Framkvæmdum við nýbyggingu Amtsbókasafnsins á að vera lokið fyrir 1. maí í vor.
Framkvæmdum við nýbyggingu Amtsbókasafnsins á að vera lokið fyrir 1. maí í vor.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
STARFSFÓLK Amtsbókasafnsins á Akureyri og Héraðsskjalasafnsins er nú farið að huga að flutningi yfir í nýbyggingu safnsins, en fyrstu bókunum hefur þegar verið komið fyrir í geymslum hennar.

STARFSFÓLK Amtsbókasafnsins á Akureyri og Héraðsskjalasafnsins er nú farið að huga að flutningi yfir í nýbyggingu safnsins, en fyrstu bókunum hefur þegar verið komið fyrir í geymslum hennar.

Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður sagði að framkvæmdir væru á áætlun, en miðað væri við að lokið yrði við nýbyggingu í maí og breytingum á eldra húsi 1. desember næstkomandi. "Við byrjum að flytja á fullu með vorinu, förum að hreinsa út úr eldra húsinu og koma okkur fyrir í því nýja. Þá verður hafist handa við breytingar á eldri byggingunni, en m.a. verður lestrarsalurinn færður niður um hæð og verður þar sem barnadeildin er núna," sagði Hólmkell.

Eldra húsið er um 1.150 fermetrar að stærð en nýbyggingin um 1.450 fermetrar. Aðstaða safnsins mun batna til mikilla muna, en starfsemin sem hefur farið vaxandi hefur löngu sprengt utan af sér það húsnæði sem fyrir er.

"Það opnast hér miklir möguleikar með tilkomu hússins og starfsemin mun eflaust taka breytingum í samræmi við það. Þetta verður vonandi allt annað líf, en eins og staðan er nú höfum við ekki reynt að vekja mikla athygli á okkur, því við rétt önnum þeim fjölda gesta sem hingað leita. Úrvalið mun aukast, það verður meira í boði og þá fjölgar gestunum eflaust, en við stefnum að því að hér verði lifandi safn og hingað geti fólk leitað í margs konar erindagjörðum," sagði Hólmkell.

Í miðrými safnsins verður netkaffihús þar sem menn geta fengið aðgang að tölvum með aðgangi að Netinu. Til hliðar við það verður svo rými sem hentar undir smærri sýningar og utandyra er fyrirhugað að setja upp leikhús, þ.e. svið rétt við húsið og áhorfendabekkir verðar gerðir inn í brekku upp af húsinu. Hólmkell sér m.a. fyrir sér að leikhúsið muni nýtast undir uppákomur á menningarnótt, "en möguleikarnir eru endalausir," sagði hann.

170 þúsund bækur lánaðar

Tæplega 125 þúsund manns sóttu Amtsbókasafnið á Akureyri heim á liðnu ári, eða að jafnaði um 450 manns þá daga sem safnið var opið. Þetta jafngildir því að hver bæjarbúi hafi komið 8 sinnum í safnið á árinu. Alls voru lánaðar rúmlega 170 þúsund bækur eða önnur safnagögn á síðasta ári sem jafngildir því að hver bæjarbúi hafi fengið um 11 bækur að láni.