Gaman í strætó.
Gaman í strætó.
Ég er ein af þeim sem er óánægð með þjónustu strætó og er sammála Lilju sem skrifaði í Velvakanda 21. þ.m. um óhreinindin í og við strætó. En það er annað sem mér liggur á hjarta og það er þjónustan við þá sem búa í Borgahverfi við Melaveg.

Ég er ein af þeim sem er óánægð með þjónustu strætó og er sammála Lilju sem skrifaði í Velvakanda 21. þ.m. um óhreinindin í og við strætó. En það er annað sem mér liggur á hjarta og það er þjónustan við þá sem búa í Borgahverfi við Melaveg. Þar gengur leið 115 en vagninn kemur aldrei við í Spönginni sem er okkar þjónustumiðstöð með heilsugæslu, sjúkraþjálfun, pósthúsi, lyfjaverslun auk fjölda annarra verslana. Spöngin er að vísu skammt hér frá en verulega á brattann að sækja og ekki á færi þeirra sem erfitt eiga með gang og eru bíllausir að komast í þjónustuna, hvað þá að gera stórinnkaup.

Það tekur um það bil 4 mín. að keyra frá því hringtorgi sem strætó beygir á Melaveginn, koma við í

Spönginni og aftur á Melaveginn. Ég skora á stjórn Strætó bs. að bæta úr þessu og sýna meiri þjónustulund og bið að heilsa Þórhalli sem ég ræddi við um þessi mál fyrir löngu.

Inga.

Þegar dýrin koma í leitirnar

ÁRNÝ hafði samband við Velvakanda og vildi hún lýsa yfir ánægju sinni með pistil í Velvakanda sl. miðvikudag þar sem Sigríður í Kattholti birti þakkir fyrir fund kisu sem týnd hafði verið í 25 daga. Segir hún að gaman sé að heyra af því þegar dýrin komi í leitirnar.

Árný.

Scrabble-spilið

ER ekki einhver sem er hættur að nota Scrabble-spilið sitt? Ef svo er þá er mér fengur í spilinu þínu/ykkar. Eða ef einhver getur upplýst hvar hægt er að kaupa spilið. Vinsamlega hringið í síma 8214707.

Ísfólkið - bækur

ÉG er mikill aðdáandi Ísfólksbókanna eftir Margit Sandemo, og mig vantar aðeins 4 bækur til þess að fullkomna seríuna. Þær sem mig vantar eru númer 41, 43, 44 og 45. Er ekki einhver gjafmildur þarna úti sem á þessar bækur? Ég gæti gefið stjörnumerkja-bækur í staðinn. Hafið samband í síma 8658477.

Gunna.

Fyrirspurn til Valgerðar

MIG langar til að leggja fram spurningar fyrir Valgerði Sverrisdóttur iðnaðarráðherra.

Hvar stendur íslenska ríkið gagnvart Alcoa ef við getum ekki skaffað þeim rafmagn vegna náttúruhamfara á Kárahnjúkasvæðinu eða í Brúarjökli sem lætur víst á sér kræla tvisvar á öld og styttist í það, t.d. eftir sjö ár og 200 milljarðar eru komnir í pottinn. Hver borgar þá af lánum frá japanska bankanum? Er þetta áhættufjármagn eða hver situr uppi með tapið? Það eru sjálfsagt fleiri sem eru fáfróðir um þetta eins og ég og vildu gjarnan fá að vita meira.

P.S. Ég er frekar hlynnt þessari framkvæmd.

Rakel.

Alpahúfa týndist

Fimmtudaginn 23. janúar sl. týndi ég hvítri kanínuullaralpahúfu og ljósbrúnum leðurhönskum á leiðinni frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur. Fór með Herjólfi að morgni og tók rútuna frá Þorlákshöfn um kl. 11 og var komin á BSÍ í Reykjavík um hádegið. Hafi einhver fundið þessar skjólflíkur er sá hinn sami vinsamlegast beðinn um að hringja í síma 5511397 í Evu Maríu. Fundarlaun.

Kettlingar fást gefins

Dýravinir athugið. Fallegir 10 vikna kettlingar fást gefins, eru kassavanir. Krúttlegir fjörkálfar sem vilja gott heimili. Upplýsingar í síma 5677196.