"FYRST heyrðum við hljóð sem við héldum að væri flugvéladrunur. Síðan kom svakalegur hvellur og blossi sem lýsti upp húsið," segir Elvar Árni Herjólfsson sem var að vinna með félaga sínum í skemmu við vélsmiðjuna Norma hf.

"FYRST heyrðum við hljóð sem við héldum að væri flugvéladrunur. Síðan kom svakalegur hvellur og blossi sem lýsti upp húsið," segir Elvar Árni Herjólfsson sem var að vinna með félaga sínum í skemmu við vélsmiðjuna Norma hf. á iðnaðarsvæðinu við Voga á Vatnsleysuströnd í gærmorgun þegar eldingu laust niður í húsið. Eldingin gerði gat á þakglugga fyrir ofan þá.

Elvar Árni og Davíð Hreinsson, 18 ára starfsmenn hjá Norma, voru inni í skemmu sem verið er að byggja við vélsmiðjuhúsið um klukkan níu í gærmorgun þegar eldingunni laust niður. Þeir voru uppi í körfu sem lyft var í um hálfs annars metra hæð, með borvél að vinna við klæðningu. Elvar Árni lýsir því svo að þeir hafi heyrt hljóð sem þeir héldu að væru flugvéladrunur þegar eldingunni laust niður í húsið með tilheyrandi hávaða og blossa. Húsið lýstist upp með bláum blossa. "Okkur dauðbrá, fengum hálfgert áfall," segir Elvar.

Borvél ónýt

Þegar þeir fóru síðan að líta á aðstæður sáu þeir stórt gat á báruplastglugga á þakinu, beint fyrir ofan þann stað sem þeir voru að vinna. Rafmagnið sló út og þegar búið var að koma því á aftur reyndist borvélin ónýt. Telur Elvar hugsanlegt að hún hafi leitt eldinguna en borvélin er með tvöföldu öryggi.

Símakerfið hjá Norma varð óvirkt um sama leyti og segir Þórhallur Ívarsson tæknifræðingur hjá Norma ekki útilokað að það hafi verið af völdum eldingarinnar og símkerfið í Vogum og Reykjanesbæ var raunar í lamasessi fram eftir degi.