"Höfundurinn er dauður," sagði Roland Barthes í frægri grein 1968. Vésteinn og Örnólfur eru ekki sammála og benda á Snorra því til staðfestingar.
"Höfundurinn er dauður," sagði Roland Barthes í frægri grein 1968. Vésteinn og Örnólfur eru ekki sammála og benda á Snorra því til staðfestingar.
Egils saga var í fyrsta sinn gefin út undir höfundarnafni Snorra Sturlusonar í Ritsafni hans sem kom út á síðasta ári. Guðrún Nordal miðaldafræðingur gagnrýndi þessa útgáfu í grein hér í Lesbók sl. desember og sagði Snorra ekki höfund þeirrar Eglu sem við lesum í útgáfum í dag. "Eða í þeirri útgáfu sem kom út á haustdögum undir nafni hans." Í þessari grein svara ritstjórar Ritsafnsins gagnrýni hennar og færa rök fyrir því að Snorri sé að öllum líkindum höfundur Eglu.

NORSKUR fræðimaður skrifaði fyrir alllöngu doktorsritgerð um kveðskap eftir Egil Skallagrímsson. Andmælandi hans fann ritinu margt til foráttu og tók svo til orða: "Það er heppilegt fyrir doktorsefni að Egill Skallagrímsson skuli ekki vera staddur hér í dag. Hann hefði sennilega gripið til beittari röksemda en ég hef gert." Í sama anda má spyrja hvernig Agli hefði orðið við ef hann hefði fengið að heyra söguna sem af honum var skrifuð á þrettándu öld. Vera má að karli hefði þótt ástæða til að grípa til vopna gegn höfundinum og hefði þá komið sér vel að vita hver hafði gerst svo djarfur að skrifa söguna.

Það vakti nokkra athygli þegar Egils saga Skallagrímssonar var prentuð í fyrra sem verk Snorra Sturlusonar. Reyndar hefur fjöldi fræðimanna lengi aðhyllst rökstudda tilgátu um þetta, og skýrt var tekið fram í útgáfunni að engar beinar heimildir séu fyrir því að Snorri sé höfundur sögunnar. Fátt hefur verið um andóf gegn þeirri kenningu í sjö áratugi. Andmæli gegn svo eindreginni tengingu komu þó fram í grein Guðrúnar Nordal í Lesbók Mbl. 21. des. s.l. Í grein Guðrúnar eru margar ágætar athugasemdir um kveðskapinn í Eglu og varðveislu sögunnar. Henni þykir gengið of langt að tilgreina ákveðinn höfund, einkum af því að sagan er ekki komin til okkar í upphaflegri mynd og við bindum túlkunina um of með því að eigna hana einum manni, en það sé einmitt eðli Íslendingasagna að vera nafnlausar, án höfundar. Guðrún efast þó ekki um að Egla hafi orðið til í Borgarfirði á fyrri hluta þrettándu aldar, og hún hikar ekki við að eigna Snorra Eddu og Heimskringlu. Rétt er að Egla er ekki varðveitt í upphaflegri gerð sinni; en hið sama á raunar við um Eddu, Heimskringlu, Íslendingasögur allar og raunar bróðurpart íslenskra miðaldaverka.

Ekki er óeðlilegt að skoðanir séu skiptar um það hvort heimilt sé að eigna Snorra söguna með svo eindregnum hætti, og þar sem við undirritaðir áttum nokkurn hlut að máli þykir okkur rétt að gera lesendum Lesbókar grein fyrir forsendum þess að ákveðið var að birta Eglu í ritsafni Snorra. Jafnframt er tilefni til að ræða almennar forsendur fyrir ýmsu í gagnrýni Guðrúnar. Það virðist ekki vera mikill skoðanamunur á milli okkar og Guðrúnar um ritunarstað og -tíma Egils sögu og varðveislu textans, en hún tekur svo eindregið til orða um að rangt sé að eigna söguna Snorra að ætla mætti að þeir sem gáfu söguna út undir nafni Snorra hafi verið að blekkja lesendur. Því er rétt að ræða nokkru nánar rökin fyrir þeirri ákvörðun. Rétt er að taka fram að við teljum mjög ólíklegt að nokkurn tíma takist með jafngóðum líkum að eigna Íslendingasögu nafngreindum höfundi og að leit að höfundum þeirra hafi mjög takmarkað gildi nema það geti tekist, eins og í þessu dæmi, að finna höfund sem margt er vitað um og mikil rit liggja eftir.

Við getum ekki fallist á að líta á forn sagnarit sem einhvers konar samskotagildi, þar sem fjöldi einstaklinga hafi selt svipaðan skammt í sumblið, heldur teljum við að þau eigi sér jafnan upphafsmenn sem kalla megi höfunda, þótt þeir hafi ekki eignað sér þau sjálfir og varast beri að setja sér fyrir hugskotssjónir vinnulag og afstöðu nútímahöfunda þegar hugsað er til þeirra. Úr efni sem fyrir þeim lá og eigin hugmyndum settu þeir saman texta sem höfðu svo skýr sérkenni, miðað við fyrri frásagnir af sömu efnum, að eðlilegt er að líta á rit þeirra sem ný verk. Síðan breyttust þessi rit í höndum eftirritara. Stundum voru slíkar breytingar svo gagngerðar að eðlilegt er að tala um annað verk og annan höfund, en miklu algengari voru litlar og oft tilviljanakenndar breytingar. Þá heldur textinn megineinkennum sínum þótt orðalag og stundum stíll breytist, eitthvað sé fellt niður en öðru aukið við. Ekki er um það ágreiningur að Egils saga hafi verið sett saman á fyrri hluta þrettándu aldar, og við teljum að handritageymd sögunnar beri handbragði ákveðins höfundar glöggt vitni þótt verkið sé ekki varðveitt nákvæmlega eins og hann gekk frá því. Mismun handrita má túlka með ýmsu móti, en við teljum þó að þær þrjár megingerðir sögunnar sem rekja má til miðalda séu tilbrigði um eitt verk sem með sterkum rökum megi eigna Snorra Sturlusyni. Heimskringla og Snorra Edda hafa frá fyrstu prentun verið gefnar út undir nafni Snorra. Allur þorri fræðimanna hefur um langt skeið gengið út frá því sem vísu að Snorri sé höfundur Egils sögu. Okkur þykir fulldjúpt í árinni tekið hjá Guðrúnu Nordal þegar hún segir að gefin séu út "ný og ný verk í nafni Snorra Sturlusonar", þótt Egla hafi nú verið gefin út undir nafni hans með Heimskringlu og Eddu.

Ekkert fornt íslenskt sagnarit er varðveitt alveg eins og höfundur gekk frá því eða undirritað af höfundi (líklega kemst Íslendingabók Ara næst því. Hann nefnir nafn sitt í bókarlok, og líkur eru til að varðveittur texti sé lítt breyttur frá frumtexta). Í elsta handriti Snorra Eddu stendur að Snorri Sturluson hafi sett hana saman, en í varðveittum handritum verksins hafa þó verið gerðar æðimiklar breytingar frá frumtexta; hann hefur verið styttur í elsta handritinu en einnig aukið við það óskyldu efni. Í öðrum miðaldahandritum eru margvíslegir viðaukar. Þrátt fyrir þetta varðveita handritin ákveðinn kjarna sem hlýtur að vera frá Snorra kominn, og í þessum kjarna kemur fram geysileg þekking, sjálfstæði í hugsun og frásagnarsnilld. Snorra Edda er einstætt verk, og óhugsandi annað en sérstöðu þess megi rekja til höfundarins, upphafsmannsins Snorra. Konungasögurnar sem fengið hafa nafnið Heimskringla eru unnar úr eldra efni, sögum og kvæðum, og eftirritarar hafa breytt ritinu eitthvað frá því að höfundur lét það frá sér fara. Samt heldur það einkennum sem greina Heimskringlu skýrt frá öðrum konungasögum. Beinar heimildir fyrir því að Snorri sé höfundur ritsins eru ekki óyggjandi. Þrátt fyrir mismun handrita er þó lítill ágreiningur meðal fræðimanna að þau séu leidd af einu verki sem eigi sér höfund, Snorra Sturluson. Það hlýtur að vera hans verk að gæða þetta verk þeim snilldarbrag sem það hefur í heild sinni. Engu breytir þótt einhverjir lærisveinar hans kunni að hafa vikið einhverju við eða leiðrétt í eftirriti. Enginn efar að lærisveinar Rembrandts eigi einhvern þátt í myndum hans.

Ýmis helstu rök sem Guðrún Nordal beitir gegn því að telja Snorra höfund Egils sögu hitta einnig Eddu og Heimskringlu fyrir. Þau eiga sér rætur í ákveðnum fræðilegum viðhorfum sem ástæða er til að ræða nokkru nánar. Þessi viðhorf koma fram hjá svo nefndum póststrúktúralistum eða síðformgerðarsinnum og þeim fræðimönnum sem kenna sig við nýja textafræði; til styttingar köllum við það einu nafni ‘ný-fræði' hér.

Hvað er höfundur?

Á síðari áratugum hafa ýmsir fræðimenn haldið því fram að höfundar eigi ekki eins mikið í verkum sínum og almennt hefur verið talið, né heldur séu verkin sjálf vel afmörkuð eða einstæð fyrirbæri. Hér er þó verið að tala um verk sem birt eru undir nafni og varðveitt eins og höfundurinn gekk frá þeim. Frumkvöðlar þessarar umræðu eru einkum Frakkarnir Roland Barthes og Michel Foucault. Um hana má m.a. lesa í grein Þrastar Helgasonar, "Tilurð höfundarins", í Skírni 1995. Ástæðan til þessarar gagnrýni á höfundarhugtakið er - svo að málið sé sett fram á allra einfaldasta hátt - að tungumál og bókmenntahefð setja höfundum meiri skorður og hafa meiri áhrif á verk þeirra en svo að hægt sé að taka gilda þá rómantísku hugmynd, fædda á átjándu öld, að höfundurinn ríki eins og guð yfir verki sínu, einstæðu sköpunarverki (sé upphaf þess og miðja, með orðum Þrastar). Þegar slíkur fyrirvari er hafður á gagnvart nútímaverkum, kirfilega útgefnum og merktum höfundum sem líklega hafa lagt blessun sína yfir síðustu próförk, má nærri geta að málið vandast miklu meira þegar kemur að miðaldaritum eins og fornsögum. Hér verður ekki reynt að verja hugmyndina um hinn almáttuga höfund sem skapar frumlegt verk úr engu og er sjálfur miðja þess. Það á hvorki við Snorra né Halldór Laxness, þótt báðir hafi verið ritsnillingar. Hvernig sá síðarnefndi notar eldri heimildir í verk sín má sjá dæmi um í hinu merka riti Eiríks Jónssonar, Rætur Íslandsklukkunnar (1981). Samt teljum við heppilegt að nota orðið höfundur, og ekki er slæmur að því nauturinn því að það kemur fyrir í Snorra Eddu, "skáld eru höfundar allrar rýnni".

Hvernig hægt er að vinna með bókmenntir á hinum ný-fræðilega grunni má sjá í ritinu Höfundar Njálu eftir Jón Karl Helgason (2001). Viðhorf hans er að hver sá sem endurritar Njáls sögu eða vinnur úr efni hennar, semji þar með nýja Njáls sögu, sé nýr höfundur Njálu. Með sömu rökum mætti halda því fram að Egils saga eigi sér a.m.k. þrjá höfunda, upphafsmenn M-gerðar (aðalhandrit Möðruvallabók), W-gerðar (aðalhandrit varðveitt í Wolfenbüttel á Þýskalandi) og K-gerðar textans (aðalhandrit skrifað af séra Katli Jörundarsyni á Kvennabrekku). Því erum við ekki sammála, en hins vegar mætti kalla höfunda þá sem hafa endurtúlkað verkið á róttækan hátt, eins og þann skrifara sem setti saman svo kallaða Vitlausu Eglu á 17. öld eða menntaskólanema sem fyrir nokkrum áratugum sömdu leikrit um ástir Gunnhildar drottningar og Egils Skallagrímssonar.

Þrátt fyrir gagnrýni á hugtökin höfundur og verk, sem hefur dýpkað skilning okkar á merkingu þeirra og takmörkunum, hafa menn haldið áfram að nota þau. Þótt íslenskar fornsögur séu ekki til í frumgerð og allmikill munur sé oft á handritum, teljum við langeðlilegast að líta á þær sem höfundarverk sem við hljótum að reyna að nálgast gegnum eftirritin. Hver saga um sig er árangur af hugarstarfi upphafsmanns sem mótaði textann sem heild, hvaðan svo sem hann dró að sér efnið og undir hvaða áhrifum sem hann var. Þennan upphafsmann höldum við áfram að kalla höfund þótt við vitum að hann samdi rit sitt úr eldra efni, og við lítum svo á að hann eigi mestan heiður af verkinu sem hann setti saman þótt það sé aðeins komið til okkar í nokkuð breyttri mynd og vel megi vera að skapandi endurritarar hafi stundum bætt um betur. Þeir sem ætla að vera sjálfum sér samkvæmir í því að hafna höfundar- og verkhugtakinu og rannsaka bókmenntirnar sem einhvers konar straum texta, lenda í ógöngum, eins og Foucault sá reyndar sjálfur (sbr. Skírni 1995, 307-308). Það er hægt að leika sér skemmtilega með endalausa röð af höfundum Njáls sögu eins og Jón Karl gerir, og ekkert athugavert við það, en eftir stendur að á ákveðnum stað og tíma urðu straumhvörf í framsetningu þessa efnis sem allar síðari gerðir taka mið af. Mikilvægt er að rannsaka mismun handritanna, ekki aðeins til að nálgast frumrit þeirra heldur einnig vegna þeirrar skapandi vinnu sem skrifararnir kunna að hafa lagt í verk sitt; það væri t.d. forvitnilegt rannsóknarefni að bera saman öll varðveitt handrit Njálu, frá öndverðu um 1300 og fram á síðari aldir. En það er ótvíræður munur á hlutverki skrifaranna, sem endurrituðu Njáls sögu, og skáldsins Jónasar sem orti Gunnarshólma, Jóhanns Sigurjónssonar sem samdi leikritið Løgneren um Mörð Valgarðsson eða Friðriks Á. Brekkan sem samdi skáldsöguna Drottningarkyn um Hallgerði. Shakespeare gerði nýtt verk úr Amlóðasögninni fornu. Hann er höfundur leikritsins um Hamlet, þótt ekki sé með vissu hægt að segja að hvert orð í prentuðum textum þessa verks sé frá honum komið, og endursegjendur og kvikmyndagerðarmenn hafa samið úr því ný verk, en eftir stendur að einhver Shakespeare samdi verkið Hamlet í byrjun seytjándu aldar. Auðvitað eru þarna til markatilfelli, sem erfitt er að ákveða hvort sé heldur nýtt verk eða endurritun. Stundum er greinileg skapandi endurritun í handritum fornsagna. Má benda á mismunandi gerðir Bandamanna sögu og Gísla sögu sem dæmi. Full ástæða er þó til að líta svo á að þessar sögur eigi sér hvor sinn höfund. Enn frekar er ástæða til þess að telja að öll miðaldahandrit Egils sögu spegli eitt verk. Af þessu leiðir ekki að þessir höfundar miðaldarita hafi verið að tjá ‘sig' í verkum sínum, eins og oft er tekið til orða um rithöfunda nú á tímum. Þeir settu saman efni, komu skipan á það, komu orðum að því.

Snorri og Egils saga

Þrír meginskörungar íslenskra fræða í kringum 1900, Guðbrandur Vigfússon, Björn M. Ólsen og Sigurður Nordal, tóku allir undir þá hugmynd sálmaskáldsins og lærdómsmannsins Grundtvigs að Snorri hefði samið Egils sögu og færðu rök fyrir. Guðbrandur benti á líkindi í stíl og ennfremur að Snorri hefði um skeið dvalist á Borg og farið með "völd í héraðinu sem pólitískur arftaki Egils". Miklu rækilegri rök bar Björn M. Ólsen fram í grein sem birtist í dönsku tímariti árið 1904 og var að meginefni samanburður Egils sögu og Landnámu. Finnur Jónsson prófessor í Kaupmannahöfn og sænskur fræðimaður, Per Wieselgren, andmæltu Birni. Finnur og Björn voru mjög sjaldan sammála, og bæði Finnur og Wieselgren gerðu ráð fyrir að sagan væri mjög mótuð af sögulegum atvikum og áreiðanlegri munnlegri geymd. Sigurður Nordal tók málið síðan upp í formála sínum að Egils sögu (1933) og hrakti þar meginröksemdir Wieselgrens en bætti ýmsum rökum við þau sem Björn M. Ólsen hafði fært fram (þótt Sigurður samþykki ekki allar röksemdir Björns). Helstu röksemdir þessara fræðimanna eru annaðhvort sagnfræðilegs eðlis - miðast við þekkingu og afstöðu sem birtist í Eglu í ljósi þess sem vitað er um ævi Snorra - ellegar bókmenntalegs eðlis og taka þá mið af sambandi Egils sögu við önnur rit og listræn einkenni frásagnarinnar. Mestu máli skiptir þar að Egils saga skarast talsvert við Heimskringlu um efni, og efnistökin eru á margan hátt náskyld bæði Heimskringlu og Snorra Eddu. Niðurstaðan af slíkri röksemdafærslu bendir öll í þá átt að Snorri sé mjög líklegur höfundur sögunnar. Þetta tekur Guðrún Nordal raunar undir þegar hún segir: "Þó efast ég ekki um að sagan sé sprottin upp úr hans umhverfi, jafnvel í Reykholti. Höfundurinn er bersýnilega hugfanginn af Mýramannakyni ... ." Á öðrum stað segir hún: "höfundurinn hefur skáldskap um konunga á heilanum". Hún tekur þarna undir það að Egla eigi sér höfund, enda er varla ágreiningur um það meðal fræðimanna. Sem dæmi um rannsóknir á vinnubrögðum þessa höfundar má nefna doktorsritgerðir Bjarna Einarssonar og Baldurs Hafstað. Þeir gera ráð fyrir því í ritum sínum að Snorri sé höfundurinn, þótt þeir hafi fyrirvara á um heimildarleysið. Enn lengra hefur fræðimaðurinn Torfi Tulinius gengið í skrifum sínum um Snorra og Eglu.

Ekki er hægt að neita því að huglægt mat og listrænn smekkur skipta allmiklu máli þegar ályktað er af sagnfræðilegum og bókmenntalegum röksemdum, en enn er ógetið um eina tegund röksemda fyrir því að Snorri sé höfundur Egils sögu, eða með öðrum orðum að Heimskringla og Egils saga séu samdar af sama höfundi, en það eru röksemdir reistar á rannsóknum á máli.

Rannsóknir á orðaforða Íslendinga sagna eru því miður skammt á veg komnar, ekki síst ef hafðar eru í huga þær víðáttur rannsóknarsviða sem ný tölvutækni opnar fræðimönnum. Allmargir fræðimenn hafa þó af mikilli elju og þrautseigju fengist við athuganir á orðaforða einstakra sagna og orðavenslum milli sagna, þekktar eru t.d. rannsóknir íslenskra fræðimanna á svokölluðum rittengslum, orðalíkindum milli texta, sem einkum eru stundaðar til að marka sögum stað í tíma, ákvarða afstæðan ritunartíma þeirra. Vart mun þó á nokkurn hallað þótt sænski fræðimaðurinn Peter Hallberg sé talinn brautryðjandi á því sviði að gaumgæfa skipulega sameiginlegan orðaforða sagna í því skyni að finna þeim höfund. Hallberg var á langri ævi mikilvirkur fræðimaður, jafnt á vettvangi nútímabókmennta sem fornra sagna og fræða. Á sviði fornbókmennta eru án efa þekktastar tilraunir hans til að ættfæra fornar sögur og eigna nafnkunnum höfundi eða tengja saman sagnaflokka í "skóla". Við þær rannsóknir beitti hann einkum röksemdum úr tungutaki og stíl, taldi orð og orðasambönd í einstökum textum og mat líkur á því að þeir væru eftir sama höfund eða ættaðir úr sömu smiðju, og hann fékkst við allar tegundir íslenskra fornsagna, Íslendingasögur, konungasögur, samtíðarsögur, riddarasögur og helgisögur.

Þessar rannsóknir Hallbergs hófust fyrir hartnær fjórum áratugum með bók hans um Snorra Sturluson og Eglu. Hann gerir þar ráð fyrir að Heimskringla sé eftir Snorra Sturluson og velur fjórar Íslendinga sögur auk Egils sögu til sérstakrar athugunar. Þessar sögur eru Laxdæla, Eyrbyggja, Njála og Grettla. Aðferðin byggist á því að beina sjónum að afmörkuðum hluta orðaforðans, þeim orðum eða því orðalagi sem einvörðungu kemur fyrir í Heimskringlu og einhverri þeirra Íslendingasagna sem hann skoðar samhliða. Þennan hluta orðaforðans kallar Hallberg parord sem þýtt hefur verið með orðinu samstæða; eftir því sem samstæðum fjölgar aukast líkur á skyldleika texta. Til að gera langa rannsóknarsögu stutta hafa rannsóknir Hallbergs frá öndverðu bent til sérstaks skyldleika milli Heimskringlu og Eglu: Niðurstöðuna úr fyrstu bókinni rökstuddi hann enn frekar í fjölmörgum greinum og bókum á langri ævi, fjölgaði samanburðarsögum og dæmum.

Það vinnulag að reyna að rekja saman texta á grundvelli samstæðna er vitaskuld umdeilanlegt, einkum ef höfð er í huga sérkennileg varðveisla margra sagna öldum saman; séu ályktanir fræðimanna um aldur þeirra á rökum reistar eru sumar hverjar tvö- eða þrjúhundruð árum eldri í frumgerð en elsta varðveitta handrit eða handritsbrot og því ljóst að margir og misnákvæmir skrifarar hafa sýslað með textann í þeim leiðangri. Hallberg taldi það vega þungt á móti þessum röksemdum að líkur séu til að 'sjaldgæft orðalag' einsog samstæðurnar varðveitist fremur óbrjálað frá frumgerð en annað og almennara orðafar. Eða m.ö.o. að meiri líkur séu til að textar fjarlægist hver annan í máleinkennum þegar milliliðum fjölgar en að þeir nálgist hver annan.

Þess má hér geta að ítarlega er fjallað um orðfræðilegar rannsóknir af þessum toga og öðrum í kandídatsritgerð Örnólfs Thorssonar um Grettis sögu frá 1993; og þar bætt við rannsóknaraðferð Hallbergs frekari röksemdum af máli og stíl. Þar er og reynt að hafa gagn af stórum textabanka fornra rita og nýta tölvu við margvíslegan samanburð einstakra texta. Ber þar allt að sama brunni og í rannsóknum Hallbergs: skyldleiki Egils sögu og Heimskringlu virðist ótvíræður. Sömu niðurstöður koma einnig fram í bandarískri grein um tölvurannsókn á máli Egils sögu eftir Ralph West sem birtist 1980. Þar er þó talið að málið á síðustu köflum Egils sögu greinist nokkuð frá öðrum hlutum sögunnar; og kemur það heim og saman við niðurstöður Hallbergs sem bentu til nokkurs munar á orðfæri fyrri og seinni hluta Eglu.

Niðurstöður okkar eru þessar:

a) Ekki er hægt að sanna að Snorri sé höfundur Eglu með rökum sem mundu nægja til að sakfella afbrotamann. Það sama má þó segja um Snorra Eddu og Heimskringlu. Afkomendur fornra konunga og goða gætu ekki höfðað meiðyrðamál gegn afkomendum Snorra þótt lög heimiluðu málarekstur fyrir hönd forfeðranna.

b) Samkvæmt kórréttri nýfræðilegri afstöðu er út í hött að velta fyrir sér höfundum og aldri íslenskra lausamálsverka frá miðöldum og Snorri er ekki höfundur neinna verka, heldur eru margir höfundar þeirra verka sem honum hafa verið eignuð.

c) Miðað við fræðilega afstöðu okkar greinarhöfunda, sem hér hefur verið lýst, og skilning okkar á orðunum höfundur og verk, þegar fjallað er um miðaldabókmenntir, eru yfirgnæfandi líkur til að Snorri sé höfundur Egils sögu, en við getum ekki vitað nákvæmlega hvernig Egils saga var þegar Snorri skildi við hana, t.d. ekki hvort kvæði eignuð Agli voru þar birt í heilu lagi, þótt áreiðanlega hafi þau verið nefnd.

d) Það skiptir óneitanlega máli að vita eitthvað um hvers konar maður samdi verk eins og Egils sögu og hvenær það var gert, ef hægt er að komast að því. Ekki er þetta síst mikilvægt ef sami maður hefur samið fleiri verk. Fræðimenn verða hins vegar að setja sig inn í almenn vinnubrögð miðaldahöfunda ef þeir ætla að túlka verkin í ljósi æviferils höfundarins. Þar eru ekki beinar línur á milli. Og vitaskuld er mikilvægt að gefa góðan gaum að handritunum sjálfum og þeim textum sem þau geyma hvert um sig og allir hafa einhver sérkenni.

Ekki höfum við trú á því að Snorra hefði mislíkað það þótt honum væri eignuð Egils saga, enda var hann að vísu ekki eins skapbráður og Egill. Við höldum að Íslendingum sé það greiði fremur en ógreiði að birta þau frábæru verk, sem Snorra eru eignuð með bestum rökum, í einu fallegu safni þar sem íslenskir listamenn hafa fengið tækifæri til að sýna list sína í myndskreytingum.

Nokkrar heimildir:

Sigurður Nordal: "Inngangur." Egils saga Skalla-Grímssonar. Íslenzk fornrit II (Rvk. 1933).

Peter Hallberg: Snorri Sturluson och Egils saga Skallagrímssonar. Studia Islandica 20. Rvk. 1962.

Vésteinn Ólason: "Er Snorri höfundur Egils sögu?" Skírnir 1968.

Ralph West: "Snorri Sturluson and Egils saga. Statistics of Style." Scandinavian Studies 1980.

Örnólfur Thorsson: Hefð og nýmæli í Grettlu. Ópr. meistaraprófsritgerð í íslenskum bókmenntum við H.Í. 1993.

Þröstur Helgason: "Tilurð höfundarins. Efling sjálfsverunnar á átjándu og nítjándu öld í ljósi íslenskrar skáldskaparfræði." Skírnir 1995.

EFTIR VÉSTEIN ÓLASON OG ÖRNÓLF THORSSON

Vésteinn ritaði inngang að Ritsafni Snorra Sturlusonar og Örnólfur sat í ritstjórn útgáfunnar. Ritsafnið kom út hjá Máli og menningu á síðasta ári með styrk frá Alþingi.