Arnar Gunnlaugsson
Arnar Gunnlaugsson
ARNAR Gunnlaugsson knattspyrnumaður er hættur hjá skoska úrvalsdeildarfélaginu Dundee United. Hann samdi um starfslok við félagið á dögunum en hann átti hálft annað ár eftir af samningi sínum við það.

ARNAR Gunnlaugsson knattspyrnumaður er hættur hjá skoska úrvalsdeildarfélaginu Dundee United. Hann samdi um starfslok við félagið á dögunum en hann átti hálft annað ár eftir af samningi sínum við það.

Arnar sagði við Morgunblaðið í gær að óljóst væri hvað tæki við hjá sér. "Vegna nýju félagaskiptareglnanna get ég ekki skipt aftur til Englands, eða yfir í annað land, fyrr en að þessu tímabili loknu. Ég gæti því aðeins spilað áfram hér í Skotlandi en ég hef engan áhuga á því. Stefnan er því sú að flytja heim til Íslands á næstunni og reyna að komast aftur til Englands í vor, því þar vil ég helst spila. Ef ekkert gengur upp, fer ég bara að spila með íslensku liði seinni hluta sumars," sagði Arnar, sem verður þrítugur í mars og hefur leikið erlendis í ellefu ár, með sjö félögum í fimm löndum.

Hann gekk til liðs við Dundee United í lok júlí. Um miðjan nóvember hafði hann spilað sex leiki í úrvalsdeildinni en þá tók við nýr knattspyrnustjóri, Paul Hegarty, sem ekki hefur valið Arnar í leikmannahópinn eftir það. Hegarty var reyndar rekinn úr starfi í fyrradag, enda situr liðið á botni deildarinnar. "Mér líkaði ágætlega við Hegarty en skoðanir okkar á fótbolta eru gjörólíkar. Það var því ekkert annað að gera en að hætta þessu," sagði Arnar Gunnlaugsson.