BJARNI Ákason hefur sagt upp störfum sem framkvæmdastjóri verslunarsviðs Aco-Tæknivals, ATV. Hann segist ætla að nota næstu vikur til að ákveða hvað hann taki sér nú fyrir hendur. Faðir Bjarna, Áki Jónsson, stofnaði Aco hf.

BJARNI Ákason hefur sagt upp störfum sem framkvæmdastjóri verslunarsviðs Aco-Tæknivals, ATV. Hann segist ætla að nota næstu vikur til að ákveða hvað hann taki sér nú fyrir hendur.

Faðir Bjarna, Áki Jónsson, stofnaði Aco hf. árið 1972, einkum til að sjá um tölvuþjónustu fyrir herinn, en á þeim tíma var eina tölvuvæðingin í landinu hjá Bandaríkjaher. Félagið er elsta tölvufyrirtæki landsins og það fyrsta til að flytja til landsins IBM samhæfða tölvu. Árið 2001 var félagið sameinað Tæknivali undir nafninu Aco-Tæknival, en tap sameinaðs félags nam 1.082 milljónum króna það ár.

Samningar um kaup á verslunarsviði fóru út um þúfur

Í desember sl. bárust fréttir um að samningar væru á lokastigi um að Bjarni, ásamt hópi fjárfesta, keypti verslunarþátt ATV, þ.e. BT-verslanirnar, sem fyrirtækið á og rekur, Office One, Apple og Sony-setrið. Ekkert varð úr þeim samningum, en skömmu seinna var tilkynnt að Baugur-ID og Eignarhaldsfélagið Fengur hefðu hvort um sig keypt 23,95% hlutafjár í ATV. Almar Örn Hilmarsson var ráðinn framkvæmdastjóri. Fludir Holding, í eigu Ragnars Kristjánssonar, keypti svo 10% hlut rétt fyrir jól. Ragnar er fyrrum stór hluthafi í Feng.

Uppsagnir um áramótin

Sautján starfsmönnum ATV var sagt upp störfum um áramótin, þar á meðal framkvæmdastjóra fjármálasviðs félagsins. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2002 var 188 milljóna króna tap á rekstri fyrirtækisins.