"En það er heldur langt seilst í pólitískum ákafa að draga BSP inn í samsæriskenningar sem enga stoð eiga í raunveruleikanum."

SUNNUDAGINN 26. janúar sl. rættist langþráður draumur þjóðarinnar þegar Barnaspítali Hringsins var formlega vígður. Minnist ég þess ekki að hafa fundið fyrir jafn fölskvalausri gleði og almennum stuðningi við nokkurt verk eins og finna mátti meðal þeirra þúsunda er lögðu leið sína í spítalann þennan dag. Enda full ástæða til að gleðjast. Um er að ræða eitt af þessum verkum sem virðast hafin yfir alla flokkadrætti. Það viðhorf hefur ávallt einkennt alla undirbúningsvinnu og skipta þeir hundruðum sem að hafa komið. Hver hefur gert sitt besta og enginn þar yfir annan hafinn enda viðfangsefnið ríkulegt. Þes vegna varð ég hlessa er ég las einkennilega kveðju á heimasíðu þingflokksformanns Vinstri grænna. Boðskapurinn þar er í stuttu máli sá að vígsla BSP hafi verið kosningabragð Framsóknarflokksins! Heyr á endemi. Skilji enginn orð mín svo að ég skammist mín fyrir það að einhverjir Framsóknarmenn skuli hafa komið að málinu. En framsetning Ögmundar er skammarleg gagnvart öllu því frábæra fólki sem lagt hefur á sig mikla vinnu á síðustu misserum til að láta drauminn rætast. Þar hafa menn einungis hugsað um þetta eina markmið: Að búa veikum börnum sem best skilyrði. Framsetning Ögmundar gagnvart þessu fólki er honum til minnkunar. Þó Ögmundur sé ágætlega lífsglaður maður dagfarslega þá er ég að verða þeirrar skoðunar að í pólitík kunni hann einfaldlega ekki að vera glaður. Þó ólíklegt sé að þjóni miklum tilgangi þá skal ég samt gera Ögmundi grein fyrir því af hverju BSP var vígður þennan dag og með þeim hætti sem raun ber vitni en fer svo fyrir brjóstið á þingflokksformanninum.

Afmælisgjöf til Hringsins

Fyrsta atriðið snertir blaðamannafund tveimur dögum fyrir vígsluathöfn. Paul Newman Foundation sýndi þann höfðingsskap að færa BSP tæki fyrir milljónir króna. Rétt eins og svo margir hafa gert og munu örugglega gera áfram af því allir vilja leggja sitt að mörkum. Forsvarsmenn BSP og gefenda en ekki Framsóknarflokkurinn boðuðu eðlilega til blaðamannafundar vegna þessa. Ögmundi þykir greinilega óeðlilegt að formanni bygginganefndar hafi einnig verið boðið. Verður svo að vera.

Annað atriðið snertir áhuga fjölmiðla á að fá að kynna sér bygginguna fyrir vígslu til að geta fjallað um málið á sem bestan hátt. Upplýsingafulltrúi BSP en ekki Framsóknarflokksins lagði til að við því yrði orðið og fannst upplagt að tengja það fyrrgreindri afhendingu gjafarinnar. Lái honum hver sem vill að hafa beðið formann bygginganefndar að koma á staðinn. Svo vildi til að við Ásgeir Haraldsson, læknir af deildinni og í bygginganefnd, vorum að velta fyrir okkur hönnun á þeim lykli sem afhentur yrði formlega. Í gleði sinni vegna vígslunnar brá hjúkrunarfólkið á leik. Augnablik gleðinnar gripu fjölmiðlungar með mynd. Það virðist hafa skapað kólguský í vitund Ögmundar.

Þriðja atriðið snýr að dagsetningunni. Hún var ekki sköpuð hjá Framsóknarflokknum. Bygginganefnd hefði viljað ljúka verki fyrr en af ýmsum ástæðum óviðráðanlegum náðist það ekki fyrir áramót (verkið tók samt aðeins 33 mánuði). Öllum aðilum var það hins vegar kappsmál að vígja BSP 26. janúar. Aðdáunarvert er hvað verktakar og starfsmenn þeirra lögðu hart að sér til að ná þeirri dagsetningu. Hvers vegna? Þann dag átti Kvenfélagið Hringurinn 99 ára afmæli! Mér finnst Ögmundur skulda Hringskonum afsökunarbeiðni fyrir að gera önuga tilraun til að ræna þær þessum mikilvæga degi. Og viti hann það ekki þá skal hann upplýstur um að án Hringsins væri BSP ekki orðinn að veruleika.

Þau þrjú atriði, er hér hafa verið nefnd, virðast hafa orðið tilefni Ögmundar til að senda hinar ósmekklegu kveðjur á heimasíðu sinni. Hann má hvenær sem er agnúast út í mig og flokksfélaga mína. En það er heldur langt seilst í pólitískum ákafa að draga BSP inn í samsæriskenningar sem enga stoð eiga í raunveruleikanum. Honum mun hins vegar ekki takast að svipta þá er vilja BSP allt hið besta gleði yfir þessum skemmtilega áfanga. Bið ég hann vinsamlegast að beina spjótum sínum að öllum öðrum verkum.

Læt ég svo lokið umfjöllun um BSP en nýt með öðrum gleðinnar yfir verkinu. Vona að Ögmundur geti fundið þá gleði með öðrum.

Eftir Hjálmar Árnason

Höfundur er alþingismaður og formaður bygginganefndar BSP.

Höf.: Hjálmar Árnason