FYRIR mörgum árum tilheyrði það hinni íslensku pólitík að þjarka um hersetuna og NATO. Farið var í kröfugöngur og hrópað: "Ísland úr NATO, herinn burt!" og þjarkað var um þessi mál enn meira, þegar kosningar voru í nánd.

FYRIR mörgum árum tilheyrði það hinni íslensku pólitík að þjarka um hersetuna og NATO. Farið var í kröfugöngur og hrópað: "Ísland úr NATO, herinn burt!" og þjarkað var um þessi mál enn meira, þegar kosningar voru í nánd. Þeir sem hrópuðu slagorðin um árið er nú löngu þagnaðir, en hinir ganga bara enn lengra og bjóða NATO til þjónustu íslenska flugflotann, ef á þarf að halda.

Vonandi fer ekki eins fyrir íslenskum umhverfisverndarsinnum, sem nú safnast saman og hrópa slagorð með landinu, en á móti eyðileggingu. Að vísu virðist orustan um Kárahnjúkavirkjun töpuð. En raddir umhverfisverndarsinna mega aldrei þagna, því í framtíðinni verður að passa upp á að misvitrir ráðamenn þjóðarinnar gjöreyðileggi ekki landið. En kannski skilja þeir að ósnortið landið gefur líka tekjur í þjóðarbúið.

Ferðamennskan vex til Íslands, og hef ég sjálfur tekið þátt í þeirri aukningu, og komið með 3 finnska ferðahópa, (samtals 72 manns), á 5 árum og höfum við ferðast vítt og breitt um landið í þessum ferðum.

En þó mönnum sé heitt í hamsi um þessar mundir út af Kárahnjúkavirkjun, er margt gott í íslenskum umhverfismálum sem ekki má gleyma, svo sem umhverfisvæn orkuframleiðsla. Til samanburðar má geta þess að í Finnlandi og Svíþjóð hafa verið reist mörg kjarnorkuver til að sinna orkuframleiðslunni. Jákvæða hliðin á Kárahnjúkavirkjun og álverinu fyrir austan er sú að atvinna skapast fyrir fjölmarga, t.d. Austfirðinga. Atvinnuöryggi er auðvitað öllum mikilvægt, sem ekki er sjálfgefið mál. Hér í Suður-Finnlandi á ég persónulega því láni að fagna að vera fastráðinn myndlistarkennari í pappírsiðnaðarborginni Kuusankoski. Það er ekki sjálfgefið mál, því þó lífskjörin hér séu mjög góð, er enn 8% atvinnuleysi. Atvinnuöryggi er ekki heldur sjálfgefið mál á Íslandi nú á dögum, og hlúa þarf að öllum vaxtarbroddum í þeim efnum.

Elísabet Jökulsdóttir sendi út bréf í allar áttir út af Kárahnjúkavirkjun, og lét tifinningaþrungin orð falla, og sakaði Ingibjörgu Sólrúnu um að hafa svikið málstaðinn. Ekki er málið svo einfalt, því Reykjavíkurborg er einn eigandi Landsvirkjunar, og það hefði verið óeðlilegt, ef Ingibjörg sem borgarstjóri hefði neitað að veita ábyrgð á láni sem Landsvirkjun ákvað að taka erlendis vegna virkjunarinnar. En ákvarðanatakan í þessu máli er fyrst og fremst ríkisstjórnarinnar og alþingis, enda ekki borgarmál, heldur landsmál. Ég treysti Ingibjörgu Sólrúnu og styð hana í forsætisráðherraembættið, og það gerir einnig 50% íslensku þjóðarinnar, samkvæmt nýlegri skoðanakönnun.

BJÖRGVIN BJÖRGVINSSON,

myndlistarkennari,

Suður-Finnlandi.

Frá Björgvini Björgvinssyni