Þegar Ingibjörg Sólrún, fráfarandi borgarstjóri, hafði lokið máli sínu steig "borgarstjóri" aftur á svið. Svo virtist sem hún hefði gleymt því að hún ætti nokkur orð eftir ósögð.
Þegar Ingibjörg Sólrún, fráfarandi borgarstjóri, hafði lokið máli sínu steig "borgarstjóri" aftur á svið. Svo virtist sem hún hefði gleymt því að hún ætti nokkur orð eftir ósögð.
INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir, fráfarandi borgarstjóri, kvaddi starfsmenn borgarinnar á fjölmennum morgunverðarfundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í gærmorgun.

INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir, fráfarandi borgarstjóri, kvaddi starfsmenn borgarinnar á fjölmennum morgunverðarfundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í gærmorgun. Í ræðu sem hún flutti af því tilefni notaði hún tækifærið og leit um öxl og fjallaði um stöðu og framtíð borgarinnar.

"Ég átti allt eins von á því að gera hérna stuttan stans en nú eru árin sem sagt orðin nærri níu," sagði Ingibjörg Sólrún. Hún sagðist líta á það sem forréttindi að hafa fengið að gegna starfi borgarstjóra allan þann tíma. Þótt brotthvarf sitt úr stóli borgarstjóra hefði borið brátt hlyti að hafa koma að því fyrr eða síðar.

Skynjar viðbrigðin eftir helgi

Ingibjörg Sólrún sagðist í samtali við Morgunblaðið hafa blendnar tilfinningar gagnvart því að hverfa úr starfi borgarstjóra.

"Það er auðvitað eftirsjá í starfinu og þessu góða fólki sem ég hef verið að vinna með. Ég á orðið mikið af vinum í hópi borgarstarfsmanna. Það hefur verið gaman að vinna í þeim hópi og nú er ég að hverfa úr honum. En um leið er það ákveðin ögrun að takast á við ný verkefni."

Hún sagðist hafa haft það mikið að gera að undanförnu að hún hefði ekki haft tíma til að hugsa út í breytingarnar sem fram undan væru hjá sér. Eftir helgina myndi hún sjálfsagt skynja viðbrigðin þegar hennar biði ekki lengur skipulögð dagskrá frá morgni til kvölds.

"Það er auðvitað margt sem ég þarf að fara í gegnum sem tengist landsmálunum og mörg mál sem ég ætla að kafa ofan í áður en ég fer á fulla ferð og fólk sem ég vil tala við áður og læra af," segir Ingibjörg.