Gerður Kristný
Gerður Kristný
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Listasafn Íslands Sýningin Á mörkum málverksins verður opnuð í dag. Þar verða m.a. verk eftir Mike Bidlo en á sýningartímanum verður sýnt myndband með samtali Mike Bidlo og Arthur C. Danto um málverkið.
Listasafn Íslands Sýningin Á mörkum málverksins verður opnuð í dag. Þar verða m.a. verk eftir Mike Bidlo en á sýningartímanum verður sýnt myndband með samtali Mike Bidlo og Arthur C. Danto um málverkið.

Myndbandið var tekið upp við opnun sýningar Bidlo í Listasafni Bergen sl. haust og vakti þetta samtal þeirra athygli.

Vefurinn Rithringur.is verður opnaður á Celtic Cross, Hverfisgötu 26, kl. 20 og verður af tilefninu haldin kynning á Rithringnum. Vefurinn er ætlaður rithöfundum og áhugafólki um ritsmíðar. Á vefnum geta höfundar lagt fram efni og fengið gagnrýni ásamt ábendingum frá öðrum notendum vefjarins, sem og gagnrýnt hjá öðrum. Einnig er þarna að finna spjallsvæði, greinar og margt fleira.

Þá lesa upp úr verkum sínum og ræða um ritlistina þau Auður Jónsdóttir, Gerður Kristný, Jón Atli Jónasson, Rúnar Helgi Vignisson og Viktor Arnar Ingólfsson.

Opna galleríið verður í dag á Laugavegi 51 (gamla Blanco y negro), en galleríið er starfrækt mánaðarlega, á löngum laugardegi. Tómt verslunarhúsnæði tekið traustataki og undirlagt myndlist eina eftirmiðdagsstund. Allir starfandi listamenn eru velkomnir með verk og uppákomur sér að kostnaðarlausu. Þeir sem vilja setja upp verk mæta í umrætt húsnæði milli 13-14 en húsnæðið verður opnað gestum og gangandi kl. 14. Klukkan 18 verða verkin tekin niður og það krælir ekki á sér fyrr en mánuði síðar einhvers staðar annars staðar.

Siglufjarðarkirkja Kristín R. Sigurðardóttir sópran og Antonia Hevesi píanóleikari halda einsöngstónleika kl. 17. Flutt verða þekkt íslensk sönglög og aríur eftir Eyþór Stefánsson, Sigvalda Kaldalóns, Þórarin Guðmundsson, Árna Björnsson, Markús Kristjánsson, Handel, Mozart, Cilea, Puccini, Mascagni og Verdi.

Tónleikarnir verða einnig fluttir í Miðgarði í Varmahlíð á morgun, sunnudag, kl. 15.

Sólheimar í Grímsnesi Ólafur Már Guðmundsson opnar málverkasýningu kl. 16. Ólafur Már er Ísfirðingur fæddur 1957 og íbúi á Sólheimum. Hann útskrifaðist frá MHÍ árið 1980 og hefur að baki langan feril sem myndlistarmaður, myndlistarkennari og af starfi með fötluðum. Í sýningarskrá ritar Katrín Valgerður Karlsdóttir myndlistarkona og segir m.a.: Ólafur Már byggir myndir sínar hægt en hnitmiðað upp, lag eftir lag af þunnum litum frá dökku yfir í ljóst, það gerir það að verkum að birtan eins og sogast inn í myndirnar. Formin eru stílhrein og fáguð, staðlaðar táknmyndir fyrir manneskjur sem stillt er upp í huglægu landslagi, íkonumynd af náttúrunni. Leitast er við að ná jafnvægi og ró, en undir niðri skynjar maður spennu, einmanaleika og duldar tilfinningar."

Sýningin verður opin fram í maí, virka daga frá kl. 9-17, um helgar kl. 14-18.

Haukur Dór opnar málverkasýningu í gamla Álfaborgarhúsinu, Knarrarvogi 4 og í verslun Álfaborgar að Skútuvogi 6. Á fjörutíu ára ferli hefur Haukur Dór sýnt reglulega á Íslandi og erlendis. Mörg verka hans eru í opinberri eigu og á einkasöfnum. Sýningin stendur til 9. febrúar.