjórnarandstæðingar nýta hvert tækifæri sem gefst til að taka fram að tími ríkisstjórnarinnar sé nú senn á enda en stjórnarliðar svara í sömu mynt og ítreka að þeir muni áfram ráða ríkjum eftir kosningar.

Kannski mætti segja að Davíð Oddsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi slegið tóninn í þessum efnum í utandagskrárumræðu á fyrsta starfsdegi þingsins eftir jól. Davíð var að svara Ögmundi Jónassyni vegna fyrirspurna um mótvægisaðgerðir af völdum stóriðjuframkvæmda þegar Ögmundur kallaði eitthvað á þá leið: "Hvernig væri að svara spurningunum um niðurskurðinn, um ruðningsáhrifin?" Davíð svaraði að bragði: "Ég skal gera það sem forsætisráðherra hér 2005." Uppskar hann við það mikinn hlátur þingheims.

En Davíð er ekki einn um að virðast viss í sinni sök. Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði til að mynda eftirfarandi í utandagskrárumræðu um atvinnuástandið í síðustu viku: "[...] Það er veruleiki málsins, herra forseti, að ríkisstjórnin er hætt í raun. Hún hættir endanlega hinn 10. maí nk. og það er ekki seinna vænna." Páll Pétursson félagsmálaráðherra sagðist í sömu umræðu ekki ætla að spá fyrir um það hvaða ríkisstjórn yrði hér að loknum kosningum. En eitt gat hann þó verið fullviss um: "Ég verð þar ekki."

arna@mbl.is