[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
TVEIR Palestínumenn voru skotnir í gærmorgun er ísraelskir skriðdrekar óku inn í borgina Jenin á Vesturbakkanum. Daginn áður hafði herinn staðið fyrir miklum aðgerðum í Hebron.

TVEIR Palestínumenn voru skotnir í gærmorgun er ísraelskir skriðdrekar óku inn í borgina Jenin á Vesturbakkanum. Daginn áður hafði herinn staðið fyrir miklum aðgerðum í Hebron. Um tugur Palestínumanna særðist er skriðdeki skaut að þeim sprengikúlum skammt austan við Gaza-borg.

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, hóf í gær stjórnarmyndunarviðræður en Likud-flokkur hans vann mikinn sigur í þingkosningum á mánudag. Er öll atkvæði höfðu verið talin á miðvikudag kom í ljós að flokkurinn hafði tvöfaldað þingsætatöluna, er nú með 38 sæti af 120. Sharon vísaði strax er úrslitin voru ljós á bug nýju boði Yassers Arafats Palestínuleiðtoga um friðarviðræður.

Franskir borgarar á brott

FRANSKA stjórnin hvatti í gær franska ríkisborgara til að hafa sig á brott frá Fílabeinsströndinni þar sem blóðug átök hafa verið um hríð milli stjórnarherliðs og uppreisnarmanna. Fyrr um daginn höfðu hundruð ungmenna í höfuðborg Fílabeinsstrandarinnar, Abidjan, ráðist með grjótkasti á aðalflugvöll landsins til að mótmæla friðarsamningi sem nýlega var gerður í París að undirlagi Frakka.

Í samningnum er kveðið á um að völd forseta landsins, Laurents Gbagbo, verði minnkuð og uppreisnarmenn fái mikilvæg ráðherraembætti. Frakkar hafa nokkurt herlið í landinu sem á að reyna að stilla til friðar.

Dæmdur fyrir vopnasölu

ÞÝSKUR kaupsýslumaður, Bernd Schompeter, sem seldi Írökum hergögn í trássi við viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna, var í gær dæmdur í meira en fimm ára fangelsi í borginni Mannheim. Meðal búnaðarins voru tæki til að bora út 10 metra langt hlaup á byssu sem talið er að hægt hefði verið að nota til að skjóta hleðslum með gereyðingarvopnum. Viðskiptin fóru fram árið 1991 með aðstoð milligöngumanna í Jórdaníu.

Kasparov tapaði

RÚSSINN Gary Kasparov, fyrrverandi heimsmeistari í skák, tapaði í gær þriðju skákinni í sex skáka einvígi gegn ofurtölvunni Deep Junior sem búin er ísraelsku skákforriti. Skákin var aðeins 36 leikir en Kasparov gerði slæm mistök með því að tímasetja rangt peðsfórn. Deep Junior var ekki seinn að notfæra sér mistökin og Kasparov var ekki sáttur við eigin taflmennsku. "Ég lokaðist gjörsamlega," sagði hann.