Jonathan Woodgate á hér, fyrir ofan, í höggi við Darius Vassell, sóknarleikmann Aston Villa, en þeir eru báðir í enska landsliðshópnum. Woodgate gekk til liðs við Newcastle í gær.
Jonathan Woodgate á hér, fyrir ofan, í höggi við Darius Vassell, sóknarleikmann Aston Villa, en þeir eru báðir í enska landsliðshópnum. Woodgate gekk til liðs við Newcastle í gær.
NEWCASTLE innsiglaði kaupin á varnarmanninum Jonathan Woodgate frá Leeds réttri klukkustund áður en lokað var fyrir kaup og sölu á knattspyrnumönnum í Evrópu í gær. Þá undirritaði Woodgate samning við Newcastle eftir að hafa lokið við læknisskoðun sem hann stóðst í alla staði. Newcastle borgaði 9 milljónir punda, jafnvirði rúmlega 1,1 milljarðs fyrir Woodgate, og hefur þar með selt sex leikmenn á nokkrum mánuðum fyrir um 50 milljónir punda eða sem svarar til um 6,5 milljarða króna.

Salan á Woodgate eykur enn óánægju Terry Venables, knattspyrnustjóra Leeds, sem eins og áður segir hefur þurft að sjá á eftir hverjum framúrskarandi knattspyrnumanninum frá félaginu síðan hann tók við stjórn liðsins í sl. sumar. Fyrir vikið er farið að þykkna í Venables og óvíst að hann verði til langframa í starfi sínu. Sé Venables óánægður þá er gremja stuðningsmanna liðsins enn meiri og kom hópur af hörðustu stuðningsmönnum Leeds saman fyrir framan Elland Road til að lýsa yfir megnri óánægju með störf Peters Ridsdale stjórnarformanns. Ridsdale segir aftur á móti að Leeds sé nauðugur sá kostur að selja leikmenn til þess að grynnka á skuldunum sem hafi verið orðnar óheyrilega miklar. Þrátt fyrir skuldahalann þá náði liðið samningum við Real Madrid á elleftu stundu í gær um að fá leigðan Raul Bravo frá spænska liðinu fram til vors. Bravo, sem hefur leikið með 21 árs landsliði Spánar, hefur ekki átt upp á pallborðið hjá þjálfara Evrópumeistaranna á leiktíðinni og var feginn því að fá tækifæri til að róa á önnur mið.

Reiknað er með því að Woodgate leiki í fyrsta sinn með Newcastle á morgun þegar liðið tekur á móti Englandsmeisturum Arsenal. Sir Bobby Robson, knattspyrnustjóri Newcastle, er hins vegar í sjöunda himni yfir að hafa krækt í hinn unga og vaska varnarmann enda hefur hann haft á honum augastað í nokkurn tíma. Woodgate er 23 ára gamall og hefur verið í röðum Leeds í tíu ár.

Eftir talsverða eftirgangsemi tókst Southampton að öngla í hinn efnilega miðvallarleikmann Nottingham Forest, David Prutton, síðdegis í gær, en í fyrradag hafði tilboði félagsins í Prutton verið vísað á bug. Southampton reiddi fram 2,5 millj. punda, um 320 millj. króna, fyrir pilt sem leikið hefur með 21 árs landsliði Englendinga.

Þá tókst West Ham að fá David Noble frá Arsenal og gerði við hann samning fram á vorið. Noble hefur ekki lánast að komast í stjörnum prýtt lið ensku meistaranna síðan hann kom til þeirra fyrir fjórum árum. Var hann m.a. í láni hjá Watford hluta úr síðustu leiktíð. Noble vonast til að geta lagt sitt lóð á vogarskálarnar hjá West Ham svo liðið haldi sæti sínu í úrvalsdeildinni, annars þykir líklegt að hann verði að finna annað skip og annað föruneyti í sumar.

Forráðamenn Sunderland leggja allt í sölurnar til þess að halda liðinu áfram í úrvalsdeildinni og í gær höfnuðu þeir tilboðum frá Manchester United og Liverpool í David Bellion. Þessi tvítugi kantspilari hefur um nokkrut skeið verið undir smásjánni hjá Sir Alex Ferguson en áhugi Liverpool er nýr af nálinni.