RANNSÓKNARNEFND flugslysa, RNF, beinir því til Flugleiða hf. að merkingar á flugvélum félagsins, sem ætlaðar eru til leiðbeiningar fyrir starfsfólk, séu yfirfarnar við reglubundnar skoðanir flugvéla.

RANNSÓKNARNEFND flugslysa, RNF, beinir því til Flugleiða hf. að merkingar á flugvélum félagsins, sem ætlaðar eru til leiðbeiningar fyrir starfsfólk, séu yfirfarnar við reglubundnar skoðanir flugvéla. Hún leggur jafnframt til að hlaðdeild Iceland Ground Services (IGS), fyrirtækis Flugleiða sem sér um afgreiðslu flugvéla, endurskoði verklag við afgreiðslu flugvéla og leggi áherslu á ný- og endurþjálfun starfsfólks.

Þessar tillögur í öryggisátt koma fram í skýrslu um flugatvik sem varð á Keflavíkurflugvelli 9. janúar í fyrra. Þar kemur fram að skömmu fyrir brottför Boeing 757-vélar til Kaupmannahafnar hafi hlaðstjóri sent tvo hlaðmenn til að finna tvær töskur í afturlest vélarinnar. Hlaðmaður, sem var að ganga frá, sá að aftari lestin var opin, leit inn í hana, slökkti ljósin og lokaði. Innilokuðu mennirnir vissu ekki hvernig væri hægt að opna lestina að innanverðu þar sem merkingar þess efnis vantaði á viðkomandi hurð og ekki hafði verið fjallað um það í þjálfun þeirra. Þeir veltu fyrir sér hvernig þeir gætu látið vita af sér og m.a. hvarflaði að þeim að bera eld að eldvarnarkerfinu og setja þannig af stað viðvörunarkerfi í flugstjórnarklefanum. Þá fór hlaðstjórann að lengja eftir þeim og rétt áður en ýta átti flugvélinni frá óskaði hann eftir að kannað yrði hvort mennirnir væru þar og svo reyndist vera.

Hefðu getað kafnað

Þorkell Ágústsson, aðstoðarrannsóknarstjóri rannsóknarnefndar flugslysa, segir að hlaðmönnunum hefði ekki orðið meint af hugsanlegri flugferð, en öðru máli gegndi ef slökkvikerfið hefði farið í gang en það dælir haloni sem eyðir súrefni. Segir hann að hefði það gerst hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum, því þá hefðu mennirnir verið lokaðir inni í súrefnislausu rými, þar til slökkviliðið hefði opnað lestina.