SÉRKENNILEGT þjófnaðarmál kom upp á Egilsstöðum á dögunum þegar hluta af ritsafni Halldórs Kiljans Laxness var stolið úr íbúðarhúsi.

SÉRKENNILEGT þjófnaðarmál kom upp á Egilsstöðum á dögunum þegar hluta af ritsafni Halldórs Kiljans Laxness var stolið úr íbúðarhúsi.

Þegar menn vöknuðu árla morguns á heimili sínu á Egilsstöðum sáu þeir brátt að farið hafði verið inn í húsið um bakdyr og hluta heildarsafns fyrstu útgáfu bóka Laxness verið stolið. Þjófurinn hafði af einskærri kurteisi farið úr skónum áður en hann gekk inn í húsið og fundið sér innkaupapoka undir bækurnar í kústaskáp eldhússins. Ekkert annað hafði verið tekið, m.a. stóð stafræn myndbandstökuvél á borði við hlið bókaskápsins og hafði ekki verið snert.

Snjóföl var á jörðu og eftir að hafa hringt í lögreglu og tilkynnt þjófnaðinn, rakti heimilisfaðirinn spor þjófsins. Þau voru auðrakin því skómunstrið mun hafa verið allsérstakt og auðvelt að greina sporin í mjöllinni. Komst hann þannig að því að sporin áttu upphaf sitt í Valaskjálf, en þar hafði verið haldið þorrablót Egilsstaðabúa um nóttina og þjófurinn sjálfsagt verið þar við skemmtun. Endaði sporrekjandi við hús eitt í bænum, þar sem lögregla var þegar við skófarsrannsóknir og telst málið nú upplýst og bókunum hefur verið skilað til síns heima.

Brotamaðurinn er ungur piltur og mun ekki hafa komið við sögu lögreglu áður. Gat hann enga skýringu gefið á uppátækinu. Ástæða þess að hann tók ekki ritsafnið allt, var að hann hafði ekki komið fleiri bókum í pokann. Ekki er vitað hvort pilturinn er sérlega bókhneigður, en eigandi bókanna sagði að aðrar og mun dýrmætari bækur hefðu verið í skápnum. Ekki verður lögð fram kæra í málinu.