DANIR lýstu sig í gær reiðubúna til að senda allt að 70 hermenn og einn kafbát til þátttöku í stríði, sem Bandaríkin færu fyrir gegn Írak.

DANIR lýstu sig í gær reiðubúna til að senda allt að 70 hermenn og einn kafbát til þátttöku í stríði, sem Bandaríkin færu fyrir gegn Írak. Þetta kom fram í máli Per Stig Møllers, utanríkisráðherra Danmerkur, í gær en hann tók þó fram að Sameinuðu þjóðirnar yrðu að leggja blessun sína yfir hernaðarárás gegn Írak, auk þess sem danska þingið myndi þurfa að staðfesta ákvörðun stjórnarinnar.

Møller sagði að stuðningur Dana við afstöðu Bandaríkjastjórnar ætti að senda Saddam Hussein Íraksforseta þau skilaboð að alþjóðasamfélaginu væri alvara með að fara í hart, uppfylli Írakar ekki skyldur sínar skv. ályktun öryggisráðs SÞ.

Yfirlýsing Møllers í gær kemur í kjölfar þess að beiðni um tiltekna aðstoð ef til stríðs kemur barst frá bandarískum stjórnvöldum. Danir, sem eiga aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO), voru hins vegar ekki reiðubúnir að verða við óskum Bandaríkjamanna um að senda einnig herþotur og hlaðmenn. Segir Møller að danski herinn sé nú þegar með nóg á sinni könnu í Afganistan og í Bosníu.

Kaupmannahöfn. AFP.