Leikhópur Nýja sviðsins skiptist á að leika lækna og sjúklinga. Harpa Arnardóttir stendur, Halldór Gylfason í forgrunni.
Leikhópur Nýja sviðsins skiptist á að leika lækna og sjúklinga. Harpa Arnardóttir stendur, Halldór Gylfason í forgrunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Nýja sviði Borgarleikhússins verður frumsýnt í kvöld sérstætt leikverk er nefnist Maðurinn sem hélt að konan hans væri hattur. HÁVAR SIGURJÓNSSON ræddi við leikstjórann Peter Engkvist.

UM þessar mundir er mannsheilinn rannsóknarefni vísindanna og við þurfum ekki að velta vöngum lengi til að átta okkur á hvers vegna. Við manneskjurnar höfum öll heila og við höldum að við þekkjum hann. En um leið og við förum að skoða hann, förum inn í hann, finnst okkur við vera stödd á annarri plánetu. Með orðum úr persneska ljóðinu Ráðstefna fuglanna: "þetta er dalur undrunarinnar".

Þegar við hófum vinnu okkar langaði okkur til að rannsaka þetta undraverk upp á eigin spýtur. (Oliver) Sacks og ritsmíð hans hvöttu okkur til að skoða tilfelli eins og hann lýsir í bók sinni. Innblásturinn kom frá Sacks. Hann var upphafið að leit okkar að leikrænu formi."

Þessi orð eru tekin úr formála Peters Brooks, leikstjórans heimskunna, að verkinu sem Borgarleikhúsið frumsýnir í kvöld, Maðurinn sem hélt að konan hans væri hattur. Leikverkið er byggt á samnefndri bók taugalæknisins Olivers Sacks sem varð að metsölubók um allan heim og lýsir einstökum tilfellum og einkennum heilasköddunar, þar sem einkennin eru jafn furðuleg og þau eru margbrotin.

Það er leikhópur Nýja sviðsins í Borgarleikhúsinu undir stjórn sænska leikstjórans Peters Engkvist sem hefur unnið sýningu upp úr handriti Brooks en einnig haft bókina sjálfa til hliðsjónar, því margt í henni varpar enn skýrara ljósi á það sem er í leikverkinu og einnig vegna þess að leikhópurinn hefur samið sína eigin sýningu en ekki farið þá einföldu leið að endurgera sýningu Brooks sem hefur farið víða um heim frá því hún var frumsýnd fyrir 10 árum.

"Þetta er allt öðruvísi leikrit en ég hef fengist við hingað til," segir Peter Engkvist sem er íslensku leikhúsáhugafólki að góðu kunnur. Þetta er fjórða sýningin sem hann setur upp hérlendis, en hinar eru Ormstunga, Lofthræddi örninn Örvar og Beðið eftir Godot sem var opnunarsýning Nýja sviðsins haustið 2001.

"Þetta eru einfaldar sögur af fólki með heilaskaða. Þetta er því ekki leikrit í hefðbundnum skilningi og við höfum þurft að búa til sýningu úr efninu; klæða það í leikbúning," segir Peter. "Við undirbjuggum okkur með því að ræða við taugasérfræðinga, sjúkra- og iðjuþjálfa og áttum meira að segja símasamtal við Oliver Sacks sjálfan. Það sem gerir þetta ólíkt hefðbundinni vinnu leikara er að þeir hafa lítið sem ekkert úr eigin reynsluheimi að byggja á. Við sögðum hvað eftir annað fyrstu dagana að þetta gæti hreinlega ekki verið, svona væri útilokað að nokkur væri. En annað hefur komið á daginn."

Til að gefa væntanlegum áhorfendum hugmynd um hvað það er sem leikararnir stóðu frammi fyrir má ljóstra því upp að persónur verksins eru t.d. haldnar þeim heilaskaða að sjá einungis helming hlutanna. Aðrar eru blindar þótt ekki sé hægt að slá því föstu að nokkuð sé að sjóninni. Enn aðrir geta ekki hreyft líkamann nema með því að horfa á líkamshlutann. Og þannig mætti áfram telja.

"Við spurðum taugasérfræðingana hvort þetta gæti verið og svarið var alltaf á sama veg: "Já, það er alveg mögulegt en þarf samt alls ekki að vera." Í fyrstu þótti okkur þetta ómögulegt svar en það reyndist síðan lykillinn að verkinu, því hver manneskja er einstök og er sannkallað kraftaverk hvernig sem á það er litið. Þannig eru engin tvö sjúkdómstilfelli nákvæmlega eins, ekki fremur en engir tveir einstaklingar eru eins."

Peter samsinnir því að auðveld leið inn í verk af þessu tagi væri að leita eingöngu eftir því spaugilega. "Ég hef séð þannig handrit unnin upp úr þessari bók. Það er afskaplega lítið gefandi leið og niðurlægjandi. Það sem mér finnst svo stórkostlegt við þetta verk er hversu nýjan og framandi heim það opnar manni. Maður fyllist undrun yfir hversu flókinn og margbrotinn mannsheilinn er og þótt margt sé fyndið í sýningunni er grunntónninn vonandi sleginn að lífið sé sumum mjög erfitt og að á degi hverjum gerast kraftaverk þegar einstaklingar með flókinn heilaskaða geta framkvæmt einföldustu hreyfingar og tjáð sig þrátt fyrir allt."

havar@mbl.is