BREIÐHYLTINGAR eru allt að því búnir að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni með 90:89 sigri á Breiðabliki í æsispennandi leik í úrvalsdeild í körfuknattleik í Breiðholtinu í gærkvöldi. Blikar unnu upp rúmlega tuttugu stiga forskot ÍR en misskilningur á síðustu sekúndu gerði vonir þeirra um að jafna að engu. Í Borgarnesi stóð Skallagrímur lengi í Keflvíkingum en varð að sætta sig við tap, 93:88. Haukar gerðu góða ferð til Hveragerðis, unnu Hamar 98:92.

Gestirnir úr Kópavogi voru varla með á nótunum í fyrri hálfleik. ÍR-ingar aftur á móti spiluðu sem ein heild með öfluga svæðisvörn og náðu að halda Kenneth Tate í skefjum lengi vel svo það kom í hlut Ísaks Einarssonar að halda Blikum inni í leiknum. Í öðrum leikhluta fór góður leikur ÍR loks að skila sér á stigatöflunni og þeir slökuðu ekki á fyrr en nokkrar mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta með 23 stiga forskot, 65:42. Þá var Blikum nóg boðið. Þeir bættu varnarleikinn og þegar við bættist að Breiðhyltingar gerðust heldur værukærir með þetta góða forskot náðu Kópavogsbúar undirtökunum. Þeir söxuðu hægt en örugglega á forskotið. Í fjórða leikhluta náði ÍR að halda sjó þegar allt gekk upp en ekki meira. Blikar sýndu mikla seiglu þegar þeir héldu sínu striki, sérstaklega gáfu þeir allt í leikinn síðustu þrjár mínúturnar og með fimm stigum Kenneth í röð var staðan 88:87 fyrir ÍR 27 sekúndum fyrir leikslok og gríðarleg spenna í húsinu. Eiríkur Önundarson skoraði þá úr tveimur vítaskotum þegar 6 sekúndur voru til leiksloka og í stað þess að taka þriggja stiga skot smeygði Kenneth sér í gegnum vörn ÍR og lagði boltann í körfuna. Fyrir það fékk hann tvö stig, einu of lítið, og greip um höfuð sér þegar hann gerði sér grein fyrir mistökunum.

"Fyrri hálfleikur var einn af okkar bestu í vetur en svo brotnum við niður í þriðja leikhluta og Blikar gengu á lagið þegar við vorum þá farnir að halda boltanum meira og þorðum ekki að taka áhættu," sagði Eggert Garðarsson þjálfari ÍR. "Stigin eru mjög mikilvæg og má segja að þau hafi tryggt okkur áttunda sætið í deildinni. Bæði erum við með sex stigum meira en Breiðablik og unnum innbyrðis viðureignina svo að þeir þurfa að vinna fjórum leikjum meira en við - það er ekki nóg að fá jafnmörg stig." ÍR-ingar náðu mjög vel saman framan af. Eugene var sterkur með 9 fráköst og Hreggviður Magnússon 8 en hann skoraði úr 5 af 7 þriggja stiga skotum sínum. og Eiríkur Önundarson var góður, hittni mætti þó vera betri; 3 af 6 inni í teig en ekkert af sex þriggja stiga skotum hans rataði ofan í en öll tíu vítaskotin.

"Við sýndum styrk með því að vinna mikinn mun niður en náðum ekki alveg að ljúka verkinu," sagði Ísak, sem átti góðan leik, hitti vel og tók 7 fráköst en Kenneth tók 15 fyrir utan að gera 36 stig. "Við spiluðum hörmulega í fyrri hálfleik en inni í búningsklefa í hálfleik náðum við upp baráttuanda og komum mikið betri til síðari hálfleiks. Það munaði öllu og við spiluðum betur, létum boltann ganga og náðum að brjóta upp svæðisvörn ÍR en það gerðum við einmitt ekki fyrir hlé."

Johnson fór á kostum í sigri á Hamri

Stevie Johnson fór á kostum með Haukum í gærkvöldi þegar liðið lagði Hamar í Hveragerði, 92:98, í hörkuleik. Stevie skoraði 47 stig í leiknum og tók 12 fráköst en án nokkurs vafa dró hann vagninn hjá Haukum gegn frískum Hamarsmönnum. Haukar höfðu frumkvæðiðmegnið af leiknum, en Hamarsmenn voru þó aldrei langt undan, komust nokkrum sinnum yfir og gat sigurinn hafa lent hvorum megin sem var. Haukar voru hins vegar sterkari á endasprettinum. Aðeins munaði þremur stigum á liðunum, 92:95, þegar um hálf mínúta var eftir, en gestirnir nýttu vítaskotin sín vel á lokasprettinum. Í hálfleik var staðan 38:47.

"Í öðrum leikhluta náðum við að spila góða vörn og héldum þeim í 11 stigum. Þeir komu aftur á móti tilbúnir í seinni hálfleiknum en við ekki. Þegar við náðum upp nokkrum mun slökuðum við á klónni og þeir komust aftur inn í leikinn. En ég get ekki verið neitt annað en ánægður með að ná tveimur stigum á þessum erfiða útivelli," sagði Reynir Kristjánsson, þjálfari Hauka, eftir leikinn.

Um hinn góða leik Johnsons sagði hann að Hamarsmenn ættu kannski ekki rétta manninn til að dekka hann. "Stevie er mjög fjölhæfur leikmaður, hraður og sterkur og getur spilað bæði fyrir utan sem innan. Líklega gerði hann gæfumuninn í þessum leik," sagði Reynir.

Pétur Ingvarsson, þjálfari Hamars, hélt því fram við Morgunblaðið að líklega væri Stevie einn besti bandaríski leikmaðurinn sem hefði komið til Hveragerðis í vetur. "Stevie fór langt með þá í þessum leik. Um leið og við komumst yfir þá héldu þeir áfram og komust aftur yfir. Við vorum alltaf að elta þá í þessum leik. Það eru nokkrir leikir eftir og við verðum að fara að taka okkur saman í andlitinu. Þetta hefur þó verið á réttri leið undanfarið, en við höfum trú á því sem við erum að gera," sagði Pétur.

Bestur í liði gestanna var án nokkurs vafa Johnson en einnig átti Halldór Kristmannsson góðan leik. Lið heimamanna var nokkuð jafnt en Keith Vassel var þó leiðtoginn og stjórnaði sínum mönnum. Lárus Jónsson leysti leikstjórnendahlutverkið vel af hendi og gaman var að sjá til Marvins Valdimarssonar.

Mikið fjör í Borgarnesi

Keflvíkingar gerðu botnbaráttu Skallagrímsmanna enn erfiðari með naumum sigri sínum í Íþóttamiðstöð Borgarness í gærkvöldi. Lokatölur leiksins urðu 88:93. Þessi leikur bauð upp á allar útgáfur, mikla pressu, sveiflukenndan leik, syrpu af þriggja stiga skotum, glæsileg gegnumbrot, troðslur, baráttu og stundum hálfgerð slagsmál svo eitthvað sé nefnt. Gestirnir byrjuðu með miklum látum, svo mikil var pressan á heimamönnum að þeir náðu varla að taka innkast fyrstu mínúturnar. Staðan var orðin 21:9 eftir tæplega tveggja mínútna leik. Þar fór fremstur Damon sem skoraði 15 stig í fyrsta leikhluta og leit út fyrir að ekki tækist að stöðva hann, en Skallagrímsmenn náðu að svara þessu. Nokkur glæsileg gegnumbrot hjá Donte Mathis gáfu heimamönnum sjálfstraust og eins átti Pétur Sigurðsson góða syrpu í þessum leikhluta. Ari Gunnarsson náði athyglisverðum árangri í því að stoppa Damon sem skipti miklu varðandi þróun leiksins.

Fyrsti leikhluti endaði 28:26 öllum að óvörum. Í öðrum leikhluta var allt í járnum, baráttan var alls ráðandi og einkenndist af frekar löngum sóknum. Villur og tæknivíti voru nokkuð algeng. Mikill hiti var í mönnum varðandi dómgæsluna. Keflvíkingar sem tóku mun fleiri fráköst, sérstaklega í sókn, hittu illa undir körfunni og voru óheppnir. Hálfleikstölur voru 47:44.

Í þriðja leikhluta keyrðu Skallagrímsmenn upp hraðann samfara því að Keflvíkingar voru afar mistækir í vörninni. Heimamenn spiluðu hratt og ákveðið sín á milli og voru óragir við þriggja stiga skotin. Þar fóru fremstir Milosh Ristic og Hafþór Gunnarsson sem skoruðu hvor um sig 11 stig í þessum leikhluta. Um tíma náðu heimamenn tuttugu stiga forskoti en Edmund Johnson og Damon Johnson sáu til þess að aðeins var tíu stiga munur þegar síðasti leikhluti hófst. Þarna kom hrina mistaka hjá heimamönnum. Þeir misstu boltann í þrígang í röð eftir að skotklukkan hringdi. Þetta leiddi til nokkurs ráðaleysis sem Keflvíkingar nýttu sér og jöfnuðu þegar sex mínútur voru til leiksloka. Eftir það höfðu þeir frumkvæðið og slepptu ekki því taki. Svæðisvörn þeirra gekk upp. Heimamenn reyndu að brjóta á Keflvíkingum á lokamínútunni en öruggar vítaskyttur Keflvíkinga sáu um að innsigla sigurinn.

Stefán Stefánsson skrifar