"Með því að horfast í augu við skuggahliðar okkar og veita þjáningunni allt í kring um okkur athygli erum við að leggja okkar af mörkum við að bæta heiminn sem við búum í."

RÉTT áður en árið bjó sig undir að renna saman við öll hin árin sem eru liðin, þá fæddist lítill drengur í fjölskyldunni minni svo árið fékk nýjan tilgang og fastan stað í tilverunni. Hann er eins og öll lítil börn, dálítið lengi að venjast þessum jarðneska heimi, þar sem maður sefur og vaknar og þarf að minna á sig til að fá næringu og hlýjan faðm. Og hann hefur þau áhrif á mig að þegar ég hef haldið á honum dágóða stund verð ég dálítið viðkvæm og auðsæranleg - tilbúnari að finna til - bæði gleði og sársauka. Eins og hann minni mig á hvað við erum öll meir og mjúk innst inni. Hann er búin að sýna mér heilmargt þó hann eigi ekki langt líf að baki.

Samheimur foreldra

Og það rifjast upp fyrir mér að þegar stelpan mín fæddist fyrir 11 árum þá opnaðist fyrir mér nýr heimur sem ég þekkti ekki áður. Allt í einu skyldi ég hvernig foreldrum líður og hvernig þeir geta aldrei hætt að elska barnið sitt og ég fór að finna til með öllum foreldrum sem þurfa að horfa á börnin sín þjást. Þannig á ég alltaf dálítið erfitt með fréttir frá Palestínu af foreldrum sem syrgja börnin sín sem voru skotin bara fyrir það eitt að vera ekki réttum megin við strikið. Og alls staðar að í heiminum eru að berast slíkar sorgarfréttir.

Eins gott að það er ekki ég

Ég las viðtal við mann sem sagði frá því að eina nóttina vaknaði hann við að kona hrópaði á hjálp fyrir utan hjá honum. Hann bjó í dálítið skuggalegu úthverfi og það var greinilegt að konan var í hættu stödd. Hann fór út ásamt mörgum öðrum í nágrenninu og hjálpaði konunni. En hann viðurkenndi að fyrstu viðbrögðin hefðu verið óbeit á þessari konu. Hann átti erfitt með að finna til samkenndar með henni. Það var of ógnvekjandi tilhugsun að setja sig í hennar spor - finna varnarleysi hennar og ótta. Og hann hugsaði; "Eins gott að þetta er hún en ekki ég." Hann sagðist þá hafa farið að hugsa um alla sem væru eins og hann. Langaði til að hjálpa en gætu það ekki. Og sá í því verðugt verkefni að takast á við þennan ótta sem aðskilur okkur. Þetta kallar maður að vera hreinskilinn við sjálfan sig.

Brynjan og skilningsleysið

Í búddisma eru kenndar aðferðir til að opna fyrir samkennd og kærleika. Ein af þessum aðferðum er kölluð tonglen og byggist á því að tengja sig við alla sem þjást á sama hátt og við og fólkið í kring um okkur og gefa þannig þjáningunni þann tilgang að tengja saman allt mannkynið. Við gætum öll lært af þessum aðferðum að leyfa þjáningunni að snerta okkur í stað þess að brynja okkur upp. Því um leið og við setjum upp brynjuna erum við að taka þátt í því að búa til veggi, ala á reiði, hatri og skilningsleysi, herða okkur upp gagnvart okkar eigin viðkvæmni og gagnvart andartakinu sem er að líða. Með því að horfast í augu við skuggahliðar okkar og veita þjáningunni allt í kring um okkur athygli erum við að leggja okkar af mörkum við að bæta heiminn sem við búum í.

Heilsuspillandi að hætta að hlæja

Það eru til ýmsar leiðir til að nálgast þannig kærleiksvitundina í okkur, öðlast betri skilning á okkur sjálfum og hvað það er sem við erum komin til að leggja af mörkum. Hvernig við getum sem best blómstrað og þannig líka hjálpað okkar nánustu og öðrum í kring um okkur að gera sitt besta og vera stöðugt að bæta sig. Ég trúi þvi að þetta geti verið bæði skemmtilegt og áhugavert verkefni að takast á við. Alls ekki mjög alvarlegt verkefni og jafnvel dálítið spaugilegt. Þegar við gleymum að hlæja þá förum við að hugsa of mikið - og það getur verið mjög heilsuspillandi að týna sér í huganum.

Skammdegið og skuggahliðarnar

Veturinn reynist mörgum dálítið erfiður og jólin sem eiga að vera hátíð gleðinnar geta orðið tími einmanaleika og kvíða fyrir marga. Skammdegið á það til að draga fram okkar dekkstu hliðar og þá getum við þurft að taka á öllu sem við eigum til að rífa okkur upp úr gömlu fari og halda samt áfram ótrauð. Á slíkum stundum er gott að vera búin að rækta geð sitt og safna í sarpinn leiðum til að hífa sig upp úr sorgarmýrinni. Þegar allt annað þrýtur getur líka komið sér vel að rifja upp hvernig það var að vera lítið og hjálparvana kríli og geta beðið um hjálp.

Sjálfsrækt með gleðibragði

Mér hefur fundist það mjög mikilvægt í þessu síhugsandi þjóðfélagi að koma með mótvægi sem byggir á leik, hlátri og ríkri áherslu á líkamann og líkamsvitundina. Þá er auðveldara að tæma hugann á eftir, finna kyrrð og skoða síðan hvernig má taka til og endurraða lífsmynstrinu. Líföndun, jóga, hugleiðsla, dans og hæfilegt magn af fræðslu hefur reynst mér vel sem blanda í þennan rétt - sjálfsrækt með gleðibragði. Á eftir vetrinum kemur alltaf vor og sá sem þekkir sorgina kann að meta gleðina. Þegar ég horfi á litla frænda minn þá efast ég ekki um að lífsgleði er okkur meðfædd. Og líka opið og treystandi hjarta. Flest annað hlýtur því að teljast farangur sem hægt er að létta og endurskipuleggja.

Eftir Guðrúnu Arnalds

Höfundur er hómópati, nuddari og leiðbeinandi í líföndun.