Jack Weir leggur bakka með skoskri haggis-pylsu á veisluborð í Burns-kvöldverði á Hótel Sögu í gær. Veislustjórar kvöldsins voru Magnús Magnússon og Sally Magnusson sem sitja honum sitt til  hvorrar handar.
Jack Weir leggur bakka með skoskri haggis-pylsu á veisluborð í Burns-kvöldverði á Hótel Sögu í gær. Veislustjórar kvöldsins voru Magnús Magnússon og Sally Magnusson sem sitja honum sitt til hvorrar handar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FJÖLDI Skota og Skotlandsvina kom saman á Hótel Sögu í gær til þess að lyfta sér upp í nafni Roberts Burns, þjóðskálds Skota. Veislustjórar voru fjölmiðlamaðurinn og rithöfundurinn Magnús Magnússon og dóttir hans Sally. Haft er á orði að 25.

FJÖLDI Skota og Skotlandsvina kom saman á Hótel Sögu í gær til þess að lyfta sér upp í nafni Roberts Burns, þjóðskálds Skota. Veislustjórar voru fjölmiðlamaðurinn og rithöfundurinn Magnús Magnússon og dóttir hans Sally. Haft er á orði að 25. janúar sé mesti hátíðisdagur í Skotlandi á eftir áramótum því þann dag árið 1759 fæddist Robert Burns. Efnt er til hátíðarkvöldverðar í kringum afmælisdag skáldsins til þess að drekka eðalviskí, borða haggis með kartöflum og rófum og fara með ljóð og syngja. Burns-kvöldverður hefur verið órjúfanlegur þáttur skoskrar menningar í rúm 200 ár og skýrist matseðillinn af dálæti skáldsins á þjóðarréttinum haggis, sem að mörgu leyti svipar til íslenskrar lifrarpylsu. Athöfnin hefst formlega þegar veislustjórinn býður viðstöddum að veita þjóðarréttinum, haggis, viðtöku. Rísa gestir úr sætum og klappa rólega meðan kokkurinn ber haggis-kepp á bakka að veisluborðinu við undirleik sekkjapípu. Fram kom í breska dagblaðinu The Times á dögunum að flogið yrði með haggis til landsins frá Glasgow vegna veislunnar.

Hið þekkta ljóð Burns, To a Haggis, er flutt af innlifun þegar fyrsti keppurinn er kominn á borðið, en skorið er í hann á sama augnabliki og komið er að tiltekinni ljóðlínu í fyrrgreindu kvæði. Undir lok kvöldsins leiðast gestir og syngja Auld Lang Syne, eitt ljóða skoska þjóðskáldsins, sem gjarnan er sungið á gamlárskvöld í enskumælandi löndum.