Þær Laufey og Rúrí bera saman bækur sínar á vinnustofu Rúríar.
Þær Laufey og Rúrí bera saman bækur sínar á vinnustofu Rúríar.
Undirbúningur fyrir Feneyjatvíæringinn er nú hafinn af fullum krafti. Nokkur styr stóð um framkvæmdina síðast en Laufey Helgadóttir, sem er sýningarstjóri að þessu sinni, segir í samtali við FRÍÐU BJÖRK INGVARSDÓTTUR að þjóðin sé enn á unglingastiginu hvað listheiminn varðar.

LAUFEY Helgadóttir listfræðingur hefur verið búsett í París um 30 ára skeið. Hún hefur því fylgst með listalífinu hér á Íslandi úr þeirri fjarlægð sem iðulega gerir gestsaugað glöggt. Hún var beðin að taka að sér sýningarstjórn fyrir Íslands hönd á Feneyjatvíæringnum í vor og hefur þegar hafist handa við það viðamikla verkefni sem skipulagning þátttökunnar er. En eins og flestum er kunnugt er Feneyjatvíæringurinn ein helsta myndlistarhátíð í heimi og sú sem á sér lengsta sögu og ríkasta hefð. Þótt tvíæringar séu nú orðnir margir er þetta samt sem áður sá eini sem Íslendingar taka þátt í með formlegum hætti fyrir tilstilli opinberra aðila og fyrir íslenskt myndlistarlíf er því mikið í húfi að vel sé að verki staðið.

Í upphafi samtalsins útskýrir Laufey að hún hafi ekki átt þátt í því að velja listamanninn að þessu sinni, en hvert land fyrir sig hefur sinn hátt á því. Hér er það nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins sem útnefnir listamann en í henni sitja þau Ólafur Kvaran, Steinunn Þórarinsdóttir og Hrafnhildur Schram. Hrafnhildur, sem sjálf var sýningarstjóri á síðasta tvíæringi, er formaður nefndarinnar, sem að þessu sinni valdi myndlistarmanninn Rúrí til ferðarinnar, en hún er flestum Íslendingum best kunn fyrir mikinn regnboga er teygir sig til himins við flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Verkefnið er mikil ögrun

"Það var Hrafnhildur sem hafði samband og bað mig um að vera sýningarstjóri Rúríar," segir Laufey, "og mér fannst það strax mikil ögrun að takast á við þetta verkefni. Ég vissi auðvitað að það hefur staðið styr um þessa framkvæmd hér heima svo ég var líka dálítið rög. Ekki síst vegna þess að þegar maður velur ekki sjálfur listamanninn er nálgun manns af öðru tagi. Það sem skipti þó sköpum var að mér finnst Rúrí mjög fær listamaður, hún er fjölþætt, áræðin og óhrædd að taka afstöðu. Svo höfðaði einnig til mín að fá að vinna þetta verkefni með konu, því kona hefur bara einu sinni áður verið valin fyrir Íslands hönd; Steina Vasulka árið 1997. Það var því margt sem gerði það að verkum að ég ákvað að lokum að slá til."

Margar þeirra þjóða sem mest kveður að á þessum vettvangi reyna, að sögn Laufeyjar, að nota tækifærið þegar þær opna sýningar sínar á tvíæringnum til þess að tilkynna hver muni taka þátt að tveimur árum liðnum. Þannig kynna þeir einn listamann til leiks og gefa um leið hugmynd um hvers sé að vænta næst. Hún hefur ekki kynnt sér hvernig standa á að valinu á þeim listamanni sem fer á eftir Rúrí, en tekur skýrt fram að hún sé eindregið þeirrar skoðunar að hann eigi að velja nú við upphaf þessa tvíærings í vor. "Þá getur viðkomandi farið og skoðað það sem um er að vera, myndað sér skoðun á fyrirkomulaginu og um leið verið betur í stakk búinn til þess að takast á við verkefnið. Það veitir ekki af því að hefjast strax handa."

Óþægilegt að geta ekki gengið að upplýsingakerfi

Þegar Laufey er spurð hvernig framkvæmd verkefnisins hafi verið skipulögð að þessu sinni, brosir hún og segir það erfitt hlutverk að gagnrýna verklag sem er í jafn óformlegum farvegi og þetta. "Góður vilji er fyrir hendi, en mér fannst dálítið óþægilegt að geta ekki gengið að upplýsingakerfi þar sem ég gæti t.d. fundið skýrslur fyrri sýningarstjóra og einhverjar upplýsingar um það sem í starfi sýningarstjórans felst. Þess vegna varð ég einfaldlega að leita til þeirra sem hafa sinnt þessu starfi áður og auðvitað ráðuneytisins, en hef samt sem áður mjög sterka tilfinningu fyrir því að ég sé að vinna alla vinnuna frá grunni. En kannski höfðu fyrri sýningarstjórar sömu tilfinningu."

Eru þá ekki til gögn frá fyrri árum sem þú getur gengið í?

"Ekki beinlínis, en eins og ég segi fæ ég auðvitað ýmislegt að vita hjá þeim sem hafa verið þarna áður og það hjálpar manni til að byrja með. En það er t.d. ekki til neinn kynningar- eða nafnalisti, né neinar þess háttar upplýsingar. Þar af leiðandi þarf að forma allt kynningarferlið frá upphafi til enda. Mér finnst því nauðsynlegt að taka alla vinnuna í kringum framkvæmdina föstum tökum svo reynslan skili sér áfram. Ég ákvað t.d. að taka þátt í sýningarstjórafundi í Feneyjum í haust, sem mér skilst að hafi ekki verið gert áður. Það var þó auðsótt mál að fá að fara, enda kom í ljós að þetta var óskaplega mikilvægur byrjunarpunktur, svo vera má að við höfum fram að þessu ekki nýtt öll þau tækifæri til fullnustu sem gefast í sambandi við þetta verkefni. Á þennan fund mæta sýningarstjórar allra hinna landanna og allar nauðsynlegar upplýsingar eru þá þegar til reiðu. Svo hefjast að sjálfsögðu samskiptin um sjálfa listamennina og verkin sem þeir ætla að sýna strax þarna. Ef maður fer ekki á þennan fund, hlýtur maður að vera alveg ráðvilltur gagnvart því sem er fram undan þegar á hólminn er komið. Mér fannst ég í það minnsta græða mikið á því að hitta sýningarstjóra hinna landanna og taka um leið púlsinn á því sem þarna mun verða sýnt. Þá er mjög mikilvægt að sjá hvernig sýningarumhverfið þróast, það nýtist okkur vel við kynningu á okkar listamanni."

Aðalsýningarstjórinn í ár er Francesco Bonami, en þar sem tvíæringurinn er nú haldinn í 50. sinn verður óvenjulega mikið um dýrðir, að sögn Laufeyjar, og því mikilvægt að við stöndum okkur. "Þemað að þessu sinni er "Draumar og árekstrar, alræðisvald áhorfandans", en við vorum ekki búin að fá það uppgefið þegar Rúrí skilaði sinni hugmynd inn. Fyrir ótrúlega tilviljun fellur verk hennar þó algjörlega að þessu þema, á sérlega skemmtilegan hátt."

Fjárframlagið aukið

Þegar Laufey er spurð að því hvort fjármagnið sem verkefninu er úthlutað dugi fyrir framkvæmdinni segir hún framlagið hafa verið aukið talsvert. "Það er um það bil helmingi meira en síðast, eða um 7 milljónir. Það hrekkur þó ekki til og því erum við að leita að góðum styrktaraðilum úr atvinnulífinu. Mér skilst að það hafi ekki verið gert áður nema í mjög takmörkuðum mæli og ég átta mig hreinlega ekki á hvernig það hefur verið hægt að komast af án þess. Erlendis er mjög algengt að fyrirtæki styrki verkefni af þessu tagi rausnarlega og telji það mikinn heiður, enda getur stuðningurinn haft mikið að segja um það almenningsálit sem fyrirtækin njóta. Að auki fá þau svo að sjálfsögðu skattaafslátt fyrir vikið. Mér sýnist sem það sé ekki jafn auðvelt hér.

Hvað sjálfa opnunina varðar þá finnst mér mjög mikilvægt að hún sé vegleg og landinu til sóma. Sigríður Snævarr sendiherra hefur tekið vel í þá hugmynd að vera mér innan handar vegna opnunar, en vera sendiherra myndi óneitanlega styrkja stöðu listamannsins sem fulltrúa þjóðarinnar á staðnum. Það má heldur ekki gleyma því að við Rúrí erum ekki með gallerí eða aðra listastofnun á bak við okkur við þessa vinnu. Í raun er það mjög erfið aðstaða, en um leið býsna dæmigerð fyrir þá stöðu sem blasir við flestum íslenskum listamönnum."

Nauðsynlegt að tryggja listamanninum starfslaun

Laufey segist hafa tekið eftir því á undirbúningsfundinum í haust að margar þjóðir, eins og t.d. skandinavísku þjóðirnar, Norðmenn, Svíar og Finnar sem sameinast um skála, undirbúa sig vel og eru með mann á staðnum, sem sótti fundinn með sýningarstjórunum. "Hann sér síðan um allt sem að framkvæmdinni lýtur í Feneyjum. Oft eru þetta arkitektar sem búa á staðnum og sjá um að finna sal fyrir móttöku, herbergi eða íbúð fyrir listamanninn, sýningarstjórann o.s.frv., en allt munar þetta óskaplega miklu og eykur um leið svigrúm listamannsins og sýningarstjórans til þess að sinna hinum listræna farvegi verkefnisins betur."

Aðspurð segist Laufey þó ekki vita hvort það myndi þjóna hagsmunum okkar að sækjast eftir samvinnu við þessar nágrannaþjóðir okkar. "Það er ekki víst að það sem þeir leggja fram sameiginlega veki meiri athygli heldur en skálar einstakra þjóða. Ég myndi óttast að við yrðum kaffærð í slíku samstarfi, en auðvitað er erfitt fyrir mig að meta það. Það gæti þó verið áhugavert að vera með sameiginlega opnun, þannig mætti búa til tengslanet og skapa sambönd fyrir marga listamenn í einu. Slík opnun gæti auk þess verið mun veglegri - á borð við það sem Bandaríkjamenn, Frakkar, Ástralar og Þjóðverjar eru að gera og vekur jafnan mikla athygli."

Auðvitað snýst þetta þegar allt kemur til alls þó fyrst og fremst um listina," segir Laufey, "og mér finnst hreinlega að það ætti að setja það í lög að sá listamaður sem valinn er til að vera fulltrúi þjóðarinnar í Feneyjum fái starfslaun í eitt ár á meðan hann vinnur að verkefninu. En þeir peningar sem við höfum til ráðstöfunar nú fara að miklu leyti í umgjörðina, þ.e.a.s. leigu á skála, gæslu, flutningskostnað o.s.frv. og auðvitað að hluta til í smíðina á verkinu sjálfu og annan beinan kostnað."

Bakland listanna vantar

Á fundinum í haust vakti það athygli Laufeyjar hversu margir sýningarstjóranna voru konur og jafnframt hvað þeir voru ungir. "Ég hef þess vegna á tilfinningunni að listamennirnir verði margir ungir líka, ekki síst þar sem ég heyrði mikið af nöfnum sem ég hef ekki heyrt nefnd áður. Þetta gæti leitt til þess að sjálf opnunarhátíðin verði öðruvísi en venjulega og ekki alveg eins formleg. Það var augljóst að stjórnendur hennar stefndu að léttara yfirbragði.

Það skiptir líka máli að sýningarstjórar hlusti á það hvernig listamennirnir sjálfir vilja opna sýningar sínar, en það getur verið mjög misjafnt. Sumar þjóðir koma t.d. með hljómsveitir eða önnur skemmtiatriði og kynna þannig fleiri en einn flöt á menningu sinni. En hvernig svo sem opnun er framkvæmd, verður að hugsa fyrir því að kynningarstarfinu sé sinnt og nauðsynleg tengsl mynduð.

Héðan frá Íslandi væri auðvitað frábært að fara með hljómsveit, t.d. Sigur Rós," segir Laufey brosandi, "en því fylgir auðvitað aukakostnaður. Aðrir yrðu að sjá um slíka viðbót, því við Rúrí erum ekki í stakk búnar til að sinna þessu öllu saman einar.

Eins og komið hefur fram í umræðunni undanfarið, þyrftum við auðvitað að eiga samtímalistastofnun til að annast slíka vinnu, eins og t.d. AFAA (Association francaise d'action artistique) í Frakklandi eða FRAME (Finnish Fund for Art Exchange) í Finnlandi. Þangað til komast þessi kynningar- og markaðsmál ekki í ákjósanlegan farveg. FRAME átti t.d. sinn fulltrúa á fundinum sem ég nefndi áðan. Ég er alveg sannfærð um að slík stofnun hér á landi myndi skipta sköpum við að búa til þetta bakland listanna sem hér vantar svo sárlega. Þar yrði haldið utan um upplýsingastreymi, reynslu af fyrri sýningum erlendis, tengiliði, fjármagn og þess háttar - einhver verður að halda þessu öllu til haga svo við séum ekki alltaf á byrjunarreit."

Laufey segist þó alls ekki vera þeirrar skoðunar að hægt sé að ætlast til þess að ráðuneytið sjái um allt. "Ráðuneytið hefur mjög margt á sinni könnu og það þýðir ekkert fyrir listamenn að vera alltaf að skammast út í það. En þar sem ekki er til staðar stofnun sem sinnir þessum málaflokki, eru ýmis vandamál sem koma upp við svona framkvæmd. Við fáum t.d. allt fjármagn frá ráðuneytinu sjálfu og þurfum því eðlilega að bera undir það allar ákvarðanir um hvernig peningunum er varið. Þar af leiðandi erum við ekki fyllilega sjálfstæðar við þessa vinnu."

Rúrí á réttum stað í sínum ferli

Þar sem ekki er um neitt gallerí að ræða til að reiða sig á sem umboðsaðila fyrir listamanninn þurfa þær Laufey og Rúrí sjálfar einnig að sjá um alla útgáfu tengda þátttökunni; á sýningarskrá, veggspjöldum, boðskortum og möppum með upplýsingum fyrir fjölmiðlafólk. "Við verðum auðvitað að framkvæma þetta allt saman og leita eftir samstarfi við fagfólk. Það er ekki hægt að sleppa neinum þessara þátta í dag," segir Laufey. "Ég er þegar búin að safna að mér boðslistum víðs vegar að, því þeir voru eitt þessara atriða sem ekki voru til reiðu hjá ráðuneytinu. Á listanum eru nú þegar yfir þúsund manns og við munum senda út boðskort með góðum fyrirvara. Boðskortin ásamt upplýsingamöppunum eru mjög mikilvægur þáttur í því að koma verkinu á framfæri. En þetta er allt óhemjulega mikil vinna, ekki síst þar sem ég er líka í öðru starfi," segir Laufey hlæjandi. "En Rúrí er svo mikill eldhugi að hún dregur mann áfram með sér. Það er óskaplega gott að vinna með henni, hún er fagleg, heilsteypt og heiðarleg, enda þýðir ekkert annað fyrir þá sem ætla að reyna að lifa af listinni."

Laufey segir það þjóna íslenskum hagsmunum vel að velja þroskaðan listamann til fararinnar að þessu sinni. "Ef miðað er við umheiminn þá er þjóðin enn á unglingastiginu hvað listheiminn varðar," segir hún brosandi. "Listamenn búsettir á Íslandi hafa ekki sömu tækifæri og þeir sem vinna erlendis og þess vegna tekur það þá oft lengri tíma að ná fullum þroska í sköpun sinni. Þá á ég ekki við að íslenskir listamenn séu barnalegir í hugmyndavinnu eða seinþroska, síður en svo. Ég er bara að vísa til reynslu og tækifæra, eða allra þeirra þátta sem skipta miklu við að koma hugmyndunum í ákjósanlegan farveg. Að því leytinu til er Rúrí nú á réttum stað í sínum ferli. Ísland er einangrað í ýmsu tilliti og fólk er ef til vill lengur að taka við sér fyrir vikið. En tími ungu listamannanna mun að sjálfsögðu koma, tækifærin bíða þeirra."

fbi@mbl.is

Höf.: fbi@mbl.is