Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
STEFÁN Gíslason knattspyrnumaður, sem hefur leikið í Austurríki og Noregi síðustu ár, mun spila með FH eða Keflavík á komandi keppnistímabili.

STEFÁN Gíslason knattspyrnumaður, sem hefur leikið í Austurríki og Noregi síðustu ár, mun spila með FH eða Keflavík á komandi keppnistímabili. Stefán sagði við Morgunblaðið eftir fund með FH-ingum í gær að þessi tvö félög kæmu til greina hjá sér og hann tæki ákvörðun á næstu dögum um með hvoru þeirra hann myndi spila.

"Þetta eru tveir góðir kostir og þótt Keflavík sé í 1. deild líst mér mjög vel á aðstæður og þjálfarann þar, enda geri ég ráð fyrir að semja til tveggja ára," sagði Stefán.

Hann er 22 ára gamall Eskfirðingur og lék fyrst með KVA, eitt tímabil með unglingaliði Arsenal og síðan eitt sumar með KR í úrvalsdeildinni, en spilaði síðan í þrjú ár með Strömsgodset í Noregi. Þaðan fór hann til Grazer AK í Austurríki fyrir ári. Þar hætti hann nú um áramótin og flutti heim til Íslands.