[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FORVERÐIR uppgötvuðu á dögunum sjálfsmynd af Rembrandt, en myndin hafði verið "löguð til" fyrir nokkrum öldum til að hún gæti sýnt rússneskan aðalsmann að því er stjórnendur Rembrandt-safnsins í Amsterdam greindu frá.

FORVERÐIR uppgötvuðu á dögunum sjálfsmynd af Rembrandt, en myndin hafði verið "löguð til" fyrir nokkrum öldum til að hún gæti sýnt rússneskan aðalsmann að því er stjórnendur Rembrandt-safnsins í Amsterdam greindu frá. Lag eftir lag af málningu voru skafin burt við hreinsun á verkinu svo sýna mætti myndina eins og hún var upphaflega og leiddi hreinsunin í ljós að myndin var í raun portrett af Rembrandt sjálfum.

Myndina vann listamaðurinn fyrst árið 1634, er hann var 28 ára gamall, en líklegt er talið að einn lærisveina meistarans hafi síðar málað yfir verkið, sem ekki hafði selst, til að spara peninga. Að sögn Önnu Brolsma, talsmanns safnsins, hafði lærisveinninn bætt hökuskeggi, axlasíðu hári og flauelshúfu á upprunalegu myndina til að ná fram rússnesku áhrifunum.

Myndin hefur verið hreinsuð nokkrum sinnum sl. 70 ár og hafði sú vinna að nokkru leitt í ljós hvað þar lá undir, þótt verkinu því væri ekki lokið fyrr en að sérstakur hópur fræðimanna, sem sérhæfir sig í því að sannreyna verk Rembrandts, staðfesti nýlega að verkið væri eftir listamanninn. Í fyrstu höfðu þeir þó útilokað að svo gæti verið - til þess skorti myndina fínleg pensilför Rembrandts sjálfs - en eftir sex ára tímafreka hreinsunarvinnu kom sannleikurinn í ljós.

Verkið hefur enn ekki verið verðmetið, en nýlega hafa verk Rembrandts selst fyrir um 2,3 milljarða króna.

Metverð fyrir Mantegna

VERK eftir ítalska endurreisnarlistamanninn Mantegna seldist nýlega fyrir metverð, en 2,1 milljarður króna fengust fyrir verk hans Kristur í limbó á uppboði hjá Sotheby's í New York. Myndin, sem talin er vera frá 1492, sýnir Jesú Krist stíga niður í limbó til að bjarga sálum hinna réttlátu.

Verkið var keypt í gegnum símasölu og vildi kaupandinn ekki láta nafns síns getið, en verkið er síðasta verk Mantegna, svo vitað sé um, sem enn er í eigu einkaaðila.

Talið er að verkið hafi verið málað sérstaklega að beiðni markgreifans Ludovico Gonzaga III, en hann var einn helsti stuðningsmaður listamannsins. Myndin sker sig frá öðrum verkum af ferð Krists í limbó frá þessum tíma að því leyti að hún sýnir för hans sem einstakt atvik í stað þess að líta á hana út frá lífi frelsarans í stærra samhengi. Að sögn Christopher Apostle, yfirmanns málverkadeildar Sotheby's er verkið eitt "stórkostlegasta og jafnframt áhrifamesta verk" listamannsins.