Vaclav Havel er hann flutti sína 13. og síðustu nýársræðu 1. janúar sl.
Vaclav Havel er hann flutti sína 13. og síðustu nýársræðu 1. janúar sl.
ENNÞÁ logar á stóru, bleiku neonhjarta á Pragkastala en þar var því komið fyrir af manninum, sem átti mikinn þátt í því að leysa þjóð sína úr hinni kommúnísku ánauð og er næstum enn sama blómabarnið og hann var á sjöunda áratugnum.
ENNÞÁ logar á stóru, bleiku neonhjarta á Pragkastala en þar var því komið fyrir af manninum, sem átti mikinn þátt í því að leysa þjóð sína úr hinni kommúnísku ánauð og er næstum enn sama blómabarnið og hann var á sjöunda áratugnum. Á sunnudag lætur Vaclav Havel af embætti sem forseti Tékklands síðastliðin 13 ár en fátt bendir til, að kveðjustundin muni einkennast af miklum húrrahrópum.

Havel er eins konar holdgervingur hinna örlagaríku atburða á árinu 1989 þegar kommúnistastjórnirnar í Austur-Evrópu hrundu hver á fætur annarri og boðuðu um leið endalok sjálfra Sovétríkjanna. Havel er 66 ára gamall, kominn í hóp með merkustu Evrópumönnum síðustu aldar en heilsuveill og dálítið fjarlægur eins og draumur hans sjálfs um hið fullkomna samfélag.

Fyrir 13 árum ögruðu landar hans kommúnistastjórninni með því að skrifa "Havel í kastalann" á húsveggi en nú eru þeir orðnir vanir hinni nýju veröld pólitískra átaka og sviptinga í efnahagsmálunum, verðhækkunum og öðrum erfiðleikum. Flestum er nú gleymdur draumur Havels um hið fullkomna lýðræði en það átti að taka við af einræðinu í "Absúrdistan" eins og hann kallaði einu sinni Tékkóslóvakíu.

Hvael sagði nýlega, að í forsetatíð sinni hefði hann lært þá lexíu, að "jafnvel skáldin verða að lúta raunveruleikanum":

"Á einni nóttu var mér varpað inn í heim ævintýranna en hrapaði síðan aftur til jarðar. Það var ekkert, sem tók af mér fallið frá hinum upphafna og tilfinningaþrungna heimi byltingarinnar til hins hversdagslega heims skriffinnskunnar."

Stór skref á stuttum tíma

Tékkar hafa gengið í gegnum það sama og aðrar þjóðir í austurvegi. Einræði kommúnismans er liðin tíð en ekki erfiðleikar hins daglega lífs. Ekki verður þó annað sagt en Tékkar hafi stigið stór skref á stuttum tíma. Þeir eru orðnir aðilar að Atlantshafsbandalaginu, NATO, og aðild þeirra að Evrópusambandinu er frágengin.

Forsetaembættinu í Tékklandi fylgja lítil völd en Havel kunni þó að nýta sér þau. Sáttfýsi hans átti mikinn þátt í að setja niður gamlar deilur milli Þjóðverja og Tékka og þótt hann væri friðarsinni og hefði talið NATO úrelt fyrirbrigði, mælti hann manna mest fyrir aðild Tékka að bandalaginu.

Miklar breytingar hafa orðið í Tékklandi á rúmum áratug. Borgin, sem breiðir úr sér fyrir neðan 1.000 ára gamlan kastalann, var áður heldur grámygluleg með kommúnísk slagorð á öðru hverju götuhorni en nú iðar hún af því lífi, sem fylgir veitingahúsum og verslunum, netkaffihúsum og hvers kyns óperu- og leikhússtarfi.

Sumir kenna Havel um, að ekki tókst að halda Tékkóslóvakíu saman en líklega var það ekki á færi neins eins manns. Tékkland með sína 10 milljónir íbúa er ekki stærra en þriðjungurinn af Portúgal en þjóðarframleiðslan er nú fjórum sinnum meiri en í allri Tékkóslóvakíu 1990. Atvinnuleysi er þó mikið, um 9%, en verðbólga lítil eða 1,8%.

Breyttir tímar

Þegar kommúnistar ofsóttu Havel, fangelsuðu hann og reyndu að fá hann til að fara úr landi, þá hreif hann þjóðina með skrifum sínum og hugrekki. Sá tími er liðinn, segir blaðamaðurinn Jana Ciglerova. Afstaða landsmanna er nú eitthvað á þessa leið: "Hættu að tala um alla þessa ást og segðu okkur heldur hvers vegna appelsínurnar eru svona dýrar."

Sex af hverjum tíu Tékkum segja, að Havel hafi verið góður forseti og það er ekki auðhlaupið að því að finna mann í hans stað. Hefur þinginu í tvígang mistekist að kjósa nýjan forseta en líklegt er þó, að Vaclav Klaus, einn helsti andstæðingur Havels og fyrrverandi forsætisráðherra hægrimanna, verði loks fyrir valinu.

Ciglerova var 13 ára 1989 og hún man þegar sá fyrst manninn, sem átti eftir að jarða kommúnismann með "flauelsbyltingunni", sem svo var kölluð vegna þess hve friðsamleg hún var. Foreldrar hennar, flokksbundnir kommúnistar, vöruðu hana við þessum "kröftuga en illa manni" en þegar Havel ávarpaði hundruð þúsunda manna á Wenceslas-torgi sá hún mann "með ljóta hárgreiðslu, góðlegan og hjartahlýjan mann". Hann talaði ekki í slagorðum eins og kommúnistarnir, heldur það mál, sem allir skildu. Þegar Havel var kjörinn forseti í desember 1989 var það "eins og vinur minn hefði verið kjörinn leiðtogi þjóðarinnar".

Fjarrænn fulltrúi hippatímans

Samt sem áður var Havel alltaf eins og dálítið fjarrænn og honum fylgdi alltaf andrúmsloft sjöunda áratugarins, blómaskeiðs hippanna og annarra ungra draumóramanna. Þegar hann og aðstoðarmenn hans settust að í Pragkastala fóru þeir um langa gangana á hlaupahjólum og meðal fyrstu opinberu gestanna var landi Havels, tónlistarmaðurinn Frank Zappa. Hann klæddi kastalavörðinn upp, færði hann úr litlausum kakiklæðunum og setti hann í líflegan, ljósbláan búning og hann bætti gjarnan litlu hjarta við þegar hann skrifaði nafnið sitt.

"Það verður bara eins og hver annar dagur þegar Havel kveður," segir Jana Novotna, starfsstúlka á veitingahúsinu Slavia, en það var einmitt þar sem Havel og vinir hans byrluðu kommúnismanum banaráð yfir bjórglasi en undir árvökulu auga leyniþjónustumannanna.

Glatað sakleysi

Vaclav Havel má nú kallast auðugur maður. Hann á glæsilegt hús í sveitinni, annað glæsihús í Prag og ágætis afdrep í Portúgal. Löndum hans mörgum finnst sem embættið hafi tekið hann frá þeim og einkamál hans ollu líka nokkurri óánægju.

Tékkar dáðu Olgu, fyrri konu Havels, fyrir gáfur og fyrir alla þá tryggð, sem hún sýndi manni sínum í erfiðleikunum og það þótt hann væri sjaldan við eina fjölina felldur í kvennamálum. Hún lést 1995 og aðeins ári síðar kvæntist Havel leikkonunni Dagmar Veskrnova en hún er 20 árum yngri en hann. Mörgum þótti hún óhefluð og einu sinni gerði hún sig seka um að blístra af öllum lífs- og sálarkröftum til að þagga niður í manni, sem var gagnrýninn á forsetann, eiginmann hennar.

"Með árunum tapaði hann sakleysinu eins og við Tékkar allir," segir Ciglerova. "Nú er allt orðið jarðbundnara en áður var. Við munum ekki skilja það fyrr en hann hefur kvatt hvað hann var ólíkur öðrum mönnum, hvað við höfum breyst mikið. Þá mun það renna upp fyrir okkur, að við höfum misst eitthvað alveg sérstakt."

Prag. AP.

Höf.: Prag. AP