Jóhann Friðgeir Valdimarsson
Jóhann Friðgeir Valdimarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FJÓRIR nýir einsöngvarar hafa verið fastráðnir í vetur við Íslensku óperuna og þreyta tveir þeirra frumraun sína í hlutverkum á sviði óperunnar á frumsýningunni í kvöld.

FJÓRIR nýir einsöngvarar hafa verið fastráðnir í vetur við Íslensku óperuna og þreyta tveir þeirra frumraun sína í hlutverkum á sviði óperunnar á frumsýningunni í kvöld. Það eru þau Hulda Björk Garðarsdóttir, sópran, sem fer með hlutverk hirðmeyjar Lafði Macbeth, og Jóhann Friðgeir Valdimarsson, tenór, sem fer með hlutverk Macduffs. Hvorugt þeirra er því í aðalhlutverkum í Macbeth, en eru engu að síður í mikilvægum hlutverkum. Hulda Björk er á sviðinu stóran hluta úr sýningunni og Jóhann Friðgeir leikur eins konar hetju sýningarinnar - banamann Macbeths.

Hlutverk Macduffs er fyrsta óperuhlutverk Jóhanns Friðgeirs. "Ég er mjög sáttur við hlutverkið mitt, ekki of stórt og ekki of lítið. Macduff er í raun góði strákurinn," segir hann um hlutverkið. "Mig grunar þar fyrstur manna að það sé eitthvað gruggugt við Macbeth og morðið á Duncan konungi. Arían fræga, "Ah, la paterna mano", sem ég syng í byrjun fjórða þáttar þegar nýbúið er að drepa alla fjölskylduna mína og börn fyrir tilstilli Macbeth, fjallar um sorg mína, hefnd og fyrirgefningu Guðs ef ég hefni mín - sem ég geri í lokin."

Jóhann Friðgeir segist ekki hafa kynnt sér Macbeth sérstaklega áður en til þess kom að hann tæki þátt í óperunni nú. "En ég vissi alltaf af þessari aríu í henni, þó ég hefði ekki sungið hana. Og þrátt fyrir að Macbeth sé ekki ein af þessum topp-tíu óperum, er hún gríðarlega flott - sennilega vegna þess hve stór hún er og mikið vesen í kringum uppsetninguna á henni," segir hann og bætir við að óperan reyni í mörgum tilfellum sérlega mikið á söngvarana, sérstaklega hlutverk Elínar og Ólafs Kjartans. "Macbeth er þungavigtar-dæmi í raun," segir Jóhann Friðgeir að lokum.

Leiklist ein hliðin á óperu

Hulda Björk var ráðin við Íslensku óperuna frá 1. janúar síðastliðnum. Hún er þó ekki alls ókunnug sviðinu í Gamla bíói, þar sem hún söng með Óperukórnum um tíma fyrir nokkrum árum. "Það er skemmtileg tilbreyting að mæta á fastan vinnustað, komast út úr stofunni sem hefur verið mitt aðal vinnuafdrep undanfarið. Henni fylgir visst öryggi sem margir tónlistarmenn sækjast eftir," segir Hulda Björk um fastráðningu sína.

Hlutverk hirðmeyjar Lafði Macbeth er eina kvenhlutverk óperunnar fyrir utan lafðina sjálfa, og þó að það sé ekki stórt í samanburði, er Hulda Björk mikið á sviðinu í sýningunni. "Leikstjórinn gefur hlutverki mínu stórt vægi, enda er hlutverkið nokkuð mikilvægt fyrir framvindu verksins. Hirðmærin verður vitni að ráðagerðum Macbeths og konu hans - hún veit að hún er í hættu vegna þess hve mikið hún veit og blandar því lækninum í málið."

Hún segir að hlutverk Lafði Macbeth myndi ekki henta fyrir sína rödd, enda sé það skrifað fyrir dramatískan sópran. "Ég vel aftur á móti lýrískari hlutverk, eins og Súsönnu úr Brúðkaupi Fígarós, Mimi úr La Bohéme eða Paminu Töfraflautunnar. En það skemmtilegasta að undanförnu hefur verið að takast á við hlutverk Jenufu," segir hún, en hún hefur nýlokið við að fara með titilhlutverk óperunnar Jenufa eftir tékkneska tónskáldið Janácek í Norsku óperunni í Ósló.

Hulda Björk segist telja að Macbeth komi til með að vekja mikla athygli og höfða til margra. "Leikrit Shakespeares, tónlist Verdis og síðan þetta sérstaka útlit á sýningunni - það er mjög spennandi að fá að taka þátt í þessu," segir Hulda Björk að síðustu.