Falskir og flottir feðgar: Christopher Walken og Leonardo DiCaprio.
Falskir og flottir feðgar: Christopher Walken og Leonardo DiCaprio.
Leikstjóri: Steven Spielberg. Handrit: Jeff Nathanson, byggt á bók Franks W. Abagnail og Stan Redding. Kvikmyndatökustjóri: Janusz Kaminski. Tónlist: John Williams. Aðalleikendur: Leonardo DiCaprio, Tom Hanks, Christopher Walken, Nathalie Baye, Amy Adams, Martin Sheen, James Brolin. 140 mín. DreamWorks. Bandaríkin 2002.

SUMIR fæðast í heiminn þegar skaparinn er í sólskinsskapi og eys í þá gáfum og glæsileika í fasi, útliti og talanda. Þrátt fyrir allt þetta bruðl er engu líkara en sumir séu með þeim ósköpum fæddir að geta ekki nýtt sér slíkar vöggugjafirnar réttum megin laganna heldur gerast ótíndir svikahrappar og gjörsamlega ofviða að fara eftir leikreglum.

Frank Abagnail (Leonardo DiCaprio), er einn þeirra; bráðgáfaður, fallegur, snjall, óforskammaður. Foreldrar hans skilja þegar hann er á táningsaldri og virðist áfallið hrinda honum út í nokkurra ára samfellt ávísana- og skjalafals þar sem hann fer undir fölsku flaggi vítt um heim, spreðar milljónum illa fenginna dala, umkringdur fögrum konum. Undir niðri vill hann gera betur, standa sig í augum Franks eldri (Christopher Walken), hrakfallabálksins, föður síns. Það hvarflar þó aldrei að piltinum að taka sinnaskiptum og gerast heiðarlegur heldur siglir áfram léttu leiðina ljúfu uns yfir lýkur.

Afbrotaferillinn er orðinn ærið litríkur er yfirvöldin komast á slóð hrappsins. Alríkislögreglan sendir Carl Hanratty (Tom Hanks), einn sinn besta mann, á hæla hans en Frank sleppur æ ofan í æ uns dregur til tíðinda. Allt fer þó vel að lokum, líkt og í ævintýrunum.

Spielberg kemur á óvart, er afslappaður og beinlínis notalega fyndinn í Gríptu mig ef þú getur. Hún er ekki í hópi hans bestu en engu að síður frábær afþreying og óaðfinnanleg hvar sem á hana er litið. Leikstjórinn þykir ekki sérlega spaugsamur, tilraunir hans til gamanmyndagerðar mislukkaðar og hefur á undanförnum árum rogast með samvisku heimsins á herðunum og kominn tími til að létta á byrðinni. Útkoman er hans skemmtilegasta mynd til þessa.

Spielberg nýtur yfir höfuð góðrar, að mestu leyti sannrar sögu og frábærra leikara. DiCaprio er tvímælalaust í hópi þeirra útvöldu sem minnst er á í upphafi: Eldklár, dæmalaust fríður sýnum og það sem mestu máli skiptir, hæfileikaríkur leikari. Smellpassar í hlutverk táningsins þótt leikarinn sé einum 10 árum eldri og er með ólíkindum sannfærandi, háll sem áll í öllum samskiptum. Hanks, sem hinn grautfúli spæjari, og Walken gefa honum lítið eftir. Reyndar hefur sá síðarnefndi sjaldan eða aldrei verið betri á síðustu áratugum. Það var líka tími til kominn að þessi magnaði skapgerðarleikari fengi tækifæri í góðri mynd úrvalsleikstjóra.

Útlit Gríptu mig ef þú getur er sér kapítuli. Andrúm gamla, góða 7. áratugarins endurskapað óaðfinnanlega. Allt frá sjálfum titlunum í upphafi til gleraugna Hanks. Búninga- og leikmyndahönnuðunum hlýtur að verða umbunað með Óskarsverðlaunum.

Allir þessir kostir vega upp á móti nokkrum vafasömum og ótrúverðugum atriðum sem reyna á umburðarlyndi áhorfandans. Hann getur hins vegar glaðst yfir fínustu skemmtun.

Sæbjörn Valdimarsson