Leikstjóri: Magnús Viðar Sigurðsson. Handrit og viðtöl: Margrét Jónasdóttir. Kvikmyndataka: Magnús B. Magnússon og Magnús Viðar Sigurðsson. Hljóðupptaka: Magnús Viðar Sigurðsson. Samsetning: Ólafur Ragnar Halldórsson. Framleiðandi: Páll Baldvin Baldvinsson. Storm og Stöð 2, Styrkt af Kvikmyndamiðstöð Íslands 2003. Stöð 2 í janúar 2003.

ENGINN vafi leikur á að af innlendum atburðum er Vestmannaeyjagosið árið 1973 einn minnisstæðasti atburður 20. aldarinnar. Aldrei fyrr hefur eldgos ógnað þéttbýli, að auki hófst gosið öllum að óvörum um myrka febrúarnótt þegar tveggja kílómetra löng sprunga myndaðist á austanverðri Heimaey og tók að spúa eldi og eimyrju - svo að segja yfir byggðina.

A.m.k. tvær mikilvægar heimildarmyndir voru gerðar um hamfarirnar og var önnur þeirra, Eldeyjan eftir Ernst Kettler, Ásgeir Long og Pál Steingrímsson, frumsýnd þegar á gosárinu en ári síðar kom Eldur í Heimaey, sem þeir Knudsenfeðgar, Osvald og Vilhjálmur, stóðu að, báðar eru þær um hálftími að lengd.

Nú hefur Storm/Stöð 2 frumsýnt Ég lifi..., rösklega tveggja tíma langa og merka heimildarmynd um atburðarásina. Tilefnið að þrír áratugir eru liðnir frá örlaganóttinni í Vestmannaeyjum og er sú fyrsta þar sem atburðirnir eru skoðaðir úr nokkurri fjarlægð. Ég lifi... er unnin á hefðbundinn hátt, fléttuð saman úr miklu magni fréttamynda úr sjónvarpi auk annarra kvikmynda af þessum stórbrotna hildarleik manna og máttarvalda; rætt við tugi sjónarvotta sem tóku á einn eða annan hátt þátt í atburðarásinni og stuðst við fréttir og ljósmyndir. Myndin skiptist í þrjá hluta eftir efnisinnihaldi; "Flóttann", "Baráttuna" og "Goslok". Hér gefst því tækifæri til að virða fyrir sér þessa 30 ára gömlu átakasögu og jafnframt að skyggnast um öxl og skoða hana í nýju ljósi. Kvikmyndagerðarfólkið hefur unnið mikilvægt starf, ekki síst fyrir komandi kynslóðir og leyst það eftirminnilega vel úr hendi. Útkoman heilsteypt mynd sem skilur við áhorfandann með glögga yfirsýn á sviðið.

Ég lifi... hefst á tökum af ægilegu hraungosinu við bæjardyr Eyjamanna og flóttanum út í óvissuna sem hófst á sömu stundu. Íbúarnir rifnir upp úr rúmum sínum um hánótt við ógnarfréttir lífs síns og nánast allir komnir upp á fastalandið fyrir birtingu um morguninn. Ráðvillt og allslaust stóð fólkið skyndilega frammi fyrir því að eiga ekkert nema hvað annað. Eyjamenn eru landsþekktir fyrir dugnað og yfirlætisleysi og nú reyndi á aðra kosti sem þeir reyndust einnig ríkulega búnir: Æðruleysi og bjartsýni. Með Guðs og góðra manna hjálp tókst að bjarga því sem bjargað varð. Hraunkælingin forðaði höfninni, lífæð byggðarinnar, frá eyðileggingu. Að því kom að ósköpunum linnti og fimm mánaða skelfingarástand að nokkru leyti um garð gengið.

Eyjarnar og allir þeir sem við sögu komu verða aldrei samir eftir en sárin gróa. Af rösklega 5000 flóttamönnum sneru um 3500 til baka. Margir urðu fyrir óbætanlegu tjóni, öðrum hefur tekist að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Myndin endar á hárréttum nótum; í nærmynd af hraustlegum strák á grænum bala í nýja hrauninu.

Þegar upp er staðið og þessir tveir tímar af skipulögðu og vel framsettu efni um ógnþrungnustu atburði Íslandsögunnar á síðustu öld eru skoðaðir kemur það mest á óvart að atburðarásin stóð yfir í "aðeins" 150 daga. Í minningu flestra eru þeir örugglega mikið mun fleiri.

Sæbjörn Valdimarsson