"Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að staða móður á vinnumarkaði hefði á engan hátt áhrif á viðhorf barna til foreldra sinna."
"Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að staða móður á vinnumarkaði hefði á engan hátt áhrif á viðhorf barna til foreldra sinna."
Niðurstöður nýlegrar rannsóknar í Bandaríkjunum sýna að þátttaka kvenna í atvinnulífi hafi ekki bein neikvæð áhrif á samband foreldra við börnin en án efa hefur atvinnuþátttaka valdið konum meira samviskubiti en körlum í gegnum tíðina. Hér er fjallað um samspil atvinnuþátttöku foreldra og barnauppeldis.

ÞAÐ er án efa vandfundið það foreldri sem ekki hefur leitt hugann að því hvaða áhrif atvinnuþátttaka foreldra hefur á börnin. Margir hverjir eru jafnvel haldnir svo miklu samviskubiti út af fjarverunni frá börnunum að það hefur slæm áhrif, beint eða óbeint, á samskipti þeirra við þau. En er það í raun slæmt fyrir börn að foreldrar þeirra, feður og mæður, séu útivinnandi?

Áhrif atvinnuþátttöku foreldra

Það er í sjálfu sér ekki slæmt fyrir börn að foreldrar þeirra séu útivinnandi. Hvernig við vinnum hefur hins vegar áhrif á það hvernig við sinnum hlutverki okkar sem foreldrar. Í því sambandi ber fyrst að nefna vinnutíma. Gott samband á milli foreldra og barna myndast ekki án þess að foreldrar veiti börnum sínum tíma. Eftir því sem vinnutíminn er lengri hafa foreldrar takmarkaðri tíma til þess að sinna börnunum sem getur haft ýmsar - jafnvel alvarlegar - afleiðingar. Rannsóknir hafa t.d. sýnt fram á að viðvarandi yfirvinna foreldra hefur m.a. neikvæð áhrif á málþroska barna og að fylgni er á milli þess tíma sem börn eyða með fjölskyldu sinni utan skólatíma og minnkandi líkum á að þau hefji notkun tóbaks, áfengis og annarra fíkniefna.

Eðli starfa getur einnig haft neikvæð áhrif á fjölskyldulíf starfsmanna. Rannsókn á meðal foreldra í stjórnunar- og sérfræðingsstörfum leiddi í ljós að lengd vinnutíma viðkomandi foreldra hafði ekki áhrif á hegðun barnanna heldur skipti máli að hve miklu leyti álagið sem störfunum fylgdi hafði áhrif á fjölskyldulífið. Hegðunarvandamál voru t.d. algengari hjá börnum sem áttu foreldra sem tóku slíkt álag með sér inn á heimilið. Þessi niðurstaða þarf samt sem áður ekki að þýða að ekki skipti máli hversu langur vinnudagur viðkomandi foreldra er, því eins og áður sagði myndast gott samband á milli foreldra og barna því aðeins að foreldrar hafi tíma fyrir börnin sín.

Áhrif atvinnuþátttöku móður

Það er vert að skoða betur niðurstöðu rannsóknar þess efnis að þátttaka kvenna í atvinnulífi hafi ekki bein neikvæð áhrif á samband foreldra við börnin því án efa hefur atvinnuþátttaka valdið konum meira samviskubiti en körlum í gegnum tíðina. Eflaust hefur þar áhrif að lengstum hefur hin hefðbundna verkaskipting innan fjölskyldunnar verið sú að konur annist börn og sjái um uppeldi þeirra en karlar afli tekna til framfærslu heimilisins. Viðhorfið hefur gjarnan verið að eigi konur þess nokkurn kost skuli þær sinna umönnunarhlutverkinu. Þá gleymist að konur hafa, ekki síður en karlar, ánægju af því að vera virkir þátttakendur í atvinnulífinu.

Í rannsókninni Ask the Children sem gerð var af Families and Work Institute í Bandaríkjunum á árunum 1996-1998 var kannað hvort atvinnuþátttaka móður hefði áhrif á viðhorf barna til þess hvernig foreldrar sinntu hlutverki sínu. Skoðaðir voru átta þættir í tengslum við hlutverk foreldranna, m.a. ástúð og umhyggja, athygli, agi, þátttaka foreldranna í skólastarfi og heimanámi barnanna og hvort þeir væru til staðar fyrir börnin þegar um merkisatburði í lífi þeirra var að ræða og veikindi.

Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að staða móður á vinnumarkaði hefði á engan hátt áhrif á viðhorf barna til foreldra sinna. Ekki skipti máli hvort móðirin vann hluta úr degi eða allan daginn. Útivinnandi móðir er annaðhvort til staðar fyrir börnin sín eða ekki. Það sama gildir um heimavinnandi móður. Það er persónuleiki móðurinnar og þau tengsl sem hún myndar við börnin sín sem skiptir mestu máli.

Nefndir eru þættir á borð við viðhorf móður, gæði þeirrar umönnunar sem börnin njóta og væntingar foreldra til barna sinna sem áhrifaþættir á félagslega og andlega velferð barna fremur en sú staðreynd að móðir er heima- eða útivinnandi. Þannig eru börn sem eiga móður sem líður vel í hlutverki sínu, hvort sem hún er heimavinnandi eða á vinnumarkaðinum, njóta góðrar umönnunar móður eða þess aðila sem annast barnið í fjarveru hennar og eiga foreldra sem hafa heldur meiri en minni væntingar til barnanna líklegri til að dafna vel.

Gæði vs. magn samverustunda

Foreldrar sem hafa haft takmarkaðan tíma til þess að sinna börnunum sínum kannast eflaust margir við að hafa talið sér trú um að það séu gæði samverustundanna sem skipti mestu máli en ekki fjöldi þeirra. Niðurstaða bandarísku rannsóknarinnar sýnir fram á að svo er ekki. Bæði gæði og magn samverustunda foreldra með börnum sínum skipta máli.

Þrátt fyrir það óskuðu foreldrarnir sem tóku þátt í rannsókninni sér frekar fleiri samverustunda með börnum sínum en innihaldsríkari stunda. Þeir voru spurðir hvers þeir myndu óska sér helst ef þeir gætu haft áhrif á þá þætti sem tengjast vinnu þeirra og hafa áhrif á börnin. Rúmlega helmingur útivinnandi foreldra með börn á aldrinum 8-18 ára sagðist hafa of lítinn tíma með börnunum sínum og óskaði sér þess vegna meiri tíma með þeim - feður í meira mæli en mæður. Rannsóknin leiddi hins vegar í ljós að meirihluta barna á aldrinum 8-18 ára sem eiga útivinnandi foreldra finnst þau hafa nægan tíma með foreldrum sínum. Einungis þriðjungur barnanna sagði samverustundir sínar með foreldrunum of fáar. Börnin upplifðu frekar að þau hefðu of lítinn tíma með föður sínum en móður - börn á aldrinum 13-18 ára í meira mæli en börn á aldrinum 8-12 ára.

Rúmlega helmingur útivinnandi foreldra átti von á að börn þeirra myndu helst kjósa meiri tíma með þeim ef þau mættu óska sér einhvers sem tengdist vinnu foreldranna og hefði áhrif á líf þeirra. En raunin varð önnur. Æðsta ósk barnanna reyndist vera sú að foreldrar þeirra fengju hærri laun. Börnin sögðust jafnframt vilja að foreldrar þeirra væru almennt ekki eins þreyttir vegna vinnunnar og að þeir væru undir minna álagi. Þreyta og álag voru hins vegar þættir sem foreldrarnir sjálfir gátu sér í hverfandi mæli til um að börnin myndu nefna. Dregin er sú ályktun að börnin setji hærri laun til handa foreldrunum í fyrsta sæti af því að þau líti svo á að auknar tekjur myndu létta foreldrum þeirra lífið.

Því er eins farið með umönnun og uppeldi barna eins og svo margt annað í lífinu, s.s. hjónabandið og vináttuna, að við uppskerum eins og við sáum. Hvort sem foreldrar hafa mikinn eða lítinn tíma til þess að sinna börnunum sínum skiptir öllu máli að þeir séu til staðar bæði af líkama og sál á þeim stundum sem ætlaðar eru börnunum. Því ekkert barn á skilið að foreldrar þess sinni því af hálfum huga.

Hið gullna jafnvægi vinnu og fjölskylduábyrgðar

Þegar álag sem fylgir starfi er farið að hafa neikvæð áhrif á fjölskyldulífið virðist í fyrstu einfalt að samræma betur vinnu og fjölskylduábyrgð með því að stytta vinnudaginn og skapa þannig aukið svigrúm fyrir fjölskylduna. Að því gefnu að við höfum efni á því - hvernig eigum við að láta verða af því? Er hugsanlegt að sú ákvörðun komi niður á starfsferlinum í ljósi þess að í samfélaginu hefur langur vinnudagur löngum verið dyggð? Það virðist einfaldlega siðferðilega rangt að segja "ég kæri mig ekki um of langan vinnudag".

Starfsumhverfi fyrirtækis ræður því á endanum, að nokkru leyti, hvaða ákvarðanir starfsmaður tekur varðandi vinnu og fjölskylduábyrgð. Á vinnustað þar sem tekist hefur að skapa starfsmönnum gott starfsumhverfi líður starfsmanni vel með að bera upp ósk sína um sveigjanleika í lengd eða tilhögun vinnutíma. Þá er átt við starfsumhverfi sem sýnir starfsfólki stuðning, virðingu, sanngirni og viðurkenningu á þörfum þess í einkalífi.

Á slíkum vinnustað kemur vinnuveitandi til móts við þarfir starfsmanna og aðstæður t.d. með því að gera þeim kleift að draga úr starfshlutfallinu, minnka yfirvinnu, stytta vinnuvikuna, leyfa starfsfólki, innan ákveðinna marka, að ákveða hvenær dagsins það hefur störf og lýkur störfum eða með því að veita starfsfólki leyfi t.d. þegar um páska-, jóla- og sumarleyfi er að ræða í grunnskóla barnanna. Betri skipulagning og skipting verkefna svo og möguleikinn á að vinna heima fyrir eru ennfremur kostir sem oft eru skoðaðir í þessu sambandi. Möguleikarnir eru margir og henta misvel mismunandi fyrirtækjum, starfsemi, einstaklingum sem og skipulagningu vinnunnar.

Jafnvægi vinnu og fjölskylduábyrgðar getur orðið að veruleika hjá starfsfólki sem hefur tekið meðvitaða ákvörðun um betra samræmi á milli þessara tveggja þátta og sem jafnframt býr við gott starfsumhverfi. Skorti viljann til verksins og stuðning af hálfu vinnuveitanda verður árangurinn minni. Með góðum árangri er vandamálið þó ekki úr sögunni. Við munum ávallt standa frammi fyrir því að á ákveðnum tíma getur starfið haft forgang fram yfir fjölskyldulífið og öfugt. Markmiðið er að lágmarka ójafnvægi og togstreitu.

EFTIR LINDU RUT BENEDIKTSDÓTTUR

Höfundur er rekstrarfræðingur að mennt og starfar að starfsmannamálum hjá IMG auk þess að ritstýra vefsvæðinu hgj.is.