Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands og Þjóðleikhúsið standa sameiginlega að námskeiði um gamanleiki og hefst það 4. febrúar.

Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands og Þjóðleikhúsið standa sameiginlega að námskeiði um gamanleiki og hefst það 4. febrúar. Undanfarin ár hefur Þjóðleikhúsið í samvinnu við EHÍ staðið fyrir námskeiðum um leikhús og leikbókmenntir í tengslum við sýningar leikhússins. Að þessu sinni í tengslum við farsann Allir á svið! eftir Michael Frayn í þýðingu og staðfærslu Gísla Rúnars Jónssonar sem Þjóðleikhúsið sýnir í samstarfi við Grínara Hringsviðsins.

Á námskeiðinu verður fjallað um gamanleikinn í sínum ólíku myndum. Fyrirlesarar hafa allir víðtæka reynslu af því að setja á svið, leika, þýða og semja gamanefni. Auk þess að miðla af reynslu sinni munu þeir taka fyrir sértæk viðfangsefni; Árni Ibsen mun fjalla um sögu og þróun gamanleiksins, Karl Ágúst Úlfsson mun fjalla um uppbyggingu hefðbundinna gamanleikja og Gísli Rúnar Jónsson, leikstjóri Allir á svið!, mun fjalla um sviðsetningu gamanleikja. Áhorfendur sjá sýningu á Allir á svið! í Þjóðleikhúsinu og er leikhúsmiði innifalinn í námskeiðsgjaldi. Námskeiðinu lýkur með umræðum með fyrirlesurum og tveimur leikurum, þeim Sigurði Sigurjónssyni og Eddu Björgvinsdóttur, en þau leika í sýningu Þjóðleikhússins.

Umsjón með námskeiðinu af hálfu Þjóðleikhússins hefur Melkorka Tekla Ólafsdóttir leiklistarráðunautur.