"Árangur ríkisstjórnar er best mælanlegur í fækkun íbúa á Vestfjörðum, íbúafjöldinn er nú kominn niður fyrir 8.000 manns."

FYRIR örskömmu rifjaði ég upp í lítilli grein (A4 ¾ síða 12 punktar) sem var birt í Morgunblaðinu loforð og efndir sjálfstæðismanna á undanförnum kjörtímabilum varðandi vegagerð á Vestfjörðum.

Flest það sem vel hefur verið gert var tíundað og því hrósað. En einnig var getið um að lofað hefði verið og sett fram á fundi með Vestfirðingum að lokið skyldi við klæðningu Djúpvegar fyrir árið 2000 (H. Bl. á fundi), einnig voru nefnd gefin fyrirheit fyrir þrennar síðustu þingkosningar um þessi mál. Orð mín beindust (orðaflaumur skv. svargrein Einars 28 jan. sl.) fyrst og fremst að því að nauðsyn væri að leggja aukið fjármagn til vegagerðar á næstu þremur árum eins og millifyrirsögn bar með sér til að vega á móti því mikla álagi sem verður á atvinnulífið vegna framkvæmda á Austurlandi að þeim tíma liðnum 2005-2008.

Einnig benti ég á þá staðreynd að í samanburði væri hlutur Norðausturkjördæmis blómlegri en Norðvesturkjördæmis og bar saman hlut stjórnarliða.

Gefum þeim hvíld!

Ég skil það sem svo að undan ábendingum um óframkvæmd loforð hafi Einari Kristni Guðfinnsyni sviðið, öðrum tittlingaskít Einars læt ég ósvarað en ítreka að það er nauðsyn að setja núverandi stjórn af, þeir sem hana styðja sem þingmenn þurfa einnig á hvíld að halda.

Ef á heildina er litið þá er árangur ríkisstjórnar best mælanlegur í fækkun íbúa á Vestfjörðum, íbúafjöldinn er nú kominn niður fyrir 8.000 manns. Hvers vegna? Er það vegna byggðaaðgerða núverandi ríkisstjórnar? Er það vegna samgangna? Er það vegna framkvæmdar fiskveiðistjórnunar? Telja menn þetta ef til vill eðlilega þróun að fólk hrekist frá verðlitlum eignum, frá heimabyggð, frá gjöfulum fiskimiðum og samhygð sjávarþorpanna?

Í þessum spurningum felst ádeila og gagnrýni á kerfið sem margir bera ábyrgð á. En ég gagnrýni hiklaust ríkisstjórn og stjórnarliða með eftirfarandi orðum þó menn hríni undan því.

Menn eru orðnir makráðugir og sjást ekki fyrir í sérhagsmunagæslunni (úthlutun viðbótaraflaheimilda svo eitthvað sé nefnt). Þess vegna hvet ég kjósendur hvar í flokki sem þeir standa til að setja af núverandi ríkisstjórn.

Eftir Gísla S. Einarsson

Höfundur er alþingismaður og frambjóðandi Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi.