Sigmar Gabriel, forsætisráðherra Neðra-Saxlands, og Gerhard Schröder Þýzkalandskanzlari glaðbeittir á kosningafundi.
Sigmar Gabriel, forsætisráðherra Neðra-Saxlands, og Gerhard Schröder Þýzkalandskanzlari glaðbeittir á kosningafundi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kosningar til þinga þýzku sambands- landanna Hessen og Neðra-Saxlands fara fram á sunnudag. Auðunn Arnórsson segir allt benda til að þar fái Jafnaðarmannaflokkur kanzlarans mikinn skell.

KJÓSENDUR í þýzku sambandslöndunum Hessen og Neðra-Saxlandi ganga að kjörborðinu á sunnudag í kosningum sem taldar eru verða fyrsta prófraun ríkisstjórnar Gerhards Schröders kanzlara eftir að vinsældir hennar tóku að hrapa í kjölfar kosninganna til Sambandsþingsins sl. haust.

Skoðanakannanir benda til að flokkur Kristilegra demókrata (CDU), aðalkeppinautar Jafnaðarmannaflokks Schröders (SPD), muni vinna örugga sigra í báðum héraðsþingskosningum á sunnudaginn. Í kosningabaráttunni hefur CDU lagt áherzlu á að fá kjósendur til að líta á kosningarnar sem atkvæðagreiðslu um frammistöðu ríkisstjórnarinnar í Berlín og flest bendir til að það muni einmitt stór hluti kjósenda gera.

Bíði SPD ósigra nú um helgina verður það ekki til að fella ríkisstjórn Schröders, en það mun gera henni enn erfiðara fyrir að fá mikilvæg lagafrumvörp samþykkt, þar sem meirihluti CDU í efri deild þingsins Sambandsráðinu - þar sem fulltrúar stjórna þýzku sambandslandanna 16 sitja - mun aukast enn, ef svo fer sem horfir.

En kanzlarinn er farinn að venjast slæmum fréttum. Stöðnun í efnahagslífinu, atvinnuleysi hefur ekki verið meira í fjögur ár og eykst frekar en minnkar, samskiptin við Bandaríkin eru svo að segja í molum og hann á í fullu fangi að verjast því - fyrir dómstólum - að gula pressan velti sér upp úr einkalífi hans.

Hratt fylgistap jafnaðarmanna

Síðan "rauð-grænu" stjórninni í Berlín - samsteypustjórn jafnaðarmanna og græningja - tókst naumlega að halda velli í sambandsþingskosningunum í lok september sl. hefur flokkur kanzlarans upplifað hraðara fylgistap en nokkur dæmi eru um í meira en hálfrar aldar sögu Sambandslýðveldisins.

Í skoðanakönnun sem gerð var fyrir aðra ríkissjónvarpssöðina og niðurstöður voru birtar úr í síðustu viku var fylgi SPD yfir allt landið fallið niður í 25% og hefur það aldrei mælzt minna frá því þessar reglulegu kannanir (kallaðar Politbarometer) hófust fyrir 26 árum.

Hinn nauma sigur í kosningunum í fyrra tókst Schröder að vinna m.a. á Íraksmálinu, með því að gera út á megna andúð þýzkra kjósenda á hvers konar stríðsrekstri, og með því að standa sig í landsföðurhlutverkinu þegar mikið flóð í Saxelfi olli gríðarlegu tjóni, nokkrum vikum fyrir kosningar.

Roland Koch með yfir- burðastöðu í Hessen

SPD-leiðtoginn hafði gert sér vonir um að flokknum gæfist nú tækifæri til að komast aftur að stjórnartaumunum í Hessen, sem er mikið þungavigtarsvæði í þýzku efnahagslífi með fjármálaþjónustumiðstöðinni Frankfurt. Nú er ljóst að nánast kraftaverk þyrfti að gerast ef þær ættu að ganga eftir.

Staða Rolands Koch, sem fer fyrir CDU í Hessen og hefur gegnt forsætisráðherraembættinu frá því 1999, er einfaldlega það sterk að keppinautur hans frá SPD, Gerhard Bökel, kemst hvergi nærri honum í fylgiskönnunum. CDU hefur mælzt með allt að 51% fylgi í héraðinu en SPD með heilum tuttugu prósentustigum minna. Það er því hugsanlegt að CDU fengi hreinan meirihluta á Hessen-þingi, en Koch hefur í aðdraganda kosninganna sagzt gjarnan vilja halda áfram stjórnarsamstarfinu við Frjálsa demókrata.

Koch hefur staðið af sér margan sjóinn í stjórnmálunum, þótt hann sé ekki eldri en 44 ára, og er þess vænzt að með góðan sigur í heimahéraði sínu að baki muni hann reyna að fá metnaði sínum til frekari metorða í flokknum svalað. Valdatafl milli hans og flokksleiðtogans Angelu Merkel þykir því fyrirsjáanlegt.

Mest í húfi fyrir SPD í Neðra-Saxlandi

Jafnaðarmannaflokkurinn og Schröder persónulega eiga þó miklu meira undir því hvernig fer í kosningunum í Neðra-Saxlandi, heimahéraði kanzlarans þar sem hann var forsætisráðherra óslitið frá 1990 til þess dags sem hann skipti yfir í kanzlarastólinn haustið 1998.

Ósigur af þeirri stærðargráðu sem SPD er spáð í þessu gamla vígi sínu - hrap úr 47,9% niður í kringum 37% - yrði mikill skellur fyrir SPD og þó sérstaklega fyrir hinn 43 ára gamla Sigmar Gabriel, sem setið hefur í forsætisráðherrastólnum í Hannover síðan 1999 og er stundum kallaður "litli Schröder" í fjölmiðlum. Framaferill hans - talað hefur verið um að hann sem vænlegt framtíðarkanzlaraefni - hlyti verulegan hnekki ef úrslitin verða í líkingu við þessar spár.

Í skoðanakönnun sem niðurstöður voru birtar úr á miðvikudag mældist forskot CDU á SPD heil 13%. Atvinnuleysi í héraðinu - þar sem m.a. höfuðstöðvar Volkswagen-verksmiðjanna eru til húsa - er nú yfir meðaltali vestur-þýzku sambandslandanna og opinber skuldasöfnun vex og vex. Þessi vandamál endurspegla þann vanda sem Schröder á við að etja á landsvísu.

Ósigur SPD í Neðra-Saxlandi myndi lyfta Christian Wulff í forsætisráðherrastólinn, greindum en frekar litlausum CDU-manni sem er nú að gera þriðju atlögu sína að embættinu og tapaði tvisvar fyrir Schröder. Wulff er 43 ára og tilheyrði áður - ásamt Roland Koch og fleirum - "órólegu deildinni" svokölluðu innan CDU, sem var gagnrýnin á forystukynslóð Helmuts Kohls, en svo virðist sem dregið hafi úr metnaði hans til æðri metorða í nafni flokksins.

auar@mbl.is

Höf.: auar@mbl.is