Kolvetnissnauðir kúrar henta ekki þorra fólks og eru tæpast langtímalausn, að mati Önnu Sigríðar Ólafsdóttur, matvæla- og næringarfræðings. Hrönn Marinósdóttir fékk að vita að hefðbundnari leiðir henta miklu fleirum.

REGLUBUNDIN hreyfing, hollur matur og hófsemi er besta leiðin til þess að takast á við aukakílóin og ná varanlegum árangri, að mati Önnu Sigríðar Ólafsdóttur, matvæla- og næringarfræðings hjá Manneldisráði. "Flestir sem hafa náð að léttast mikið og viðhaldið þyngdartapinu hafa farið þessa hefðbundnu leið. Margir gefast þó upp því hún krefst aga, ákveðni og jafnvel þrjósku, eigi árangurinn að vera varanlegur."

Kolvetnissnauðir kúrar á borð við Atkins, eða Ásmundarkúrinn eins og hann hefur verið nefndur hérlendis, henta sumum, að mati Önnu Sigríðar en ekki fjöldanum.

"Slíkir kúrar henta fyrst og fremst þeim sem eru mjög feitir og eru undir lækniseftirliti. Atkins sjálfur sagði nýlega í viðtali að kúrinn hans væri fyrst og fremst fyrir fólk sem þyrfti að léttast um tugi kílóa. Slíkt líkamsástand býður til dæmis ekki alltaf upp á að fólk hreyfi sig. Þá getur þetta verið leið til að skófla kílóunum af skrokknum en þegar því er náð þarf að hefjast handa við að byggja sig upp, venja sig á breyttan lífsstíl, með hreyfingu og hollu mataræði.

Atkins-kúrinn byggist á því að unnt er að borða nægju sína af öllu nema kolvetnum. Sleppa verður því brauði, kartöflum, hrísgrjónum, pasta, morgunkorni og flestum mjólkurvörum. Ekki er heldur æskilegt samkvæmt kúrnum að neyta ávaxta og aðeins takmarkaðs magns grænmetis. Að auki er hvorki leyfilegt að borða sælgæti, kex og kökur né drekka gos, bjór og borðvín, að sögn Önnu Sigríðar.

"Gott er að sleppa sætindum og sætum drykkjum. Það eitt getur haft heilmikið að segja um þyngdina og er í fullu samræmi við almennar ráðleggingar. Verra er að takmörkuð áhersla skuli lögð á hreyfingu. Atkins-kúrinn er freistandi fyrir marga, en þrátt fyrir að kílóunum fækki er ekki þar með sagt að heilsufarið batni verulega. Rannsóknir sýna að hjartasjúkdómar eru ekki aðeins háðir holdafari heldur er lélegt þrek einnig mikilvægur áhættuþáttur. Í stórri rannsókn vó þolið jafnvel þyngra en aukakílóin. Lífslíkur voru meiri hjá feitum með gott þol heldur en hjá þeim sem voru grannir en hreyfðu sig ekki. Það er samt ekki nóg að leggja bara áherslu á aukna hreyfingu, en hún hjálpar vissulega til, sérstaklega til að koma í veg fyrir að aukakílóin komi aftur.

Skammtarnir stækka

Risaskammtar af alls kyns fæði eru að verða sífellt meira áberandi, að mati Önnu Sigríðar. Hún bendir á að matarmagn hafi aukist því skammtarnir eru sífellt að verða stærri. "Það eru ekki bara súkkulaðistykkin og gosflöskurnar sem hafa stækkað, heldur einnig þvermál matardiskanna. Það er sparnaður í að kaupa stóran skammt af frönskum og það fylgir aukapitsa með ef þú kaupir brauðstangir.

Ekkert lát virðist vera á gosdrykkjaþambi. Samkvæmt fæðuframboðstölum Manneldisráðs drekkur hver Íslendingur að meðaltali 160 l á ári eða ½ l á dag. "Gosdrykkirnir veita mikla orku en við verðum ekki södd af þeim. Rannsóknir hafa sýnt að sykraðir drykkir hvetja til ofneyslu og þyngdaraukningar bæði hjá börnum og fullorðnum."

Áhersla á fitusnautt fæði hefur stundum verið of áberandi, að mati Önnu Sigríðar. Fitusnautt er ekki endilega orkusnautt og maður þarf að kunna að lesa á umbúðir til að vera viss um hvort um betri kost sé að ræða. Fólk grennist aftur á móti að jafnaði um 2-4 kg við það eitt að skera niður fitu ef það borðar að öðru leyti að vild. En við megum ekki gleyma að við getum fitnað af öllu ef það er í umframmagni."

Að forðast kolvetni

Einn af göldrunum við kolvetnasnauða kúrinn sem verið hefur í umræðunni undanfarið, er að matarlystin minnkar alla jafna við það líkamsástand sem hann framkallar. Þar sem mörgum algengum matvælum er sleppt, takmarkar það matarmagnið, að mati Önnu Sigríðar. "Rannsóknir á áhrifum kúrsins til lengri tíma skortir aftur á móti, og öryggi hans gagnvart hjartasjúkdómum, sykursýki og nýrnasjúkdómum. Kúrinn getur verið skaðlegur. Til dæmis sýndi rannsókn á ungu, mjög feitu fólki tap á beinmassa, en mjög próteinríkt fæði eykur kalktap með þvagi. Margir kvarta undan ógleði, höfuðverk og mikilli hægðatregðu og gefast því upp. Mörgum finnst líka erfitt að hreyfa sig á meðan þeir eru á slíkum kúr enda vantar aðal bensínið - kolvetnin. Kannski þess vegna er sjaldan lögð áhersla á aukna hreyfingu á kolvetnasnauðu kúrunum. Þetta ber allt að hafa í huga ef verið er að íhuga þessa leið. Hún getur kannski hjálpað einhverjum, en hún hentar ekki þorra fólks og er tæpast langtímalausn."

Fita er ekki hættuleg, hún er meira að segja lífsnauðsynleg, segir Anna Sigríður en það skiptir máli hvers konar fitu er neytt og í hve miklu magni. "Rjómi og feitt kjöt eru allt annað en heppileg fæða, því þau hækka kólesterólið.

Vert er einnig að velta fyrir sér hve langt eigi að ganga í að sniðganga matvæli. Ef ávöxtum og grænmeti er sleppt hefur það í för með sér mikla skerðingu á næringargildi fæðunnar og hlýtur því að teljast óheppilegt til lengri tíma."

Fæðuval á að byggjast á fjölbreytni að mati Önnu Sigríðar en einnig nokkrum takmörkunum:

*Að kunna sér magamál. Fyrir flesta er gott að miða við að fá sér ekki oftar en einu sinni á diskinn.

*Velja þarf kolvetnisgjafa af kostgæfni. Gosdrykkir, sætabrauð og sælgæti eiga að víkja fyrir grófu kornmeti, kartöflum, ávöxtum og grænmeti. Hollast er að velja sem oftast gróft brauð með miklu korni, hýðishrísgrjón og heilhveitipasta, en hvítt pasta og hrísgrjón þurfa alls ekki að vera bannvara, þau eru ágæt fylling svo framarlega sem nóg af trefjaríku grænmeti er með í máltíðinni.

*Fituna þarf ekki að útiloka, en passa magnið og velja sem mest ómettaða fitu, þ.e. olíur og aðra mjúka fitu.

Mismunandi hreyfing hentar hverjum og einum, segir Anna Sigríður. "Að sækja líkamsræktarstöð, er ekki eina lausnin. Göngutúrar, sund og fleira í þeim dúr getur verið nóg. Hver svo sem hreyfingin er þarf hún að vera stunduð reglulega og við hæfilegt álag í ekki minna en 30 mínútur á dag að meðaltali, helst um klukkustund sem flesta daga vikunnar.

Aðalatriðið er ekki að grennast heldur að vera hraustur.

Aukinni hreyfingu fylgir bætt líðan, ef kílóin fjúka er það eins konar aukavinningur fyrir dugnaðinn"

hrma@mbl.is