ÁRANGUR Evrópuþjóða í heimsmeistarakeppninni í Portúgal, þar sem þær skipa þrettán efstu sætin, leiðir til þess að Evrópa fær eitt sæti til viðbótar í handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum í Aþenu á næsta ári.

ÁRANGUR Evrópuþjóða í heimsmeistarakeppninni í Portúgal, þar sem þær skipa þrettán efstu sætin, leiðir til þess að Evrópa fær eitt sæti til viðbótar í handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum í Aþenu á næsta ári. Um það sæti verður leikið í Evrópukeppninni í Slóveníu í janúar á næsta ári.

Liðið sem verður í áttunda sæti á heimsmeistaramótinu mun því enn eiga von um að komast til Aþenu. Það verður þó þungur róður því þá þarf það að skáka Svíum, Dönum og Slóvenum en þeir síðarnefndu verða á heimavelli, og fleiri sterkum þjóðum í Evrópukeppninni. Það verður sem sagt efsta liðið á Evrópumótinu af þeim sem ekki á ólympíusæti víst, sem dettur í lukkupottinn og tryggir sér farseðilinn til Aþenu.

Evrópa átti sjö lið af tólf sætunum á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000. Þá átti Afríka tvö lið þar sem Egyptar höfðu náð sjöunda sætinu á heimsmeistaramótinu árið áður. Evrópa hefur hins vegar tryggt sér samtals níu lið á leikunum í Aþenu. Það eru sjö efstu liðin frá HM í Portúgal og gestgjafarnir, Grikkir, og síðan svokallað álfusæti, en Evrópa, Ameríka, Asía og Afríka fá eitt sæti hver álfa fyrir utan hin átta sætin sem ráðstafað hefur verið.