Íbúar Volgograd hreinsa snjó við  dráttarvélaverksmiðju  þar sem skriðdrekar voru framleiddir í stríðinu.
Íbúar Volgograd hreinsa snjó við dráttarvélaverksmiðju þar sem skriðdrekar voru framleiddir í stríðinu.
VIÐ undirbúninginn að hátíðahöldunum í tilefni af því að 60 ár eru liðin frá því að Rauði herinn fagnaði sigri í orrustunni um Stalíngrad segja margir uppgjafahermenn að aðeins eitt vanti: borgin sem var varin af svo mikilli hetjulund er opinberlega ekki...

VIÐ undirbúninginn að hátíðahöldunum í tilefni af því að 60 ár eru liðin frá því að Rauði herinn fagnaði sigri í orrustunni um Stalíngrad segja margir uppgjafahermenn að aðeins eitt vanti: borgin sem var varin af svo mikilli hetjulund er opinberlega ekki lengur til.

"Í mínum augum verður hún alltaf Stalíngrad," segir Fjodor Kovalítsj, áttræður uppgjafahermaður sem klökknar er hann rifjar upp stríðið sem kostaði um 27 milljónir Sovétborgara lífið. "Allur heimurinn þekkir Stalíngrad og þá atburði sem hér áttu sér stað," segir hann.

Hreyfing sem berst fyrir því að borgin við Volgu fái aftur nafnið sem hún bar, er orðstír hennar varð mestur í veraldarsögunni, á um þessar mundir æ meiri meðbyrs að fagna. Forsvarsmenn hreyfingarinnar hvetja til þess að Stalíngrad-nafnið verði tekið upp á ný á þessu ári, í minningu um þá milljón sovézku hermenn og borgara sem dóu í baráttunni um borgina í síðari heimsstyrjöldinni.

Orrustunni um Stalíngrad - sem var vendipunktur í styrjöldinni - lauk 2. febrúar 1943, er Friedrich Paulus marskálkur gafst formlega upp í rústum stórverzlunar í miðborginni og var ásamt 91.000 öðrum þýzkum hermönnum - leifunum af 6. her þýzka hersins - tekinn til fanga af Sovétmönnum. Ósigurinn stöðvaði tilraunir Hitlers til að einangra kjarnalandsvæði Sovétríkjanna frá olíulindunum í suðri.

Sigur Sovétmanna varð dýrkeyptur. Stalíngrad, borg sem var stofnuð árið 1589, upprunalega undir nafninu Tsaritsyn, var rústir einar. Það þurfti að endurbyggja alla borgina frá grunni. Enn þann dag í dag segja íbúar Volgograd, eins og hún hefur heitið frá því 1961, að iðulega komi mannabein í ljós ef hrófla þarf við jarðvegi við byggingaframkvæmdir.

Hundruð þúsunda þýzkra hermanna féllu í orrustunni eða í stríðsfangabúðum síðar. "Ég gleymi aldrei röðinni af þýzkum stríðsföngum. Hún var endalaus," hefur AP eftir uppgjafahermanninum Praskoju Graschenkovu. Aðeins um 6.000 manns úr hópi stríðsfanganna lifðu það að snúa heim.

Pútín varar við að halda í sovézk tákn

Hámark minningarviðburðanna af þessu tilefni verður þegar aldurhnignir uppgjafahermenn Rauða hersins, ásamt æðstu fulltrúum valdhafa í Kreml og frá öllum rússneskum "hetjuborgum" Síðari heimsstyrjaldar, koma saman á hátíðarsamkomu í "Höll hernaðarlegrar dýrðar" í hinni endurbyggðu Volgograd á morgun, sunnudag. Boðsgestir verða yfir 2.500 og hlúð hefur verið að öllum minnismerkjunum 812.

Upprunalegt nafn borgarinnar, sem var dregið af titli Rússakeisara, vék árið 1925 fyrir Stalíngrad, í höfuðið á nýja Sovétleiðtoganum. En fljótlega eftir að Jósef Stalín féll frá þótti ekki lengur við hæfi að halda í nafnið sem minnti á harðstjórn "rauða einræðisherrans" sem milljónir Sovétborgara höfðu fengið að kenna á, og 1961 var hið sakleysislega Volgograd tekið upp í staðinn.

En þótt hreyfingunni um endurupptöku Stalíngrad-nafnsins hafi verið vel tekið meðal stjórnmálamanna í héraði og fulltrúa þess á þingi hefur Vladimír Pútín Rússlandsforseti ekki dregið neina dul á þann vara sem hann vill hafa á; hann lýsti því nýlega yfir að fara bæri með mikilli gát hvað öll pólitísk tákn frá sovéttímanum áhrærði.

En Mikhaíl Branovskí, sextán ára nemi í Volgograd sem segist vilja læra til kennara, styður Stalíngrad-tillöguna. "Upphaflega var Stalíngrad-nafnið gefið til heiðurs einum manni, en eftir orrustuna og sigurinn breyttist það," tjáði hann AP-fréttastofunni. "Nafnið varð að tákni fyrir hetjudáðir allrar þjóðarinnar. Það tengist ekki lengur Stalín."

Volgograd. AP.