Aldrei hefur verið almennilega upplýst hvers vegna Hannes Hafstein var tekinn fram yfir Valtý en mig hefur lengi grunað að Magnús Stephensen landshöfðingi hafi átt þar hlut að máli.

Það hefur oft verið sagt að sagnfræðin fjalli fyrst og fremst um sögu sigurvegara; hún fjalli um Sesar, Gengis Khan, Karl mikla, Napóleón (sem reyndar tapaði á endanum) og fleiri slíka. Hver man nöfn þeirra leiðtoga sem töpuðu fyrir Sesar? Ekki nokkur maður.

Sömu örlög bíða þeirra sem tapa í stjórnmálabaráttu á Íslandi. Hver man t.d. eftir dr. Valtý Guðmundssyni?

Valtýr hefur alltaf verið minn maður og ég kemst enn í vont skap þegar ég hugsa til þess hversu nálægt hann var markmiði sínu að verða leiðtogi landsins þótt næstum 100 ár séu liðin frá því að hann tapaði orrustunni.

Valtýr var kjörinn alþingismaður Vestmannaeyinga 1894 og lagði fram á Alþingi nýjar hugmyndir sem hann vonaðist til að myndu rjúfa þá kyrrstöðu sem þjóðfrelsisbarátta Íslendinga hafði ratað í. Margir tóku tillögum hans fagnandi en fleiri brugðust ókvæða við og töldu Valtý vera svikara. Þar fór fremstur í flokki Benedikt Sveinsson, faðir Einars Benediktssonar skálds, en Benedikt tók upp merki Jóns Sigurðssonar þegar hann lést 1879. Frumvarp Valtýs gerði ráð fyrir að Íslendingar fengju eigin ráðherra en að hann sæti í Kaupmannahöfn, en það var mjög umdeilt. Sumir töldu að Valtýr væri að gefa of mikið eftir frá stefnu Jóns Sigurðssonar.

Valtýr lét ekki mótlætið buga sig heldur barðist einarðlega og á þinginu 1899 mátti litlu muna að frumvarp hans yrði samþykkt. Benedikt Sveinsson lá þá banaleguna, en notaði síðustu krafta sína til að greiða atkvæði gegn frumvarpinu.

Á næsta þingi, árið 1901 (en Alþingi kom þá saman annað hvert ár), mælir Valtýr enn einu sinni fyrir frumvarpi sínu og að þessu sinni er það samþykkt. Sigurinn virðist í höfn. En þetta sama ár fellur hægri stjórnin í Danmörku sem hafði verið við völd áratugum saman. Nýja stjórnin býður Íslendingum að taka stjórn eigin mála í sínar hendur og til viðbótar að ráðherrann sitji á Íslandi. Þetta kippir að nokkru leyti fótunum undan málflutningi Valtýs og gefur andstæðingum hans ný vopn í hendur. Valtýr berst þó áfram fyrir auknu sjálfstæði landsins og nýrri framfarasókn. Hitinn í pólitíkinni nálgast hámark og andstæðingar Valtýs berja á honum sem aldrei fyrr. Og það óvænta gerist. Valtýr fellur í kosningunum 1902. Að vísu fellur líka einn helsti andstæðingur hans, Hannes Hafstein, en ósigurinn var samt stór.

Valtýr gefst ekki upp og nær kjöri í alþingiskosningunum árið eftir, en flokkur Hannesar, Heimastjórnarflokkurinn, fær betri kosningu en flokkur Valtýs. Flokkarnir eru hins vegar óskipulagðir og óljóst er hvar þingmeirihlutinn liggur. Heimastjórnarflokkurinn gerir ekki formlega tillögu um ráðherraefni og Hannes og Valtýr fara saman á fund Alberti, sem fór með málefni Íslands í dönsku ríkisstjórninni. Spennan var mikil því enginn vissi hver yrði fyrsti ráðherra Íslands. Alberti velur Hannes.

Aldrei hefur almennilega verið upplýst hvers vegna Hannes Hafstein var tekinn fram yfir Valtý, en mig hefur lengi grunað að Magnús Stephensen landshöfðingi hafi átt þar hlut að máli. Þessi gamli refur hefur örugglega átt erfitt með að sætta sig við að Valtýr, sem var búinn að berja á honum árum saman, tæki við ráðherraembættinu. Hannes hafði verið ritari hjá Magnúsi og Magnús sendi hann til Ísafjarðar eftir að Skúli Thoroddsen var hrakinn úr sýslumannsembætti. Á meðan Valtýr og félagar hans börðust fyrir sjálfstæði landsins, stundum hálfvonlausri baráttu, sat Hannes á Ísafirði og beið eftir rétta tækifærinu. Hannes varð að vísu þjóðhetja, alveg óvart, þegar enskir landhelgisbrjótar sökktu báti hans og Hannes náði naumlega að bjarga lífi sínu. Hannes var líka þjóðskáld, en mér er ekki kunnugt um að Valtýr hafi getað barið saman vísu. Margir töldu líka að Hannes væri glæsilegri maður en Valtýr og raunar hefur það ratað í sögubækur að þetta hafi ráðið úrslitum þegar Alberti, þessi undarlegi maður sem seinna var dæmdur í tukthús fyrir skjalafals og þjófnað, valdi Hannes.

Valtý fannst örugglega að Hannes hefði stolið ráðherraembættinu frá sér og ég hef alla tíð verið sömu skoðunar. Hannes varð ráðherra vegna fegurðar sinnar og vegna þess að hann var vinur Magnúsar Stephensen og ekki spillti fyrir að hann var frændi Tryggva Gunnarssonar bankastjóra.

Að mörgu leyti fannst mér það gott á Hannes þegar hann tapaði kosningunum um Uppkastið árið 1908. Skúli Thoroddsen fór þá fyrir stjórnarandstöðunni og barði eftirminnilega á Hannesi og hans mönnum. Að sjálfsögðu var ekkert á Skúla að treysta enda gekk öll hans pólitík út á að vera á móti og þess vegna gat hann aldrei orðið ráðherra.

Hvað varð hins vegar um Valtý? Hann komst aldrei til valda en sinnti hins vegar kennslu við Hafnarháskóla. Nú man enginn eftir Valtý. Í Þjóðmenningarhúsinu er hins vegar herbergi sem kallað er Hannesarstofa og þar er ekkert minnst á Valtý.

Í dag eru 99 ár frá því að Hannes Hafstein tók við ráðherraembætti, sem þýðir að eftir eitt ár verður efnt til fagnaðar í tilefni aldarafmælis heimastjórnar á Íslandi. Þá munu menn örugglega fjalla ítarlega um Hannes og hans glæstu sigra. Ég á bara eina ósk þegar sú helgimynd verður teiknuð. Ekki gleyma Valtý, vini mínum. Hann á það ekki skilið.

Eftir Egil Ólafsson egol@mbl.is