VÍKVERJA hefur borist athugasemd vegna skrifa sinna um fasteignagjöld á fimmtudaginn. Í bréfi frá Seltjarnarnesbæ segir: "Nokkurs misskilnings kann að gæta í skrifum Víkverja fimmtudaginn 30. janúar er hann skifar um fasteignagjöld sveitarfélaga.

VÍKVERJA hefur borist athugasemd vegna skrifa sinna um fasteignagjöld á fimmtudaginn. Í bréfi frá Seltjarnarnesbæ segir: "Nokkurs misskilnings kann að gæta í skrifum Víkverja fimmtudaginn 30. janúar er hann skifar um fasteignagjöld sveitarfélaga. Hjá Seltjarnarnesbæ hefur álagningarprósenta t.d. lækkað frá árinu 1999 en þannig hefur bærinn reynt að bregðast við þeirri hækkun eða leiðréttingu á fasteignamati sem getið er um í pistli Víkverja.

Árið 1999 var fasteignaskattur á Seltjarnarnesi 0,375% af fasteigna- og lóðarmati og lóðarleiga 3% af lóðarmati. Nú er fasteignaskattur 0,36% og lóðarleiga 0,75% og hefur því lækkað á umræddu tímabili. Vatnsskattur og sorpgjald hafa staðið í stað. Þess er rétt að geta að skv. lögum um tekjustofna sveitarfélaga er heimilt að leggja á allt að 0,5% fasteignaskatt en Seltjarnarnesbær hefur ekki nýtt sér þá heimild frekar til fulls frekar en hámarksálagningu útsvars. Frá árinu 1999 hafa neyslu- og byggingarvísitölur hækkað um tæp 22%. Innheimt fasteignagjöld á Seltjarnarnesi hafa á sama tíma hækkað um 56%. Nærtækustu skýringarnar á mismuninum, sem er ríflega 30%, er nokkur fjölgun fasteigna á Seltjarnarnesi og nýtt fasteignamat, sem endurspeglar á betri hátt fasteignaverð á Seltjarnarnesi. Þá eru fasteignagjöld nú reiknuð af húsnæði í eigu bæjarins en svo var ekki áður og hefur það afgerandi áhrif á bókfærðar tekjur af fasteignasköttum.

Fasteignagjöld á Seltjarnarnesi eru með þeim lægstu á höfuðborgarsvæðinu enda hefur það verið stefna bæjaryfirvalda að halda álögum á íbúa í lágmarki, fasteignagjöldum jafnt sem útsvari. Í þessu sambandi er einnig vert að nefna að Seltjarnarnesbær hefur ekki lagt holræsagjöld á fasteignaeigendur á Seltjarnarnesi. Þrátt fyrir það er á þessu ári stefnt að lokum gagngerra endurbóta á frárennslismálum og hreinsun strandlengjunnar."

VÍKVERJI þakkar kærlega fyrir ábendinguna. Þessar staðreyndar breyta því á hinn bóginn ekki að Víkverji (sem á íbúð á Nesinu) greiðir á þessu ári 72% hærri fasteignagjöld en hann greiddi árið 1999. Fyrir fjórum árum voru þau rúmlega 30.000 en eru núna rúmlega 52.000. Þar af hefur vatnsskattur hækkað úr 5.265 kr. í 10.137 kr. og lóðarleiga úr 2.610 kr. í 8.123 kr. Þó svo að hlutfall álagðra fasteignagjalda hafi lækkað, eins og bærinn bendir réttilega á, hafa fasteignagjöldin samt sem áður hækkað sem þessu nemur. Lækkun bæjarins á álagningarhlutfallinu dugði greinilega ekki til og það er Víkverji ósáttur við. Hefðu fasteignagjöldin hækkað í samræmi við fyrrnefnda 22% hækkun á neyslu- og byggingarvísitölu, væru fasteignagjöldin fyrir árið 2003 rúmlega 15.000 krónum lægri en þau eru. Víkverji hefði alveg getað notað þennan pening í eitthvað annað.