Davíð Oddsson ásamt fulltrúum Fróða, þeim Magnúsi Hreggviðssyni stjórnarformanni og Jóni Karlssyni, framkvæmdastjóra upplýsingasviðs.
Davíð Oddsson ásamt fulltrúum Fróða, þeim Magnúsi Hreggviðssyni stjórnarformanni og Jóni Karlssyni, framkvæmdastjóra upplýsingasviðs.
DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra opnaði í gær vefinn finna.is, gagnaveitu Íslenskra fyrirtækja í eigu Fróða hf. Um er að ræða öfluga leitarvél á Netinu og veflausnir sem þjóna íslensku atvinnulífi.

DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra opnaði í gær vefinn finna.is, gagnaveitu Íslenskra fyrirtækja í eigu Fróða hf. Um er að ræða öfluga leitarvél á Netinu og veflausnir sem þjóna íslensku atvinnulífi. Fróði hefur um áratuga skeið gefið árlega út handbókina Íslensk fyrirtæki en að sögn Magnúsar Hreggviðssonar stjórnarformanns Fróða var handbókin ein og sér farin að renna sitt skeið á enda. Var því fyrir þremur árum farið út í viðamikið þróunarstarf til að nýta möguleika Netsins til að svara þörf fyrir hraðari endurnýjun upplýsinga um íslensk fyrirtæki.

Hlutverk gagnaveitunnar er að opna fyrirtækjum greiða leið að samskiptum við sívaxandi hóp viðskiptamanna á Netinu, veita almenningi traustar upplýsingar um fyrirtæki og stofnanir í landinu, vöru þeirra og þjónustu.

Finna.is leitar á öllu Netinu og birtir tæknilega réttar niðurstöður á mjög skömmum tíma og býður einnig upp á fjölda leitarskilgreininga til að þétta niðurstöður og gera þær markvissari, auk fjölmargra sérleita að sögn aðstandenda finna.is.

Jón Karlsson, framkvæmdastjóri upplýsingasviðs Fróða, segir að finna.is sé fyrir allan almenning og jafnframt séu þar sértækar upplýsingar fyrir fyritæki. "Við teljum okkur vera með ítarlegustu upplýsingar sem nokkur aðili er með um fyrirtæki, vörur þeirra og þjónustu," segir hann. "Við erum með gríðarlega stóra leit á veraldarvefnum, þar sem leitað er í þremur billjónum léna og ennfremur er mjög stór leit á íslenskum lénum. En fyrst og fremst koma mjög vandaðar niðurstöður út úr leitunum, það er ekki fjöldinn sem skiptir máli heldur gæði niðurstaðanna. Sérstaða okkar felst í því að þeir aðilar sem við þjónustum eru með miklu hærra upplýsingastig en þeir gætu við nokkrar aðrar kringumstæður verið í leitarvél, vegna þess að vélin leitar í öllum gögnum viðkomandi fyrirtækis."