ORKUMÁLASTJÓRI kveður uppúr með það á dögunum, að Íslendingum beri siðferðisleg skylda til að virkja vatnsföllin íslensku, mannkyninu til góða. Vart fer á milli mála að allur orkuforði landsins er vart mælanlegt brotabrot af allri orkuþörf heimsins.

ORKUMÁLASTJÓRI kveður uppúr með það á dögunum, að Íslendingum beri siðferðisleg skylda til að virkja vatnsföllin íslensku, mannkyninu til góða. Vart fer á milli mála að allur orkuforði landsins er vart mælanlegt brotabrot af allri orkuþörf heimsins. Hníga því ekki fremur rök að því að vér Íslendingar eigum þær skyldur að varðveita óspillta náttúruna en að virkja fyrir alþjóðlegt fjármagn og stóriðju?

David Attenborough hafði á orði í spjallþætti í sjónvarpi um daginn að stærsta áhyggjuefni sitt eftir hálfrar aldar starf væri að stöðugt þrengdist meir og meir um villta náttúru á jörðinni. Vér Íslendingar höfum stórfenglegt góss að verja berum við gæfu til.

Gera má því skóna að skyldur sitjandi orkumálastjóra og fyrirrennara hans í starfi fælust að hluta til í því að upplýsa okkur hin hvernig til að mynda olíuvinnsluþjóðum heims gengur að nýta afgangsgas, sem stígur hindrunarlítið upp af olíulindum til rafmagnsframleiðslu. Það sæmir vart að kvarta í einu orði yfir tilfinningarökum og ónógum rökum en höfða sjálfir í sínum málflutningi til hæpinnar meðalgreindar hjarðsálarinnar, sem Freud rekur. Virkjunarsinnar, sem þjóna undir gamla skólabræður og ganga fram með mesta offorsi á hálendi Íslands geta trútt um talað þegar þeir mæla saman eigin hag og hag heimsins.

Hvernig fara annars þessir reikningshausar stóriðjugróðans að reikna út kálf í kúna fyrst ágóðinn veltur nokkurn veginn allur á fyrirgreiðslu við álframleiðandann? Stærsta einstök framkvæmd Íslandssögunnar er á döfinni. Landinn ætlar að hirða uppgripin, ágóðann af magnsölu, útsölurafmagni, útflutningstolla og aðstöðugjöld. Og ríði allt á slig, vextir af lánunum fari hærra en gróðinn af mældri rafmagnseiningu o.fl., ríkir áfram hollusta þessara manna. Hollustan við land og þjóð, en þjóð á víst ekki upp á pallborðið í tíðarandanum, er í mesta lagi velgjuleg, útbelgd af hálfsannleika og blekkingum. Gerð þeirra kippir í kynið við togstreitu hrásútaðs sjálfs og gillisjálfs unglingsskepnunnar Narsissusar, og í sálarhrói þessara manna allt hverfist um, sama á hverju gengur.

JÓN BERGSTEINSSON,

Snorrabraut 30, 105 Reykjavík.

Frá Jóni Bergsteinssyni verkamanni