Frá sýningu Hlyns Hallssonar. Fremst er verkið Fjölskylda.
Frá sýningu Hlyns Hallssonar. Fremst er verkið Fjölskylda.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Opið frá kl. 13-17 miðvikudaga-sunnudaga. Til 23. febrúar.
Í NÝLISTASAFNINU við Vatnsstíg voru þrjár sýningar opnaðar um síðustu helgi. Á neðri hæð sýnir Jessica Jackson Hutchins verk sín en á efri hæð deila þeir Finnur Arnar Arnarson og Hlynur Hallsson salarkynnum.

Í stuttu máli þá er umfjöllunarefni Jessicu landslag, náttúra og fundin efni, Finnur fjallar um einmanaleika og tilvistarkreppu karlmannsins og Hlynur er opinn fyrir öllu að því er virðist, og vinnur með fjölskyldu sína, umhverfi og í raun heiminn allan.

Tvívídd og þrívídd

Í vinstri helmingi salar Jessicu Jackson Hutchins sýnir hún nokkur verk þar sem hún teflir saman tvívíðri og þrívíðri útgáfu af sama verkinu. Þannig virðist málverkið/teikningin á veggnum vera unnin eftir höggmyndinni á gólfinu eða öfugt. Hvorug myndanna er þó algjör frummynd því þær vísa út fyrir sig í náttúruna og minna á steina, fjöll, grastorfur, vötn eða goshveri.

Í texta sem listakonan skrifar og lætur fylgja sýningunni segist hún vinna með tiltækt efni í rýminu, þ.e. fundið efni og hluti og ef glöggt er skoðað má einmitt sjá verk unnin úr efnum sem gætu verið fundin, þ.e. umbúðir utan af Tuborg-öli, álpappír og fleira.

Jessica hefur í vetur verið að störfum í vinnustofu í Listagilinu á Akureyri og því má auðveldlega ímynda sér að verkin séu unnin undir áhrifum frá íslenskri náttúru.

Listakonan er afslöppuð og sjálfsörugg í mótun verkanna og sýningin býr yfir góðum heildarsvip. Verkin eru unnin af næmi og Hutchins hefur góða tilfinningu fyrir efninu.

Þessi hluti sýningarinnar fer mjög vel inni í salnum og það er vel þess virði að skoða hann. Upphengi listakonunnar í hægri hluta salarins er hins vegar ómarkvisst og fer fyrir ofan garð og neðan.

Karlmaður og hversdagur

Verk Finns Arnars Arnarsonar hafa í gegnum tíðina verið hversdagsleg í gerð sinni og veruleikanum hefur verið skellt blákalt framan í fólk þannig að það neyðist til að taka afstöðu. Má þar nefna sýningu á Nýlistasafninu árið 1998 þar sem hann stækkaði launaseðla fólks upp í yfirstærð þannig að kjörin blöstu við. Á þeirri sýningu stillti hann upp hinum mjög svo blátt áfram "skrapp frá" verkum þar sem hann skildi hluti eins og barnavagn eða innkaupapoka eftir, rétt eins og eigandinn væri í næsta nágrenni og von væri á honum á hverri stundu og listin væri allt í einu orðin hluti af gráum hversdagsleikanum.

Finnur hefur á síðustu misserum látið sig veruleika og ímynd karlmannsins varða og skemmst er að minnast verka þar sem hann sýndi hafnfirska víkinga og gerði skil þeim örum sem víkingarnir höfðu hlotið í "bardögum" sín á milli.

Finnur notar sjálfan sig sem módel í myndbandsverkum sínum og gerir þannig sjálfan sig að tákmynd íslenskra karlmanna og þeirri tilvistarkreppu sem þeir geta lent í, en margir eru á því að karlmaðurinn eigi sér nú fáa stuðningsmenn á meðan kvenþjóðin njóti víðtæks og vaxandi stuðnings.

Þetta umfjöllunarefni birtist síðast í sýningu sem Finnur hélt í Nýlistasafninu fyrir 2 árum þar sem hann (Finnur/karlmaðurinn) hímdi upp við vegg, hræddur og einmana. Nú birtist þessi tilfinning aftur þar sem karlmaðurinn liggur lafhræddur og hálf titrandi, andandi ótt og títt í lausu lofti og gægist af og til fram fyrir sig til að fylgjast með því hvort einhver sé að koma. Við hlið hans situr karlmaðurinn við eina af sínum uppáhaldsiðjum, veiðar, einn á móti víðáttunni sem eykur enn á einmanaleika mannverunnar.

Verkin eru hvort um sig sterk og Finnur spilar með tímaeiginleika miðilsins til áhersluauka. Verkin hefðu þó getað orðið enn áhrifameiri með skarpari myndgæðum og meiri afmörkun eða jafnvel myrkvun sýningarrýmisins.

Líf og list samfléttuð

Hlynur Hallsson hefur á ferli sínum sem myndlistarmaður verið mjög afkastamikill og er sá samtímalistamaður íslenskur sem er hvað næst því að kallast fullkominn atvinnumaður í myndlistariðkun. Þar er átt við allt í senn vinnubrögð, hugmyndafræði og framsetningu sem og því hvernig hann fléttar líf sitt og list saman þannig að hann er í raun alltaf í vinnunni. Hlynur hefur lag á að flétta saman daglegum upplifunum, veruleika fjölmiðla og sínu eigin fjölskyldulífi í sögu sem stöðugt er að verða til, á hverri mínútu sem líður.

Það allra nýjasta hjá Hlyn er framboð til Alþingis fyrir Vinstri græna og vafalaust leiðir hann stundum hugann í og með að því að þau störf séu hluti af hans verkum og veruleika sem myndlistarmaður - maður sem vill hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og vekja upp umræður.

Hlynur gerði einmitt verk í Marfa í Texas á síðasta ári sem vakti umræðu og komst í heimspressuna sem sýnir það að ef myndlistin er einlæg og sönn og er í samtali við samtíðina þá á hún sinn fasta stað í umræðunni.

Sýningin í Nýlistasafninu er nokkurs konar yfirlitssýning því bæði eru þarna verk sem Hlynur hefur sýnt áður sem og ný verk. Sýninguna kallar listamaðurinn Bíó-Kino-Movies og er hún full af litlum sögum þar sem myndum og textum er fléttað saman, stundum í rökréttu samhengi en stundum í engu samhengi sem aftur gerir það að verkum að áhorfandinn fer að brjóta heilann og finna merkingu út úr merkingarleysunni.

Með sýningunni fylgir vegleg sýningarskrá og urmull af upplýsingum um listamanninn og feril hans.

Verk Hlyns eru vönduð og hugmyndafræði hans svo einföld að það er stundum erfitt að átta sig á henni. En hún hvetur mann til þátttöku, hvort sem er í sjálfri sér eða lífinu sjálfu.

Þóroddur Bjarnason

Höf.: Þóroddur Bjarnason