"Uppskriftin að eymdinni er að vera á móti framförum."

ALRÆÐI öreiganna er gamalt kommaslagorð. Alræðið - allir ráða - reyndist uppskriftin að eymdinni. Þetta sést nú í Albaníu og Norður-Kóreu. Rússar snéru blaðinu við og einkavæða mun hraðar en við. Af hverju hatast sumt fólk hérlendis við einkarekstur á sama tíma?

Nefna má t.d. skaðlegan áróður gegn Íslenskri erfðagreiningu, (ÍE). Áframhaldandi rógburður gæti hugsanlega komið ÍE á kaldan klaka! Þá félli ríkisábyrgðin á ríkissjóð og fátækt myndi aukast. Yndisleg tilhlökkun - séð með augum neikvæðra. Neikvæðir virðast á móti framförum; - niður með ÍE, ekki selja ríkisbanka, ekki virkja, ekki álver. Þegar ÍE gefur þjóðinni aðgang að ættfræðigrunni, er skráning á gömlum manntölum og kirkjubókum "að stela vinnu annarra"? Svona þakka neikvæðir fyrir sig.

Hvers vegna pirra framfarir suma? Er það vegna þess að með framförum minnki líkur á fátækt? Halda neikvæðir að enn sé hægt sé að plata fólk með "alræði öreiganna" og komast til meiri áhrifa í pólitík með gömlu lummurnar; neikvæðni, öfund, falska "umhverfisvernd" og endurteknar tilraunir til að gera eigendur einkafyrirtækja tortryggilega?

Af hverju er Landsvirkjun ekki einkafyrirtæki? Er það ekki vegna þess að sams konar neikvætt lið þvældist fyrir Einari Ben fyrir 70 - 90 árum? Áróður neikvæðra skilaði "árangri" þá. Það var ekki virkjað! Neikvæðum tókst - með ógeðslegu einelti, að eyðileggja flest áform Einars Ben, - brjóta hann að einhverju leyti niður andlega og gera úr honum ótrúverðuga fyllibyttu. Auðvitað þolir enginn maður svona einelti. Var það ekki "frábær árangur" að gera þessum mesta frumkvöðli Íslands fyrr og síðar allt til bölvunar? Eru neikvæðir í dag ekki að rifna út monti - af "kollegum" sínum í den? Tjónið varð áratuga langvarandi fátækt og atvinnuleysi!

Loks þegar það mátti virkja hérlendis, áratugum eftir að Einar Ben. var tilbúinn með þetta allt, var virkjað á "félagslegum grundvelli" - eignaraðild ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar. Þannig varð svo stofnuð Landsvirkjun - opinbert fyrirtæki. Byggðar voru virkjanir, þær sem Einar Ben var búinn að láta teikna í smáatriðum áratugum fyrr, sumar ekki byggðar enn! Einar var líka búinn að finna fjárfesta sem vildu byggja iðjuver og kaupa orkuna og láta hanna járnbraut um Suðurland, vegna áformaðra framkvæmda! Hefði verið jákvætt tekið á hugmyndum Einars Ben. ættu Íslendingar að öllum líkindum alþjóðlegt risafyrirtæki - hugsanlega stærra en Norsk Hydro sem var þá stofnað á svipuðum forsendum - að hluta til af samstarfsmönnum Einars Ben.

Einn af fremstu sérfræðingum "umhverfisvina" í dag, Hjörleifur Guttormsson (HG) lét svo virkja Blöndu þegar hann var iðnaðarráðherra. Uppistöðulón Blöndu er næstum eins stórt og Hálslón, en gefur bara brot af orku Kárahnjúkavirkjunar. Blanda var virkjuð án þess að búið væri að selja rafmagn í einn náttlampa!! Ekkert rafmagn var svo selt frá Blöndu árum saman - en fjármagnskostnaður vegna lántöku fyrir milljarða var sendur landsmönnum í hækkuðu raforkuverði! Það er miður að þurfa að rifja upp þessa hörmungarsögu um ágætan mann og HG sem er frábær náttúrufræðingur en mistókst hrapallega þessi pólitíski bissness. Sannar það bara að slíkur rekstur er best kominn hjá einkaaðilum.

Uppskriftin að eymdinni er að vera á móti framförum, vera neikvæður, ríghalda í gamaldags ríkisrekstur og innræta sem mest hatur og tortryggni út í einkafyrirtæki og eigendur þeirra.

Eftir Kristin Pétursson

Höfundur er fiskverkandi á Bakkafirði.