FIMM skipverjar á Hugin VE65 eru enn innlyksa um borð í skipinu í höfn í Múrmansk í Rússlandi og hafa verið það síðan á þriðjudag. Ástæðan er sú að rússnesk yfirvöld segja vegabréf þeirra ógild.

FIMM skipverjar á Hugin VE65 eru enn innlyksa um borð í skipinu í höfn í Múrmansk í Rússlandi og hafa verið það síðan á þriðjudag. Ástæðan er sú að rússnesk yfirvöld segja vegabréf þeirra ógild.

Að sögn Gríms Gíslasonar, vélstjóra á Hugin, voru þeir að skila skipinu til Múrmansk þangað sem það hafði verið selt. Stóð til að þeir tækju rútu til Kirkenes í Noregi strax sama dag og þeir komu þangað. Þaðan ætluðu þeir að fljúga til Oslóar og síðan heim og voru þeir væntanlegir til landsins á miðvikudaginn var. Ekkert varð úr því þar sem rússneskir embættismenn neituðu að taka vegabréf þeirra gild. Þrjú vegabréfanna voru gefin út til bráðabirgða í Vestmannaeyjum skömmu áður en skipverjarnir héldu utan.

Loforð svikin æ ofan í æ

Grímur segir að í gær hafi tveir skipverjanna fengið að fara í land. Embættismennirnir hafi æ ofan í æ lofað að þeir mættu fara frá landinu en það hafi ævinlega verið svikið. Í gær hafi þeim verið sagt að embættismennirnir myndu koma með vegabréfsáritanir og fylgja þeim síðan úr landi í dag en þeir voru enn ókomnir með áritanirnar þegar klukkan var að nálgast níu í gærkvöld að rússneskum tíma. Sagðist Grímur því vonlítill um að þeir kæmust úr landi í dag. Hann segir ómögulegt að ekki sé hægt að treysta vegabréfum sem íslensk stjórnvöld gefi út. Þeir hafi snúið sér til íslenska sendiráðsins í Moskvu með vandræði sín sem ætlaði að vinna í málum þeirra en það hafi þó gengið hægt.