Akvarell Ísland opnar sýningu á vatnslitamyndum í Hafnarborg í dag.
Akvarell Ísland opnar sýningu á vatnslitamyndum í Hafnarborg í dag.
VATNSLITAMYNDIR úr smiðju félaga í Akvarell Ísland munu prýða veggi Hafnarborgar á næstunni en í dag kl. 15 verður opnuð þar sýning með sama heiti.

VATNSLITAMYNDIR úr smiðju félaga í Akvarell Ísland munu prýða veggi Hafnarborgar á næstunni en í dag kl. 15 verður opnuð þar sýning með sama heiti. Þetta er fjórða Akvarell Ísland-sýningin sem haldin er og eru listamennirnir sem eiga þar verk alls fjórtán. Pétur Friðrik Sigurðsson listmálari var einn af stofnendum Akvarell Ísland, en hann lést á síðasta ári. Minnast félagar samtakanna hans á sýningunni með því að tileinka rýmið í anddyri Hafnarborgar myndum Péturs Friðriks eingöngu. Sýningarstjóri Akvarell Ísland í ár er Sigríður Bragadóttir, grafískur hönnuður.

Vilja sýna fjölbreytileikann

"Málararnir sem sýna hér eru mjög ólíkir. Það sem við eigum sameiginlegt er akvarellan," segja Kristín Þorkelsdóttir og Torfi Jónsson, tveir af listamönnum sýningarinnar, í samtali við Morgunblaðið. Akvarella er sérstök vatnslitatækni sem byggist á því að nota gegnsæjan vatnslit. Pappírinn sem málað er á skín því í gegn og spilar með litunum á sérstakan hátt, oft með mjög ljóðrænum og stundum dularfullum áhrifum, að sögn listamannanna. Ásgrímur Jónsson var frumkvöðull í notkun akvarellutækni hérlendis.

"Það að kynnast öðrum málurum sem eru að vinna í akvarellu er mjög skemmtileg reynsla og þar skapast ákveðin víxláhrif, við það að sjá ólík verk hinna málaranna. Það er mjög hvetjandi. Með sýningunni viljum við sýna fram á að hægt er að vinna á mjög fjölbreytilegan hátt með þetta efni," bætir Kristín við. Hún bendir á að ólíkar tegundir pappírs séu notaðar af listamönnunum sem kalli fram ólík áhrif í myndunum. Sjálf notar Kristín þykkan 640 gramma pappír, á meðan Torfi notar ofurviðkvæman japanpappír. Viðfangsefnin eru líka ólík, í myndum listamannanna fjórtán má sjá allt frá óhlutbundnum formum, til kyrralífsuppstillinga, til íslenskrar náttúru og margt þar á milli. "Svo er allur gangur á því hvort fólk málar úti í náttúrunni, eins og ég geri til dæmis sjálf, eða hvort málað er í stúdíói," segir Kristín. Torfi bætir við að hann taki oft hugmyndir og liti úr náttúrunni, en vinni þær svo þegar inn er komið. "Vatnsliturinn er mjög vandmeðfarinn. Það þarf vissa þolinmæði til að vinna með þennan miðil - tímasetning getur skipt lykilmáli í sköpun myndanna."

Henta íslensku birtunni vel

Þau segja vatnslitamyndir eiga sér mjög sterka hefð í Bretlandi og séu að sækja í sig veðrið hérlendis, meðal listamanna sem almennings. "Undanfarið hefur mikið verið fjallað um David Hockney og hvernig hann hefur nýlega snúið sér að vatnslitamálun. Hann hefur komið til Íslands og málað birtuna sem við höfum verið að fást við hérlendis í áraraðir," segir Kristín. "Íslenska birtan er auðvitað mjög sérstök. Vatnslitirnir henta mjög vel til að fanga hana - í raun ættu þeir að vera hluti af farangrinum þegar maður er að ferðast," bætir hún við og Torfi tekur undir það.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru þau Alda Ármanna Sveinsdóttir, Ásta Árnadóttir, Björg Þorsteinsdóttir, Daði Guðbjörnsson, Eiríkur Smith, Guðrún Svava Svavarsdóttir, Hafsteinn Austmann, Helga Magnúsdóttir, Jón Reykdal, Katrín H. Ágústsdóttir, Kristín Þorkelsdóttir, Torfi Jónsson og Þórunn Guðmundsdóttir, auk Péturs Friðriks Sigurðssonar. Björg, Helga, Þórunn og Jón sýna nú í fyrsta sinn með Akvarell Ísland. Meðlimir hópsins eru nú fimmtán talsins, en voru í upphafi níu.

Sýningin er opin alla daga nema þriðjudaga frá kl. 11 til kl. 17 og lýkur henni 17. febrúar.