Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lauk í gær síðasta starfsdegi sínum í embætti borgarstjóra með því að kveðja starfsmenn borgarinnar eftir tæplega níu ára setu í embætti og tekur Þórólfur Árnason við af henni.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lauk í gær síðasta starfsdegi sínum í embætti borgarstjóra með því að kveðja starfsmenn borgarinnar eftir tæplega níu ára setu í embætti og tekur Þórólfur Árnason við af henni. Við brotthvarf Ingibjargar Sólrúnar verða mikil viðbrigði í borginni, þótt hún sitji áfram sem borgarfulltrúi. Úr stólnum fer borgarstjóri, sem þrisvar hefur leitt R-listann til sigurs í Reykjavík og í hann sest borgarstjóri, sem er ráðinn til starfans.

Þegar Ingibjörg Sólrún komst til valda árið 1994 bundu stuðningsmenn hennar og R-listans miklar vonir við það sem koma skyldi. Á sumum sviðum hafa orðið breytingar, en á öðrum reynst erfiðara að ná settu marki, jafnvel þótt mikið væri lagt undir.

Eitt af markmiðunum var að auka hlut kvenna í borgarkerfinu. Í tíð Ingibjargar Sólrúnar hafa fleiri konur gegnt ábyrgðarstörfum en áður á vegum borgarinnar. Einnig hefur launamunur kynjanna minnkað verulega hjá starfsmönnum borgarinnar og benda tölur til þess að hinn svokallaði óútskýrði launamunur hafi minnkað um helming. Sú þróun skiptir ekki aðeins máli í borginni heldur þjóðfélaginu öllu og stuðlar að því að uppræta mismunun, sem á sér ekki stoð í nútímasamfélagi. Þá má ekki gleyma þeim áhrifum, sem það hefur í jafnréttisátt, að í tæpan áratug hefur kona gegnt þessu mikilvæga starfi og þannig verið fyrirmynd annarra kvenna um mörk hins mögulega.

Ingibjörg Sólrún hefur hins vegar síður en svo verið óumdeild. R-listinn lofaði því í kosningabaráttunni 1994 að tryggja öllum börnum leikskólapláss. Gagngerar breytingar hafa orðið í leikskólamálum síðan hún komst til valda og hefði kerfið eins og það er nú hugsanlega fullnægt kröfunum fyrir níu árum. Þjóðfélagið hefur hins vegar tekið það hröðum breytingum á þessum stutta tíma að kröfurnar eru orðnar allt aðrar og meiri og þörfin fyrir dagvistun hefur aukist hraðar en unnt hefur verið að bæta við plássum. Fyrir vikið hafa biðlistar haldið áfram að lengjast.

Hægt hefur gengið í skipulagsmálum í valdatíð fráfarandi borgarstjóra. Í miðbænum bíður brýnt verkefni, sem ekki hefur verið sinnt sem skyldi. Hefur Ingibjörg Sólrún reyndar sagt það sjálf að það séu helstu vonbrigðin í borgarstjóratíð sinni að hlutirnir skyldu ekki ganga hraðar fyrir sig, meðal annars í uppbyggingu miðbæjarins.

Eftir borgarstjóratíð Ingibjargar Sólrúnar verður ekki hægt að segja að hún hafi reist sér minnisvarða og hefur hún sjálf sagt að það hafi ekki verið ætlun sín. En hún hefur verið áberandi í embætti og sýnt að hún er skeleggur og kraftmikill stjórnmálamaður.

Embætti borgarstjóra í Reykjavík er eitt það valdamesta í íslensku stjórnkerfi. Ingibjörg Sólrún hverfur ekki úr því embætti með þeim hætti, sem hún hefði viljað. Þess eru mörg dæmi að embætti borgarstjóra í Reykjavík hafi verið stökkpallur til frekari metorða í stjórnmálum á Íslandi. Ingibjörg Sólrún skiptir nú um vettvang og hyggst láta að sér kveða í landsmálunum með augastað á forystu í ríkisstjórn. Hvernig það gengur ræðst í alþingiskosningunum í vor, en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur þegar markað sér sess í íslenskum stjórnmálum með ferli sínum í embætti borgarstjóra.