Byron lávarður
Byron lávarður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FIONA MacCarthy sendi nýlega frá sér ævisögu George Gordons, eða Byron lávarðs eins og hann er betur þekktur.

FIONA MacCarthy sendi nýlega frá sér ævisögu George Gordons, eða Byron lávarðs eins og hann er betur þekktur. Bókin ber heitið Byron - Life and Legend , en þar heldur MacCarthy því staðfastlega fram að skáldið hafi verið samkynhneigt, ekki tvíkynhneigt líkt og áður hefur verið talið. Að sögn MacCarthy var hinn eina sanna ást Byrons þannig John Edleston, kórdrengur sem hann átti í sambandi við á háskólaárum sínum í Cambridge. Þó New York Times telji fullyrðingu MacCarthy um kynhneigð skáldsins vafasama telur blaðið bókina engu að síður vel til þess fallna að vekja áhuga nýrra lesenda á Byron svo framarlega sem þeir falli ekki í þá gryfju að telja sig hafa öðlast fullnaðar skýringu á öfgakenndri hegðun skáldsins.

Texas og forsetastóllinn

BANDARÍSK utan- og innanrríkismál hafa verið mikið í umræðunni í kjölfar árásanna á Tvíburaturnana og stjórnartíð George W. Bush núverandi forseta þá ekki síður. Ekki eru allir jafn hrifnir af forsetanum líkt og bók Michael Lind, Made in Texas - George W. Bush and the Southern Takeover of American Politics, ber með sér. En í bókinni, sem að stórum hlut snýr að árum Bush sem ríkisstjóra, sér Lind Texas fyrir sér sem tvískipt fylki þar sem andstæðar hefðir takast á. Að mati New York Times Book Review er lýsing Lind á komu Bush í forsetastólinn hins vegar mun áhugaverðari, en höfundurinn dregur þar upp ófagra mynd þar sem hann segir forsetann hafa notað vald sitt til koma fram efnahags- og utanríkisstefnu þeirra sem hvað lengst séu til hægri í pólitík Suðurríkjanna.

Rétti maðurinn

GEORGE W. Bush er séður í öllu jákvæðara ljósi í bók David Frum, The Right Man - The Surprise Presidency of Georgy W. Bush , en Frum starfaði í rúmt ár sem einn af ræðuhöfundum forsetans. Framan af eru lýsingar Frum á forsetanum áhugaverðar að mati Economist sem segir hann hins vegar tapa þræðinum og týna sér í lofræðu þar sem forsetinn og stefnumál hans eru mærð til hins ítrasta.

Mailer áttræður

RITHÖFUNDURINN Norman Mailer sem ekki bjóst við að ná fertugu fagnaði í gær áttræðisafmæli sínu, en Mailer sendi nýlega frá sér bókina Spooky Art þar sem hann fjallar um skrif, auk þess sem þar eru endurbirtar ritgerðir og viðtöl m.a. um þol og hið yfirskilvitlega. Bókin hefur fengið misjafnar viðtökur og hafði New York Times eftir höfundinum að hann væri ekki viss hvort hann ætti eftir að senda frá sér aðra bók en viðurkenndi engu að síður að hann væri með stórt verk í smíðum sem hann neitaði þó að ræða frekar.