Rúrí hefur unnið mikið með vatn og fossa. Hér gefur að líta verkið TILEINKUN - til Sigríðar í Brattholti, í Iðnskólanum í Hafnarfirði.
Rúrí hefur unnið mikið með vatn og fossa. Hér gefur að líta verkið TILEINKUN - til Sigríðar í Brattholti, í Iðnskólanum í Hafnarfirði.
VERKIÐ sem Rúrí ætlar að sýna í Feneyjum er ekki enn komið á það stig að hún vilji segja frá því í fjölmiðlum, þrátt fyrir að hugmyndavinnunni sé að sjálfsögðu lokið.

VERKIÐ sem Rúrí ætlar að sýna í Feneyjum er ekki enn komið á það stig að hún vilji segja frá því í fjölmiðlum, þrátt fyrir að hugmyndavinnunni sé að sjálfsögðu lokið. Á þeim skissum sem blaðamaður hefur góðfúslega fengið að skoða kemur í ljós að verkið ber greinilega höfundareinkenni hennar; það er nátengt umhverfi okkar og hefur um leið sterka vísun í það samfélagslega umhverfi sem nú blasir við.

"Í rauninni hef ég alla tíð verið pólitísk í minni list," segir Rúrí, "en Íslendingar leggja svo sérkennilega þröngan skilning í orðið pólitík. Almennt virðast þeir leggja þann skilning í orðið að það sé flokkapólitík, en eins og ég skynja það hefur pólitík með allt það að gera er viðkemur samfélaginu. Það held ég líka að sé hinn alþjóðlegi skilningur á orðinu. Verkin mín hafa því oft haft beina tengingu inn í nútímann og jafnvel framtíðina, en um leið hef ég líka tekið mið af menningarsögunni. Mér finnst það oft skýra betur þá hluti sem maður er að fást við í dag að bera þá saman við það sem hefur gerst á öðrum tíma. Ég er nú samt ekki alveg viss um að fólk hafi áttað sig á þessu stóra samhengi í verkunum mínum," segir Rúrí og brosir, "en á öllum mínum listferli hef ég unnið út frá þemum sem tengjast tímanum, afstæði og alheiminum. Þetta eru auðvitað víðar skilgreiningar og geta spannað allt okkar samfélag og tilvist, auk hins óþekkta.

Undanfarin ár hef ég unnið mikið með vatn og fossa og sýnt afraksturinn á þó nokkrum sýningum hér heima og erlendis. Í verkinu sem ég er að vinna fyrir Feneyjatvíæringinn er ég eiginlega að ganga ennþá lengra í þá átt. Ég nota þar fjöltækni; ljósmyndir sem eru að hluta tölvuunnar, hljóð og tölvustýringar, því verkið er gagnvirkt með tilliti til áhorfandans sem með sínu inngripi hefur bæði áhrif á ásýnd þess og virkni. Ljósmyndirnar eru af fossum, sem ég hef tekið á ferðum mínum um landið undanfarin ár. Ég hef unnið talsvert með þetta efni þó það hafi kannski ekki farið mjög hátt. Enda hef ég eiginlega ekki haft tíma til þess að gera mikið úr þessari vinnu, það hefur verið svo mikið að gera hjá mér undanfarið," segir Rúrí hlæjandi. "Ég fór t.d. til Kína í fyrra og var þar í þrjá mánuði, en þar sýndi ég einmitt fossa.