Í MORGUNBLAÐINU síðastliðinn fimmtudag er frétt þar sem Norman Schwarzkopf hershöfðingi, sem stjórnaði liði bandamanna í Persaflóastríðinu árið 1991, er sagður vara við stefnu bandarískra stjórnvalda.

Í MORGUNBLAÐINU síðastliðinn fimmtudag er frétt þar sem Norman Schwarzkopf hershöfðingi, sem stjórnaði liði bandamanna í Persaflóastríðinu árið 1991, er sagður vara við stefnu bandarískra stjórnvalda. Hann er sérstaklega gagnrýninn á framgöngu varnarmálaráðherrans Donalds Rumsfeld sem notar hvert tækifæri til að koma fram í sjónvarpi eftir að stríðið gegn hryðjuverkum hófst, og "virðist stundum næstum njóta þess", en þessi gamalreyndi hermaður segir menn eiga að varast að njóta þess að heyja stríð.

Schwarzkopf er ekki sá eini sem varar við þeirri léttúð sem virðist einkenna afstöðu vestrænna ráðamanna til fyrirhugaðra árása á Írak.

Stríðsfréttamaðurinn Robert Fisk, sem skrifar m.a. fyrir breska blaðið The Independent, segir baráttuna um álit almennings ekki aðeins háða í sjónvarpi og dagblöðum, heldur einnig í bókum af öllum stærðum og gerðum, ekki síst á kaffiborðum Bandaríkjamanna þar sem hver viðhafnarútgáfan rekur aðra - tröllvaxnar ljósmyndabækur með klisjukennda titla á borð við Á helgri grund, Svo að aðrir megi lifa, Reiði í nafni drottins, Það sem við sáum, Síðasta víglínan og Skuggi sverðsins.

Svo virðist sem Bandaríkjamenn hafi smám saman misst sjónar á þeim hryllingi sem dundi yfir heimsbyggðina 11. september 2001. Hann hefur smám saman vikið fyrir jákvæðari táknmyndum af hetjum og fórnfýsi, upphöfnum myndum af mannlegum harmleik, sem geta verið fullar af reisn, en verða gjarnan niðurlægjandi tilfinningaklám í höndum bandarískra fréttasnápa.

Jákvæðu ímyndirnar eru vissulega mikilvægar og gera mörgum kleift að takast á við lífið á nýjan leik, en þær mega ekki deyfa okkur fyrir raunveruleika hörmunganna - að þúsundir saklausra borgara létu lífið á hryllilegan hátt. Og ekki má líta framhjá þeirri staðreynd að ef stríð skellur á munu þúsundir annarra saklausra borgara láta lífið og dauði þeirra verður ekkert merkingarríkari fyrir þá sök að banamennirnir eru fulltrúar hrikalega jákvæðra sjónarmiða.

Robert Fisk hefur ferðast um vígvelli heimsins. Hann telur fjölmiðla ganga of langt í því að verja vestræna áhorfendur fyrir andstyggðum stríðsins. Í kvöldfréttunum liggja hinir föllnu smekklega á grúfu, eða með annan arminn fyrir andlitinu og líta ekki út fyrir að vera mikið skemmdir.

"Það er næstum eins og þeir sofi," hugsum við og nælum okkur í annan bita af sunnudagssteikinni. Raunveruleikinn er annar og hann ratar ekki inn á heimili okkar.

Stundum eru stríð óumflýjanleg, en þá eiga þau að vera ráðamönnum og almenningi þungbær lausn. Að mínu mati ættu raunveruleg lýðræðisríki að draga upp skýra mynd af öllum þeim hörmungum sem fylgja vopnuðum átökum. Við eigum að axla byrðarnar sem fylgja ákvörðunum okkar, jafnvel þegar þær reynast réttmætar.

Í "Glaða stríðsmanninum" eftir enska skáldið Herbert Read er að finna þessar írónísku línur um hermann úr heimsstyrjöldinni fyrri. Þar dregur hann fram í fáum orðum andstæður rómantíska stríðsmannsins og morðæðisins á vígvellinum:

Hann getur ekki öskrað.

Blóðidrifið munnvatnið

lekur niður ólögulegan jakka.

Ég sá hann stinga

og aftur stinga

vel drepinn Húna.

Þetta er glaði stríðsmaðurinn, þetta er hann ...

GUÐNI ELÍSSON