Verk eftir Claude Rutault á sýningunni í Listasafni Íslands.
Verk eftir Claude Rutault á sýningunni í Listasafni Íslands.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á mörkum málverksins er yfirskrift þriggja sýninga sem verða opnaðar í Listasafni Íslands í dag. SÚSANNA SVAVARSDÓTTIR ræddi við Ólaf Kvaran, forstöðumann safnsins, um listamennina þrjá, Rögnu Róbertsdóttur, Mike Bidlo og Claude Rutault og hugmyndir þeirra um málverkið.

LISTASAFN Íslands opnar í dag þrjár sýningar sem allar skírskota með ólíkum hætti til stöðu málverksins og ólíkra hugmynda um listhugtakið. Yfirskrift sýninganna er Á mörkum málverksins og verða verk eftir Rögnu Róbertsdóttur og Claude Rutault í efri sölum safnsins og Mike Bidlo í neðri sal.

Ragna Róbertsdóttir færir lausan efnivið náttúrunnar inn í stífan ramma málverksins með því að kasta efninu á vegg þar sem það er ekki alveg landslag, hvorki alveg hlutur né veggur. Mike Bidlo er bandarískur og þekktur fyrir verk sín þar sem hann málar eftir frægustu málverkum 20. aldarinnar í nýju samhengi þar sem hefðbundnum forsendum listsköpunar er snúið á haus. Claude Rutault, sem er franskur, afneitar málverkinu sem eftirlíkingu og flytur þess í stað verkið út úr rammanum og vekur upp spurningar um hlutverk og takmarkanir málverksins.

Til þess að fræðast nánar um listamennina og hvað þeir eiga sameiginlegt leitaði Morgunblaðið til Ólafs Kvaran, forstöðumanns Listasafns Íslands.

Listamaðurinn getur valið úr því sem er til

"Bidlo tilheyrir þeirri kynslóð listamanna sem koma fram upp úr 1980, ásamt til dæmis Richard Prince, Cindy Sherman, Jeff Koons og Sherrie Levine. Þessi hópur er tengdur við "appropriation" list sem við höfum þýtt sem tileinkun sem felur í sér að listamaðurinn tileinkar sér hluti eða myndir sem eru til staðar og endurgerir þá nákvæmlega eða með smábreytingum. Þetta var einnig eitt megineikenni popplistarinnar, listamanna eins og Warhol og Lichtenstein og Sherrie Levine en Mike Bidlo er tvímælalaust sá listamaður sem gengur lengst í því að má út persónu sína og gerir verk sín í 3. persónu, eða nákvæmar eftirlíkingar af helstu listaverkum 20. aldar. Þessi sýning hans hér heitir Not Picasso, Not Warhol, Not Pollock.

Með þessum kópíum eða eftirlíkingum af meistaraverkum 20. aldar er jafnframt sett spurningarmerki við grundvallarhugtök í myndlist sem varða frumleikahugtakið og hið listræna sköpunarverk. Einn hefðbundinn mælikvarði á gildi verks er til dæmis frumleiki þess og við tölum um að innra líf listamannsins birtist í listaverkinu. Það er sett spurningarmerki við slík atriði og má rekja til Marcels Duchamp í byrjun aldarinnar sem sýndi fram á að í listum þarf ekki að skapa eitthvað nýtt, heldur getur listamaðurinn valið úr því sem þegar er til. Bidlo vinnur út frá þessari hugmynd - en innan listarinnar. Hann velur sér verkið sem hann útfærir og tæmir um leið verkið af þeim sögulegu kringumstæðum sem það er skapað í. Eitt besta dæmið er mynd hans Stúlkurnar frá Avignon eftir Picasso frá 1907, sem hann endurgerir 1984 og rænir þá verkið sinni upphaflegu merkingu.

Eftirmyndin á sér gríðarlega sterkan sess í listasögunni. Rómverjar kópíeruðu Grikki og í allri listmenntun hefur kópían gegnt miklu hlutverki en list Bidlos hefur snertipukta við kjarnaspurningar í póst-módernismanum um dauða höfundarins. Hún skírskotar ennfremur til afstöðu Duchamps um val listamanns og Bidlo velur úr veruleikanum. Hann velur verk úr listasögunni en ekki landslag eða blómavasa. Picasso er hluti af þeim verkuleika sem hann velur úr, samtímis því að varpa kastljósi á lykilhugtök eins og frumleika og hið listræna sköpunarferli."

Að loknu málverkinu

Heitið á sýningu Claudes Rutault er Málverkið í sama lit og veggurinn sem það er hengt á. Hvað er hann að fara?

"Rutault kemur úr allt öðru umhverfi en Bidlo. Hann er franskur og mér fannst mjög spennandi að fá verk hans á sýningu hér. Innsetningar hans fjalla um listaverkið út frá þeim fyrirmælum sem kaupandinn eða sá sem pantar verkið fær frá Rutault. Þetta er nokkuð sem sprottið er úr hugmyndafræði konseptlistamanna, eins og Laurence Weiner, Yoko Ono og fleiri flúxuslistamenn. Rutault hafði verið afstraktmálari í kringum 1960 en út frá verkum Rodschenkos og Malewitz, sem máluðu einlit verk í upphafi aldarinnar, dró Rutault þá ályktun að hinu hefðbundna málverki væri lokið. Sú viðbót sem Rutault gerir er að taka málverkið út fyrir rammann og á vegginn. Instrúksjónir sem hann setur kaupendum verður raunverulega verkið og það má setja upp aftur og aftur á nýjum stöðum og hann hefur sagt að verk hans eiga sér mörg, stutt líf."

En er þá hægt að segja að þetta séu raunverulegir málarar?

"Það má spyrja á móti hvað sé raunverulegur málari í upphafi 21. aldar. Um möguleika tjáningar, og þá persónulegrar tjáningar, hefur verið eitt meginþema póstmódernismans. Sú heimspekilega umræða sem hefur verið í listaheiminum síðastliðin tuttugu ár hefur öðru fremur fjallað um frumleika, listræna ferlið og endursköpun á þeim veruleika sem við þekkjum. Svarið við spurningunni hvað sé raunverulegur málari, hlýtur að taka mið af þessari umræðu og þeirri listrænu þróun sem hfur átt sér stað á undanförnum áratugum. Duchamp svaraði henni á sínum tíma í upphafi 20. aldar með því að listamaðurinn "þurfi" ekki að búa til nýjan hlut, heldur geti hann valið úr því sem er til. Bidlo vinnur í þessum anda en gerir það innan listarinnar og Rutault hefur einnig snertifleti í list sinni við þessa hefð."

Er myndlistin þá ekki fremur orðin að heimspeki en list?

"Stór hluti myndlistarinnar á tuttugustu öld hefur fjallað um listhugtakið; hvað sé list og hvað ekki, um frumleikahugtakið og samhengi listarinnar og list Bidlos er ekki aðeins þau verk sem hann skapar heldur einnig sú umræða sem þau vekja."

Landslag fært úr stað

Verk Rögnu Róbertsdóttur á sýningunni ber heitið Landslag og er gert úr vikri og muldu glæru gleri sem kastað er á veggina. Ragna hefur frá því á níunda áratugnum unnið með náttúruleg og tilbúin form og hefur vinna hennar þróast úr skúlptúrsaðferð yfir í málverksútfærsluna með ólíku efnisvali. Viss gjörningshugsun fylgir því að flytja vikur úr íslensku landslagi inn í hús til að varpa á vegg. Þannig er landslagið fært úr stað og sett upp á vegg líkt og málverk af landslagi sem hengt er upp á vegg. Annars vegar er þar um að ræða vikur úr Heklu og hins vegar mulið gler sem mætti lýsa sem jökullandslagi eða sem beinni tilvísun í vatnið, eitt af frumefnum náttúrunnar. En hvað á hún sameiginlegt með þeim Bidlo og Rutault?

"Ástæðan fyrir því að við völdum verk Rögnu til þess að sýna með Bidlo og Rutault, er þessi beina og óbeina skírskotun sem hún hefur í málverkið," segir Ólafur. "Hún vinnur á veggi, rétthyrndan flöt, og hefur ákveðna tilvísun í landslagið og í málverkið. Hraunlandslagið í verkum hennar lýsir fremur frásögn af málverki."

Verkið birtist sem málverk

Í grein sem listfræðingurinn Eva Heisler hefur ritað um verk Rögnu segir: "Hraunlandslag hennar reynir á hversu sýnileg landslag, byggingarlist og málverk eru... Verk Rögnu spretta úr reynslu hennar af einsemd í íslensku landslagi. Listamaðurinn ver oft mörgum dögum í töluvert líkamlegt verli við að safna gosefnum og flokka þau. Að sögn Rögnu eru hraunverkin að nokkru leyti tilraun til að yfirfæra reynslu hennar af nándinni við landslagið inn í sýningarrýmið. Sá verknaður hennar að safna efnislegum eigindum landslags og koma þeim fyrir innanhúss er bæði einlægur og öfgakenndur, en jafnframt skondinn og dregur athyglina frá persónu hennar... Í verkum Rögnu stígur efniseðlið á yfirborði veggjarins fram sem málverk. Það má segja að verk Rögnu birtist sem málverk og þá er átt við að slík birting sé órjúfanlegur þáttur þess nú á dögum að við berum kennsl á eitthvað sem "málverk".

Ólafur bendir á að í þessum texta komi fram skýringin á því hvernig list hennar tengist málverkinu. Þetta séu þrír ólíkir listamenn sem hafi snertiflöt við sömu hugmyndafræði og bætir við: "Það má segja að þau séu þrír hnettir á sporbaug kringum hugtakið málverk."